Eva Dögg Sæmundsdóttir valin Skautakona ársins 2018

Eva Dögg Sæmundsdóttir valin Skautakona ársins 2018

Eva Dögg Sæmundsdóttir var valin skautakona ársins 2018 af stjórn Skautasambands Íslands. Eva Dögg æfir með Ungmennafélaginu Fjölni undir leiðsögn Gennady Kaskov og keppir hún í Senior Ladies (Fullorðinsflokki kvenna). Er þetta í fyrsta sinn sem hún hlýtur tilnefningu til skautakonu ársins.

Eva Dögg hefur sýnt óbilandi þrautseigju, dugnað, eljusemi og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur sýnt einn mesta stöðugleika sem keppandi hefur sýnt hvað varðar þátttöku á mótum ÍSS og í þeim verkefnum sem hún hefur verið valin til af hálfu ÍSS á árinu. Eva Dögg er með 100% þátttöku á öllum mótum Skautasambandsins ásamt því að geta státað af framúrskarandi ástundun í afreksverkefnum ÍSS á árinu.

Eva Dögg tók þátt á Norðurlandamóti 2018, RIG 2018 og nú síðast á Autumn Classic International 2018.  Meðaltal af heildarskori Evu Daggar á árinu er 85.282.

Helstu afrek Evu Daggar eru þau að hafa tekið þátt í að brjóta blað í sögu íþróttarinnar með því að vera meðal fyrstu íslenskra skautara til þess að taka þátt fyrir Íslands hönd á Challenger mótaröðinni á árinu og er það sannarlega mikið afrek og lofsvert í sjálfu sér.  Mótið er hluti af ISU Challenger series mótaröðinni sem er næst í styrkleikaröð fyrir neðan Grand Prix mótin og reyna skautarar þar að ná góðum úrslitum til að koma til greina á þá mótaröð að ári. Mótin eru samtals tíu og eru haldin um allan heim. Umgjörð er mikil enda margir af bestu skauturum heims að taka þátt.

Eva Dögg er kappsfullur íþróttamaður sem leggur sig fram í íþrótt sinni. Hún er þrautseig og sýnir framúrskarandi ástundun. Eva Dögg er sannarlega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur bæði hvað varðar framkomu og viðhorf til íþróttarinnar og er því vel að þessum titli komin.

Skautasambandið óskar henni hjartanlega til hamingju með titilinn.

Translate »