

Halla Björg Sigurþórsdóttir stóðst próf Alþjóðaskautasambandsins til ISU réttinda dómara um síðustu helgi.
Að vera ISU dómari veitir einstaklingum, meðal annars, réttindi til þess að dæma á Evrópumeistaramóti og Heimsmeistaramóti og jafnframt á Ólympíuleikum.
Hún er fyrsti Íslendingurinn til þess að fá þessi réttindi.
Prófið sjálft er tekið yfir 48 klukkustunda tímabil og reynir mjög á þekkingu, sjálfstæði og kunnáttu dómara.
Undirbúningurinn fyrir prófið er áralangur þar sem ferðast er um allan heim að dæma á hinum ýmsu alþjóðlegu mótum í þeim tilgangi að öðlast reynslu og þekkingu sem þarf.
Það að íslenskur dómari fái þessi réttindi endurspeglar hversu langt íslenska skautaíþróttin hefur náð á ekki svo löngum tíma.
Skautasamband Íslands óskar Höllu Björgu innilega til hamingju með árangurinn.