RIG2019: Dagur 2 – Advanced Novice

RIG2019: Dagur 2 – Advanced Novice

Laugardagurinn 2. febrúar var annar dagurinn í keppni í listhlaupi á skautum á Reykjavík International Games 2019.
Fyrst skautuðu Advanced Novice stúlkur sínar frjálsu æfingar og var keppnin æsispennandi. Þriðja varð hin franska Jeanne Loez sem hafði verið önnur eftir skylduæfingarnar. Í hennar prógrammi voru tæknilega erfið atriði og hún reyndi m.a. við þrefaldan Salchow. Einnig stökk hún tveimur tvöföldum axelum, öðrum í samsetningu. Í öðru sæti varð Júlía Rós Viðarsdóttir sem fór upp um sæti frá skylduæfingunum og náði sínum persónulega besta árangi í keppni. Sigurvegarinn varð svo Anna Bodrone frá Ítalíu sem reyndi við þrefalt toeloop í sinni rútínu ásamt tveimur tvöföldum axelum, öðrum í samsetningu. Einnig náði hún level 3 á píróettunum sínum sem og sporasamsetningunni.

Þá öttu Junior stúlkur saman kappi í skylduæfingum en þar voru tíu stúlkur sem kepptu. Þar var keppni nokkuð jöfn og ekki var mikill munur á þeirri stúlku sem sat í níunda sæti og þeirri sem var í öðru sæti. Efst eftir daginn var Jocelyn Hong frá Nýja-Sjálandi en hún reyndi við tvö þreföld stökk, þar af annað í samsetningu. Sömuleiðis stökk hún tvöfaldan axel og náði level 4 á tveimur píróettum af þremur. Jocelyn náði lágmörum í tæknistigum fyrir Junior Worlds, eða yfir 23 stigum. Þetta er í fysta sinn sem hún nær þessum stigaviðmiðum og var það markmið hennar með komu á RIG, áður hafði hún náð stigaviðmiðum fyrir frjálsa prógrammið. Jocelyn er því á leið á Junior Worlds í Zagreb í Króatíu. Önnur var Marta María Jóhannsdóttir, hún reyndi við tvöfaldan axel og náði level 4 á eina af píróettunum sínum. Þriðja var svo Aldís Kara Bergsdóttir en hún stökk tvöföldum axel í upphafi rútínu sinnar. Fjórða var Tilda Liukkonen frá Finnlandi og fimmta var Silja Anna Skulstad Urang frá Noregi. Búast má við spennandi keppni þegar junior stúlkur keppa í frjálsum æfingum.

Tveir junior piltar kepptu á RIG í ár. Það er ávallt gaman að fá karlkyns keppendur í listskautum til landsins og eykur það á fjölbreytnina í keppninni. Báðir voru þeir komnir langt að, Darian Kaptisch frá Ástralíu og Jang Elliot frá Kínverska Taipei. Kaptisch var fyrstur eftir daginn. Hann stökk þreföldum Lutz í samsetningu og þreföldu flip. Þá fékk hann level 4 á tvær af píróettum sínum. Elliot, sem var annar, reyndi við þrefaldan Salchow í kómbói. Þá fékk hann level 4 á tvær pírótettur og svo level 4 á sporasamsetninguna sína. Því verður áhugavert að sjá hvað þeir hrista fram úr erminni í frjálsu æfingunum sínum.

Deginum lauk með keppni Senior kvenna. Þar voru níu keppendur sem kepptu í skylduæfingum. Tóku þrír íslenskir keppendur þátt, Eva Dögg Sæmundsdóttir sem var valin Skautakona ársins 2018 og hefur verið dugleg við keppa, Margrét Sól Torfadóttir sem er Íslandsmeistari 2018 í seniorflokki kvenna og svo Kristín Valdís Örnólfsdóttir sem er að taka þátt í fyrsta skipti sem senior keppandi en hún var í fimmta sæti eftir daginn. Efst var Aiza Mambekova frá Kasakstan, en hún er reyndur keppandi. Hún keppti á Vetrarólympíuleikunum í fyrra og svo náði hún áttunda sætinu á Asísku Vetrarleikunum (Asian Winter Games) í Sapporo 2017. Hennar aðalþjálfari er Kuralai Uzurova en hún hefur einnig notið leiðsagnar Alexei Mishin. Mambekova reyndi við tvö þreföld stökk í sinni rútínu og var annað þeirra þrefaldur Salchow með tvöföldum toeloop í samsetningu. Þá fékk hún level 4 á tvær af píróettunum sínum. Önnur var Morgan Flood frá Azerbaídsjan, en hún er gullverðlaunahafi senior kvenna á RIG 2018 og einnig vann hún gull í Junior flokki stúlkna á RIG 2017. Hún reyndi við tvö þreföld stökk í sínum skylduæfingum, þrefalt toeloop í samsetningu með tvöföldu toeloop og svo þrefaldan salchow. Í þriðja sæti eftir daginn var svo Tanja Odermatt frá Sviss. Hún náði level 4 á öllum sínum píróettum en það hefur oft verið einkenni skautara frá Sviss að gera flottar píróettur. Einnig reyndi hún við tvö þreföld stökk, þrefalt toeloop í samsetningu sem og þrefaldan Salchow. Í fjórða sæti var svo Marianne Stålen frá Noregi.

Búast má við því að lokadagur keppni í listhlaupi á skautum á RIG 2019 verði eitthvað sem unnendur skautaíþróttarinnar megi ekki missa af.

Translate »