Skautasamband Íslands

Um ÍSS

Skautasamband Íslands (ÍSS) var stofnað árið 1995 og var í upphafi skipt upp í hlaupadeild og hokkídeild. Hlaupadeild Skautasambandsins hafði yfirumsjón með listhlaupi á skautum, auk þess sem gert var ráð fyrir að skautahlaup félli undir þá deild líka. Í nóvember 2004 átti sér stað aðskilnaður með stofnun Íshokkísambands Íslands. Þær greinar sem áður féllu undir listhlaupadeild tilheyrðu Skautasambandinu áfram en íshokkí fluttist yfir til hins nýja landssambands.

Aðildarfélög að Skautasambandi Íslands árið 2004 voru Skautafélagið Björninn, Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur. Í lok ársins 2019 voru þau fjögur: Skautadeild Fjölnis (sem áður var Skautafélagið Björninn), Skautafélag Akureyrar, Skautafélag Reykjavíkur og Skautadeild Asparinnar (félag án aðgreiningar).

Í febrúar árið 2000 fékk hlaupadeild Skautasambandsins tímabundna aðild að Alþjóðlega Skautasambandinu (ISU). Til þess að fá fulla aðild þá þurfti Hlaupadeild Skautasambandsins að uppfylla þær kröfur sem ISU setti en árið 2002 fékk sambandið fullgilda aðild og hefur verið aðili síðan. Frá þeim tíma hafa orðið miklar framfarir í listskautum á Íslandi og mikið uppbyggingarstarf átt sér stað. Með aðild hafa einnig opnast tækifæri til þátttöku erlendis sem áður voru ekki möguleg.

Verkefni Skautasambandsins eru fyrst og fremst að einbeita sér að uppbyggingu skautaíþrótta hér á landi, í menntun þjálfara og dómara sem og að koma fram fyrir hönd íslensku skautafjölskyldunnar hérlendis sem og erlendis.

Formenn Listhlaupadeildar frá upphafi:
1995 - 1996 Hannes Sigurjónsson
1996 - 1997 Marjo Kristinsson
1997 - 2004 Elísabet Eyjólfsdóttir
Formenn Skautasambands Íslands:
2004 - 2007 Elíasbet Eyjólfsdóttir
2007 - 2012 June Eva Clark
2012 - 2014 Björgvin Ingvar Ormarsson
2014 - 2016 Margrét Jamchi Ólafsdóttir
2016 - 2020 Guðbjört Erlendsdóttir
2020 - Svava Hróðný Jónsdóttir
Translate »