Skautakona ársins 2025
Stjórn Skautasambands Íslands, í samvinnu við Afreksnefnd ÍSS, hefur tilnefnt Sædísi Hebu Guðmundsdóttur sem skautakonu ársins 2025.
Sædís Heba er 16 ára og æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Jönu Omelinová. Þetta er í fyrsta sinn sem hún hlýtur tilnefningu til Skautakonu ársins.
Sædís hóf árið á keppni á European Youth Olympic Festival (EYOF) þar sem hún endaði í 23.sæti með 102.91 stig.
Síðar á tímabilinu keppti hún á Sonja Heine Trophy og endaði með 109.38 heildarstig og 13. sætið.
Sædís lauk síðan keppnistímabilinu 2024-2025 með trompi á Vormóti ÍSS. Þar hlut hún 44,55 stig í stuttu prógrammi, 74,37 stig fyrir frjálst prógram og 118,92 heildarstig. Þetta var nýtt persónulegt stigamet fyrir Sædísi.
Sædís var fulltrúi Íslands á báðum Junior Grand Prix mótaröðum á tímabilinu 2025-2026.
Fyrsta fór fram í Riga þar sem hún hlaut 99.32 stig og hið síðara í Gdansk þar sem hún hlaut 104,69 stig. Bætti Sædís árangur sinn á milli móta og sýndi stöðuga framfarir í sterkri alþjóðlegri keppni.
Sædís keppti næst á Northern Lights Trophy í Egilshöll og endaði, naumlega, í fjórða sæti með 103,53 heildarstig. Með þessum árangri vann hún sér inn 73 stig sem skila henni inn á heimslista fyrir Junior Women í 176 sætið (ISU World Standings - 2025/26 Jr Women). Hún er eini
íslenski kvenkyns skautarinn á listanum í dag.
Sædís Heba er fremsti íslenski skautarinn í Junior flokki og hefur sýnt sig og sannað með frammistöðu sinni bæði innan- og utanlands. Hún er metnaðarfull, einbeitt og sýnir mikla þrautseigju og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum.
Skautasambandið óskar Sædísi Hebu innilega til hamingju með titilinn og óskar henni góðs gengis á komandi tímabili.
Skautapar ársins 2025
Stjórn Skautasambands Íslands, í samvinnu við Afreksnefnd ÍSS, hefur tilnefnt Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur & Manuel Piazza skautapar ársins 2025.
Júlía Sylvía (20) og Manuel (26) eru á sínu öðru tímabili saman í paraskautun, búsett í Bergamo á Ítalíu þar sem þau æfa í Afreksmiðstöð Alþjóðlega skautasambandsins undir handleiðslu Rosanna Murante og Ondrej Hotarek. Þau æfa einnig að hluta til á Íslandi undir stjórn Benjamin Naggiar, yfirþjálfara Fjölnis en hann semur einnig prógröm þeirra.
Parið hóf árið á keppni á Evrópumeistaramóti ISU sem fór fram í Tallinn, Eistlandi, dagana 28.janúar til 2.febrúar 2025. Þar hlutu þau einkunina 48,58 fyrir stutta prógrammið og höfnuðu í 18.sæti, aðeins tveimur sætum frá úrslitum þar sem aðeins fyrstu 16 pör komast áfram.
Parið lauk síðan skauta tímabilinu 2024-2025 með þátttöku sinni á Road to 26, undirbúningsmót fyrir Ólympíuleikana 2026. Þar hlutu þau 50.54 stig fyrir stutta prógramið og 138.30 stig samanlagt og höfnuðu í 7. sæti.
Tímabilið 2025-2026 hófst síðan með trompi á Lombardia Trophy. Þar unnu þau sig inn nýtt persónulegt stigamet bæði í stuttu og frjálsu prógrammi og samanlagðri einkunn. Með þessari frammistöðu staðfesti parið sinn keppnisrétt á EM.
Næst hélt parið til Beijing á úrtökumót fyrir Ólympíuleikana. Þar var keppt um síðustu 3 sætin fyrir Ólympíuleikana 2026. 11 pör voru komin til leiks og hafnaði parið í 8 sæti með heildarstig upp á 152.03.
Næst tók parið þátt á Diamond Spin í Póllandi. Þar sigruðu þau með 140.40 stig í heildina, sem var 13 stigum hærra en parið sem hafnaði í öðru sæti. Þetta eru fyrstu gullverðlaun parsins og fyrstu gullverðlaun Íslands í paraskautun á alþjóðlegu móti.
Parið tók einnig þátt á Swiss open og hafnaði í 5. sæti með 144.33 stig samanlagt og á Cup of Innsbruck þar sem þau hrepptu bronsið með 154.16 stig.
Með þessari frammistöðu hefur parið tryggt sér 60 sæti á heimslista ISU (ISU World Standings - 2025/26 Pairs).
Júlía og Manúel áttu marga sögulega áfanga fyrir íslenskar skautaíþróttir á þessu ári. Fyrsta íslenska skautaparið til að taka þátt á evrópumeistaramóti, fyrsta parið til að taka þátt á úrtökumóti fyrir Ólympíuleikana og fyrsta parið til að vinna sér til gullverðlauna á alþjóðlegu
móti.
Frammistaða þeirra sýnir gífurlegar bætingar og munar einungis 5,51 tæknistigum að parið tryggi sér keppnisrétt á heimsmeistaramóti. Verður spennandi að fylgjast með þeim á komandi árum.
Skautasambandið óskar þeim Júlíu Sylvíu og Manuel innilega til hamingju með titilinn og óskar þeim góðs gengis á keppnistímabilinu.
