Fríður hópur á International Childrens Games 2019

Fríður hópur á International Childrens Games 2019

Íslenskir skautarar verða í liðum ÍBA og ÍBR sem munu verða fulltrúar Akureyrar og Reykjavíkur á International Childrens Winter Games 2019 sem haldnir verða að þessu sinni í Lake Placid í Bandaríkjunum 6. - 11. janúar næstkomandi.

Leikarnir voru stofnaðir 1968 í Slóveníu og voru lengi framan af einungis með sumaríþróttum. Það var svo árið 1994 sem fyrstu vetrarleikarnir voru settir á laggirnar. Auk listhlaups er keppt í íshokkí, alpagreinum, gönguskíðum, freestyle skíðum, snjóbrettum, skíðaskotfimi, krullu og skautahlaupi.

Leikarnir eru haldnir undir merkjum Alþjóða Ólympíunefndarinnar og keppendur eru á aldrinum 12 til 15 ára og munu keppendur í listhlaupi keppa eftir reglum Advanced Novice. Hátíðin hefst á setningarathöfn þar sem borgarliðin ganga inn á leikvanginn undir sínum merkjum, dómarar og keppendur fara með eiða og skemmtiatriði verða í boði mótshaldara. Mikið er um dýrðir á meðan á leikunum stendur og allt gert til að gera atburðinn sem glæsilegastan og eftirminnilegastan fyrir þátttakendur. Tvisvar áður hafa keppendur í listhlaupi farið á þessa leika frá Íslandi sem þykja góður undirbúningur fyrir afreksfólk framtíðarinnar.

Tveir skautarar fara frá Akureyri, þær Júlía Rós Viðarsdóttir og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir. Frá Reykjavík fara þrír skautarar, Aníta Núr Magnúsdóttir, Herdís Heiða Jing Guðjohnsen og Rebekka Rós Ómarsdóttir. Íþróttabandalögin stóðu að vali þátttakenda á sínum vegum og fer lið farastjóra og þjálfara á þeirra vegum.

Skautakeppnin verður haldin í glæsilegum íþróttamannvirkjum Lake Placid, en Vetrarólympíuleikarnir voru einmitt haldnir í borginni árið 1980.

Heimasíða leikanna er https://www.lakeplacid2019.com

Skautasambandið óskar fulltrúum Akureyrar og Reykjavíkur góðrar skemmtunar og gengis á leikunum.

Freydís Jóna

Júlía Rós

Aníta Núr

Herdís Heiða

Rebekka Rós

Translate »