Íslandsmeistaramót ÍSS 2023

Íslandsmeistaramót ÍSS 2023

Íslandsmeistaramót ÍSS 2023

Um síðustu helgi, dagana 24.-26. Nóvember sl., fór fram Íslandsmeistaramót Skautasambands Íslands í Skautahöllinni á Akureyri.

Á laugardeginum fór fram keppni með stutt prógram.

Það voru skautarar í Advanced Novice sem hófur leika. Keppnisflokkurinn hefur stækkað töluvert og voru átta skautarar sem kepptu að þessu sinni.

Það er jákvætt að sjá keppnisflokka á efstu stigum stækka og nýjar kynslóðir taka við og bætast í hópinn.

Eftir keppni með stutt prógram var það reynsluboltinn í hópnum, Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, sem sat í efsta sæti með 29.09 stig, sem er hennar persónulega met. Hún skilaði öruggu prógrammi og einkunnin fyrir efnisþætti prógramms (e. Program Components) var mjög há sem styrkti stöðu hennar.

Í öðru sæti sat Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, Fjölni, hún er á sínu fyrsta ári í keppnisflokknum og kemur inn sem sterkur keppandi. Eftir fyrsta daginn var hún með 28.20 stig, svo það er mjótt á munum í efstu sætunum. Elín var með tæknilega sterkt prógram og öruggan 2A í byrjun prógrams.

Þriðja var Katla Karítas Yngvadóttir, SR, með 25.22 stig. Og sú fjórða Berglind Inga Benediktsdóttir, Fjölni, með 24.10 stig.

Næsti keppnisflokkur var Junior Women. Þar voru þrír skautarar að keppa.

Eftir keppni með stutt prógram var það Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, sem var efst með 39.82 stig, persónulegt met hjá henni. Hún skautaði öruggt prógram með flottum stökkum og með Level4 á öllum spinnum.
Önnur eftir stutta prógrammið var Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, með 28.31 stig. Því miður voru stökkin ekki að ganga nægilega vel hjá henni þennan daginn. Einnig fékk hún frádrátt fyrir að vera of lengi að koma sér inn á ísinn í stöðu, en skauturum er eingöngu gefnar 30 sekúndur til þess eftir að búið er að kalla upp nafnið þeirra.
Í þriðja sæti var svo Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR, með 22.90 stig. Hún fell í 2A í byrjun programs og átti erfitt með að koma sér á strik eftir það. En styrkleiki Dhörmu eru efnisþættir prógramsins og það vantaði alls ekki uppá hjá henni.

Síðasti keppnisflokkurinn var svo Senior Women. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni, er eini keppandinn í þeim keppnisflokki. Þetta er fyrsta keppnisárið hjá Júlíu í Senior flokki.

Júlía Sylvía átti stórgóðan dag. Og þrátt fyrir að Axelinn hafi verið einfaldur og hafi þar af leiðandi ekki talið til stiga, því að 2A er skylduæfing í stuttu prógrammi í fullorðinsflokki kvenna, fékk hún 25.15 tæknistig og 49.18 heildarstig fyrir stutta prógrammið. Með þessum stigum setti Júlía Sylvía Íslandsmet í stuttu prógrammi. Fyrra met átti Aldís Kara 47.31 frá árinu 2021. Einnig fékk hún fyrir sporasamsetninguna sína Level4 (StSq4) sem enginn íslenskur skautari hefur fengið áður. Frábært árangur hjá henni.

 

Á sunnudegi var keppni haldið áfram og var þá keppni í frjálsu prógrammi.

