Halla Björg Sigurþórsdóttir mun dæma á Evrópumeistaramóti Alþjóðaskautasambandsins (ISU), sem fram fer í Sheffield. Með þessu verður hún fyrsti Íslendingurinn til að sitja í dómarapanel á Evrópumeistaramóti ISU.
Halla hlaut ISU-dómararéttindi síðasta haust og er hún fyrsti Íslendingurinn sem fær slík réttindi. Um er að ræða æðstu dómararéttindi sem ISU veitir dómurum í listskautum og veita þau réttindi til að dæma á alþjóðlegum stórmótum. Hún er jafnframt stofnandi íþróttatæknifyrirtækisins Aiving, sem þróar nýstárlegar lausnir fyrir greiningu og þjálfun í íþróttum með flóknum hreyfingum.
Áður hefur Ísland átt fulltrúa á tæknipanel ISU, þegar Sunna Björk starfaði sem data operator,
Ísland á eitt keppnispar á mótinu, þau Júlíu Sylvíu og Manuel.
Halla Björg segir það mikinn heiður að vera fyrsti íslenski dómarinn til þess að sitja á dómarapanel á Evrópumeistaramóti. Mikil vinna liggur að baki þessum réttindum og vonandi verður þetta fyrsta stórmótið af mörgum.
