Aldís Kara Bergsdóttir valin Skautakona ársins 2019

Aldís Kara Bergsdóttir valin Skautakona ársins 2019

Aldís Kara Bergsdóttir hefur verið valin Skautakona ársins 2019 af stjórn Skautasambands Íslands. Aldís Kara æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Darja Zajcenko og keppir í Junior Ladies (Unglingaflokki kvenna). Þetta er í fyrsta sinn sem hún hlýtur titilinn skautakona ársins.

Aldís Kara er verðugur fulltrúi ÍSS og vel að viðurkenningunni komin þar sem hún hefur sýnt mikinn dugnað og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur sýnt góðan stöðugleika í keppnum og verið á mikilli siglingu stigalega séð og náði hún á árinu lágmarks tæknistigum ISU í stuttu prógrammi.

Fyrir utan innlend mót á vegum ÍSS á árinu 2019 hefur Aldís Kara keppt á RIG, Norðurlandamóti, Junior Grand Prix  og á Halloween Cup.

Árið 2019 byrjaði Aldís á því að bæta stigamet hjá íslenskum skautara á RIG með 108,45 stig. Á Norðurlandamótinu hlaut hún 103,52 stig, en það eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. Á Vormóti ÍSS sýndi Aldís að hún er nálægt því að komast á ISU Junior Worlds þar sem hún náði lágmarks tæknistigum ISU fyrir það mót í bæði stuttu og frjálsu prógrammi, en ná þarf þessum lágmarksstigum á opnu alþjóðlegu móti til þess að öðlast keppnisréttinn.

Nýtt keppnistímabil hófst svo með því að Aldís keppti fyrir Íslands hönd á Junior Grand Prix mótaröðinni þar sem hún bætti stigamet íslensk skautara á þessari mótaröð og endaði með 106,43 stig. Aldís bætti Íslandsmet í frjálsu prógrammi á Haustmóti ÍSS 2019 en þar fékk hún 82 stig fyrir frjálst prógram en samanlagt 116,09 stig sem var einnig persónulegt met og nýtt Íslandsmet í heildarstigum. Á Halloween Cup náði Aldís Kara lágmarks tæknistigum ISU í stuttu prógrammi fyrir ISU Junior Worlds og er það mót opið alþjóðlegt mót. Aldís Kara hélt áfram að bæta sig persónulega og bætti eigið Íslandsmet á Vetrarmóti ÍSS þar sem hún endaði með 127,69 heildarstig. Hún lauk svo árinu með stæl og endaði sem Íslandsmeistari í Junior Ladies 2019 með 118,22 heildarstig.

Aldís Kara er kappsfullur íþróttamaður sem leggur sig fram í íþrótt sinni. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar.

Skautasamband Íslands óskar Aldísi Köru hjartanlega til hamingju með titilinn.

Translate »