RIG2019: Dagur 3 – Lokadagur

RIG2019: Dagur 3 – Lokadagur

Sunnudagurinn 3. Febrúar var lokadagur keppni í listskautum á Reykjavík International Games 2019. Fyrst kepptu Junior stúlkur og sýndu sínar frjálsu æfingar. Spennan var mikil enda höfðu flestir keppendur staðið nokkuð jafnt eftir skylduæfingarnar. Því mátti sjá tæknilega erfiðar rútínur hjá keppendum og margar atlögur að þreföldum stökkum. Sigurvegari í þessum flokki var Jocelyn Hong frá Nýja-Sjálandi sem hafði verið efst eftir skylduæfingarnar. Hún sýndi mikinn metnað í því að leggja í þrefaldan Lutz þó að hún hefði ekki náð fullum snúningi á hann. En hún náði að lenda tveimur tvöföldum Axelum, öðrum í samsetningu sem og þreföldum Salchow í samsetningu. Þá fékk hún level 4 á tvær af píróettunum sínum og level 3 á sporasamsetninguna. Íslenskir keppendur sýndu glæstan árangur í þessum flokki því silfurverðlaunahafinn, Aldís Kara Bergsdóttir, bætti íslenska stigametið fyrir frjálsar æfingar í Juniorflokki stúlkna um fimm stig en fyrra met hafði Emilía Rósa Ómarsdóttir sett 2015. Enn fremur bætti Aldís Kara heildarstigametið um fjögur stig en fyrra metið átti Kristín Valdís Örnólfsdóttir sem hún setti í fyrra. Rútínan hennar Aldísar Köru var með miklum ágætum og fékk hún meðal annars jákvæða framkvæmdareinkunn (Grade of Execution) á báða tvöföldu Axelana sína en sá fyrri var í samsetningu. Þá reyndi hún við þrefaldan Salchow og átti flottar píróettur, en ein þeirra var level 4. Aldís Kara mun keppa í næstu viku á Norðurlandamótinu (Nordics) sem fer fram í Svíþjóð. Í þriðja sæti varð svo Marta María Jóhannsdóttir en hún fékk góð heildarstig og setti þar persónulegt met. Hún sýndi góða rútínu þar sem hún reyndi við þrefaldan Salchow en náði ekki fullum snúningi ásamt því að falla. Á tveimur píróettum fékk hún level 4. Marta María fer út í næstu viku til að keppa á Vetrarólympíuhátíð evrópskrar æsku (EYOF – Winter European Youth Olympic Festival).

Þó að keppendur í junior flokki pilta væri einungis tveir og ljóst að báðir kæmust á verðlaunapall, slógu þeir ekki slöku við í sínum frjálsu æfingum. Þeir höfðu komið hingað til lands að bæta í reynslubankann og sýndu miklar listir á ísnum. Darian Kaptisch frá Ástralíu hlaut gullið en hann reyndi við þrjú þreföld stökk. Þrefald loop sem hann féll á, þrefalt flip og svo þrefalt toeloop sem var í samsetningu með tvöföldu toeloop og fékk hann jákvæða framkvæmdareinkunn fyrir það. Enn fremur fékk hann level 4 á tvær af píróettunum sínum. Silfurverðlaunahafinn, Jang Elliot frá Kínverska Taipei, reyndi við þrefaldan Salchow. Það var ákaflega gaman að fylgjast með piltunum. Vonandi verða fleiri karlkyns keppendur á næsta ári og að í framtíðinni verði einnig íslenskir piltar sem keppi á RIG.

Seinasta keppnin var keppni senior kvenna og var hún æsispennandi og glæsileg. Íslensku keppendurnir sýndu af sér mikla prýði í keppninni. Eva Dögg Sæmundsdóttir sýndi mikla þrautseigju og getur byggt á frammistöðu sinni á RIG þegar hún keppir á Norðurlandamótinu (Nordics) í næstu viku sem og á Vetrarháskólaleikunum (Winter Universiade) sem fram fara í Rússlandi í mars. Kristín Valdís Örnólfsdóttir var að keppa með frjálsu æfingarnar sínar í fyrsta skipti í senior flokk og gerði það vel. Margrét Sól Torfadóttir sýndi fallega rútínu og náði level 3 á öllum sínum píróettum. Nokkrar sviptingar urðu á þremur efstu sætunum frá skylduæfingunum. Svisslendingurinn Tanja Odermatt fór upp úr þriðja í sæti í það fyrsta og fékk þar af leiðandi gullið. Hún lenti nokkrum þreföldum stökkum, meðal annars þreföldu toeloop í samsetningu og þreföldum Salchow í samsetningu. Einnig fékk hún level 4 á allar sínar píróettur. Aiza Mambekova frá Kasakstan færðist niður um sæti frá skylduæfingunum en gerði samt sem áður eftirtektarverða rútínu þar sem líkt og Odermatt, fékk hún level 4 á allar sínar píróettur. Þriðja varð Morgan Flood frá Aserbaídsjan en þrjú af hennar þreföldum stökkum tókust vel, þrefalt toeloop í samsetningu og þrefaldur Salchow í samsetningu og svo stakur þrefaldur Salchow en á þá fékk hún bónus þar sem hún framkvæmdi þá í síðari helming rútínunnar.

Frábærri skautakeppni er nú lokið og hægt er að fara að hlakka til RIG á næsta ári. Það er ávallt gaman að fá sjá rjómann af íslensku skautafólki að keppa við mjög frambærilega erlenda skautara. Eitt er víst, allir keppendur fara heim reynslunni ríkari og áhorfendur geta glaðst yfir því að fá að njóta.

Translate »