Í Frjálsu prógrammi er skautað í öfugri úrslitaröð frá deginum á undan. Þar sem mjótt var á munum í stutta prógramminu gat enginn séð fyrir hvernig sætaröðin myndi enda eftir keppni í frjálsu prógrammi og skautararnir lögðu allt sitt í keppni dagsins.
Indíana Rós Ómarsdóttir, SR, var í fjórða sæti í keppni dagsins með 39.97 stig fyrir frjálsa prógrammið. Það skilaði henni 5.sætinu og 62.68 heildarstigum.
Katla Karítas átti ekki eins góðan dag og daginn áður. Stökkin hennar voru undirsnúin (downgraded <<) sem dróg hana niður í fimmta sætið þann daginn með 38.26 stig fyrir frjálsa prógrammið og 4.sætinu í heildina með 63.48 í heilstarstig.
Berglind Inga Benediktsdóttir, Fjölni, átti góðan dag. Hún er með sterkt Cruella Deville prógramm og góðar einkunnir í efnisþættir prógramms (e.Program Components). Hún vann sig upp í þriðja sætið þann daginn með 43.28 stig fyrir frjálsa prógrammið og þriðja sætið samanlagt með 67.38 í heildarstig. Persónuleg met hjá henni.
Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, Fjölni, var næst síðust að keppa. Hún er með skemmtilegt prógram sem er tæknilega mjög sterkt. Fyrsta stökkserían hennar gekk því miður ekki upp eins og hún ætlaði sér en hún lét það ekki á sig fá og skellti í frábæra 2A+2T samsetningu í beinu framhaldi. Elín er ungur keppandi á sínu fyrsta ári í keppnisflokknum og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Hún fékk 52.60 stig fyrir frjálsa prógrammið og 80.80 heildarstig sem gaf henni 2.sætið í heildina.

Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, var síðust á ísinn þar sem að hún hafði verið efst eftir stutta prógrammið. Hún skautaði öruggt og fallegt prógramm. Stökkin hennar gengu öll upp og allt var skautað af miklu öryggi sem sýnir sig í eingöngu plúsum í einkunnagjöfinni og sterkum einkunnum fyrir efnisþætti prógramms (e.Program Components). Það skilaði henni 54.14 stigum fyrir frjálsa prógrammið og 83.23 heildarstigum og Íslandsmeistaratitlinum í Advanced Novice 2023, annað árið í röð.

Næsti keppnisflokkur með frjálst prógram var svo Junior Women.

Fyrst á ísinn var Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR. Hún átti mun betri dag þennan dag, en þó svo að ekki öll element hafi gengið fullkomlega og eitt fall hafið verið í lokastökkinu þá sýndi hún kraftmikið prógram. Hún fékk 49.36 stig fyrir frjála prógrammið 72.26 heildarstig sem skilaði henni 3.sætinu á mótinu.
Annar keppandinn í flokknum var Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA. Hún átti mun betri dag þennan daginn. Simon og Garfunkel fylgdu henni í gegnum hvert elementið á fætur öðru sem húm skilaði af sér af sóma. Hún fékk 58.48 stig fyrir frjálsa prógrammið og 86.79 í heildarstig og 2. sætið í heildina.

Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, var svo síðust á ísinn. Hún átti aftur stórgóðan dag, sýndi öruggar æfingar og fékk mjög góðar einkunnir fyrir efnisþætti prógramms. Hún fékk fyrir frjálsa prógrammið 71.73 og 111.55 stig í heildina og er því Íslandsmeistari í Junior Women 2023.

Síðasti keppnisflokkurinn var svo Senior Women.

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni, er sem fyrr segir eini keppandinn í þessum keppnisflokki.

Júlía skautaði tæknilega mjög erfitt prógram með sterkum stökkum og spinum. Það gekk ekki allt fullkomlega upp en hún skilaði æfingunum mjög vel af sér sem sýnir sig í góðum einkunnum fyrir efnisþækki prógramms (e.Program Components). Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 82.12 stig og í heildina 131.30 stig. Sem er persónulegt met fyrir hana. Júlía Sylvía er því Íslandsmeistari í Senior Women 2023.

 

Skautasamband Íslands þakkar fyrir frábært Íslandsmeistaramót og óskar nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju.

Translate »