Föstudaginn þann 28. nóvember n.k. býður Erwin van der Werve, skautahlaupsþjálfari frá Akureyri í samvinnu við Styrktarfélag Skautahlaups á Akureyri og Eyjafirði, upp á skautabúðir fyrir skautara og þjálfara í skautahlaupi. Búðirnar verða í Skautahöllinni í Laugardal og eru ókeypis þátttakendum.
Skautahlaup verður kynnt áhugasömum og opið öllum. Sérstök fræðsla verður fyrir þjálfara en Erwin hefur verið duglegur við að ferðast erlendis til að afla sér frekari þekkingar í þjálfunarfræðum og tækni skautahlaupsins hjá erlendum sérfræðingum bæði í Hollandi og Finnlandi.
Búðirnar eru tvískiptar á ís og hefjast kl 17:00 með klukkustundar ístíma fyrir iðkendur keppnisflokka ÍSS og þjálfara þeirra. Þessi tími er opinn öllum og hvetjum við þá sem vilja kynna sér íþróttina betur, bæði skautara og þjálfara, að mæta. Hægt verður að prófa skautahlaupsskauta ef óskað er.
Kl. 18 hefjast búðir fyrir skautara Special Olympics frá skautadeild Aspar og þjálfara. Við vekjum athygli á að þessi tími er eingöngu fyrir þann hóp en þjálfarar utan Asparinnar eru hvattir til að kynna sér þjálfun skautahlaups í Special Olympics.
Eftir tímann hjá Special Olympics verður farið yfir afísæfingar í anddyri hallarinnar og þátttakendum kennt á skrið planka (slide board).
Lokatími kvöldsins er svo stutt fræðsluerindi um reglur í skautahlaupi og starfsfólk skautahlaupsmóta. Flytjandi erindisins er Þóra Gunnarsdóttir fulltrúi í Skautahlaupsnefnd ÍSS en hún var nýverið í í Svíþjóð að kynna sér þjálfun og keppnishald í skautahlaupi. Hefst þetta erindi í fundarherbergi skautahallarinnar efst í stúkunni kl 19:15. Erindið er opið öllum þátttakendum skautahlaupsbúðanna.
Verkefnið er styrkt af UMFÍ og ALLIR MEÐ.
