Júlía Sylvía Gunnarsdóttir valin Skautakona ársins 2023

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir valin Skautakona ársins 2023

Skautasamband Íslands hefur valið Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur sem Skautakonu ársins 2023.
Þetta er er í fyrsta sinn sem hún hlýtur tilnefninguna.

Júlía æfir með Fjölni undir leiðsögn Benjamin Naggiar og keppir í Senior Women (fullorðinsflokki kvenna).
Júlía Sylvía er verðugur fulltrúi ÍSS þar sem hún er dugleg og staðföst á sínum ferli og mikil fyrirmynd innan íþróttarinnar. Hún hefur verið ötul við að fara erlendis og keppa bæði í Junior og Senior flokki til að öðlast frekari reynslu.

Júlía Sylvía hefur verið á góðri uppsveiflu undanfarin ár og staðið sig vel í keppnum bæði innanlands og erlendis. Í ár keppti hún í fyrsta sinn í Senior flokki á Vormóti ÍSS og lauk þar móti með 108.81 í heildarstig.

Júlía Sylvía byrjaði árið á því að keppa á Norðurlandamótinu í Junior flokki og hafnaði þar í 16. sæti með 114.34 í heildarstig.
Hún keppti fyrir hönd Íslands á Junior Grand Prix Istanbul, Tyrklandi, í byrjun september. Þar stóð hún sig prýðilega og hafnaði í 19.sæti af 35 keppendum með 110.20 stig.
Í kjölfarið var Haustmót ÍSS þar sem hún keppti í Senior flokki og náði 115.58 stigum.
Um miðjan október var förinni haldið til Katowice, í Póllandi, þar sem hún keppti í fyrsta sinn á opnu alþjóðlegu móti í Senior flokki. Þar hafnaði hún í 3.sæti með 112.21 stig og hlaut þar með brons verðlaun á aðþjóðlegu móti. Í byrjun nóvember keppti Júlía Sylvía í Senior á Volvo Cup í Riga, en þar fékk hún 127.94 stig og endaði í 8.sæti.
Í lok nóvember tók Júlía svo þátt á Íslandsmeistaramóti þar sem hún sló Íslandsmet í stuttu prógrammi með 49.18 stig og bætti sitt persónulega heildarstigamet með 131.30 stig og var krýnd Íslandsmeistari í Senior flokki kvenna.

Það verður spennandi að fylgjast með henni á næstu önn, nóg af metnaðarfullum markmiðum til að ná.

Júlía Sylvía hefur sýnt og sannað á sínum skautaferli að hún er kappsfull og metnaðarfull íþróttakona sem leggur sig mikið fram í sinni íþrótt og er öðrum iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar. Hún er því vel að þessum titli komin.

Skautasamband Íslands óskar Júlíu Sylvíu hjartanlega til hamingju með titilinn

Translate »