Skautaárið 2023

Skautaárið 2023

Skautasamband Íslands sendir skauturum, þjálfurum, aðstandendum, félögum og landsmönnum öllum óskir um farsælt komandi ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Í lok árs er tilefni til þess að líta yfir farinn veg og rifja upp þann árangur sem skautarar okkar hafa sýnt á árinu.

Árið 2023 hefur verið viðburðarríkt á mörgum sviðum fyrir skautaíþróttir.
Íslenskir skautarar hafa staðið sig vel bæði á innlendum og erlendum vettvangi og verður spennandi að sjá hvernig þeir munu standa sig á nýju ári.

Æfingabúðir í janúar

Við byrjuðum árið á æfingabúðum í Egilshöll.
Æfingabúðirnar voru tvískiptar. Þar sem annars vegar var landsliðið að undirbúa sig fyrir Norðurlandamótið og hins vegar var stór hópur ungra og efnilegra skautara að æfa undir leiðsögn Patrick O'Neil.

EYOWF

Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir keppti áÓlympíumóti Evrópsku æskunnar (e. European Youth Olympic Winter Festival - EYOWF)

Leikarnir fóru fram í Friuli Venexia Giulia á Ítalíu dagana 21. - 28. janúar.

Freydís Jóna fór til Ítalíu ásamt þjálfara sínum, Sergey Kulbach, og hópi frá Skíðasambandi Íslands.

Noridcs @RIG 2023

Norðurlandamótið 2023 var haldið í Skautahöllinni í Laugardal 1. - 5. febrúar undir heitinu Nordics @RIG 2023.

Mikið var um dýrðir og margir skautarar mættir til þess að keppa í Reykjavík á mótinu.
ÍSS var með fimm keppendur á mótinu. Í Advanced Novice kepptu þær Indíana Rós Ómarsdóttir og Sædís Heba Guðmundsdóttir og í Junior Women kepptu þær Lena Rut Ásgeirsdóttir, Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir.

Keppnin gekk mjög vel hjá íslensku skauturunum.

Eftir keppni í stuttu prógrammi hjá Junior Women (unglingaflokki) var Lena Rut Ásgeirsdóttir í 24. sæti og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir í því 6. á persónulegu stigameti, 46.64 stig.
Þetta eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið í stuttu prógrammi á Norðurlandamóti. Og einnig efsta sæti sem íslenskur skautari hefur setið í eftir skylduæfingar.
Svo fór að Júlía Sylva hafnaði í 16. sæti með 114.34 í heildarstig og Lena Rut í því 24. með 88.60 stig.
Freydís Jóna Jing þurfti því miður að draga sig út keppni vegna meiðsla.
Í Advanced Novice hafnaði Sædís Heba í 15. sæti með 67.74 stig og Indíana Rós með 50.28 stig.

Fjölnir Bikarmeistarar ÍSS 2023

Í lok Vormóts ÍSS varð ljóst hvaða félag hreppti titilinn Bikarmeistarar ÍSS 2023.

Félög safna stigum á mótum ÍSS yfir keppnisveturinn og tekur efsti keppandi frá hverju félagi stig fyrir félag sitt sem eru svo lögð saman eftir veturinn. Það félag sem stendur uppi með flest stig er bikarmeistari.

Þegar búið var að skoða úrslit mótsins var ljóst að listskautadeild Fjölnis stóð uppi sem sigurvegari Bikarmótaraðar 2023 með 56 stig.
Þetta er í fyrsta sinn sem Fjölnir fær bikarinn.

Aldís Kara hlýtur Silfurmerki ÍSS

Aldís Kara Bergsdóttir lagði skautana á hilluna eftir 15 ára feril í desember 2022. Að hennar eigin sögn höfðu listskautar verið allt hennar líf síðan hún steig fyrst á ísinn.

Þátttaka hennar er gríðarlega mikilvæg fyrir skautaíþróttir á Íslandi og framþróun þeirra. Hún er fyrsti íslenski skautarinn til þess að hljóta þátttökurétt og taka þátt á Heimsmeistaramóti Unglinga og á Evrópumeistaramóti fullorðinna í 27 ára sögu Skautasambandsins.

Allan sinn skautaferil hefur Aldís Kara verið gríðarlega mikilvæg fyrirmynd fyrir sér yngri skautara þar sem hún hefur ávallt unnið að sínum markmiðum af mikilli elju.

Fyrir hönd stjórnar ÍSS veitti Þóra Sigríður Torfadóttir og María Fortescue Aldísi Köru Silfurmerki ÍSS á Vormóti ÍSS 2023 á Akureyri, heimabæ Aldísar Köru.

24. Skautaþing ÍSS

24. Skautaþing ÍSS fór fram á Bryggjan Brugghús. Þingfulltrúar voru 23, frá 5 aðildarfélögum, en auk þeirra voru fleiri gestir á þinginu.
Þingforseti var Valdimar Leó Friðriksson, 2. þingforseti var María Fortescue.
Breytingatillögur sem teknar voru fyrir var til að mynda breyting á 5. grein laga um fulltrúafjölda á þingi sem hefur verið tekið fyrir í mörg ár í röð. Loksins mátti heyra sátt í hópnum um að koma á milliþinganefnd sem mun finna sanngjarnan farveg í málið en strax núna á þinginu var samþykkt að ekkert félag geti haft meira en 49% atkvæðavægi á þingi.
Hafsteinn Pálsson mætti fyrir hönd ÍSÍ og ávarpaði þingið. Hann sæmdi Þóru Gunnarsdóttur gullmerki ÍSÍ.
Þrír voru sæmdir Silfurmerki ÍSS;
Sólveig Dröfn Andrésdóttir
Hulda Líf Harðardóttir
María Fortescue

Æfingabúðir í júní

Æfingabúðir fyrir afrekshópa og afreksefni voru haldnar í Egilshöll í júní.
Að þessu sinni var gist í Grafarvogi og æft í Egilshöll.

Sondre Oddvoll Bøe, frá Noregi, kom sem þjálfari í æfingabúðirnar ásamt því að Nadia Margrét var með sjúkraþjálfun og fræðslu. Kameron Corbett var með danskennslu og Júlía Grétarsdóttir var með markmiðasetningu.

Foreldrar og forráðamenn aðstoðuðu svo á matamálstímum og skiptu með sér gistivöktum.

JGP

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir var fulltrúi ÍSS á JGP mótaröðinni árið 2023.

Hún keppti á einu móti í Istanbúl í Tykrlandi 6. - 9. september.

Ferðin á mótið gekk vel og fór hún ásamt þjálfara sínum, Benjamin Naggiar, fararstjóra, Evu Dögg Sæmundsdóttur og dómara, Maríu Fortescue.

Fyrir stutta prógrammið fékk hún 39.99 stig og var hún í 20.sæti eftir þann daginn.
Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 70.21 stig og var hún í 17. sæti þann daginn.
Samanlagt fékk hún því 110.20 heildarstig og hafnaði í 19. sæti.

Frábær árangur á JGP og með því besta sem íslenskur skautari hefur sýnt.

 

Landsliðsferð á Diamond Spin

ÍSS sendi landsliðshóp á Diamond Spin í Katowice í Póllandi.

Það voru fimm skautarar sem fóru til keppni ásamt þjálfurum, liðsstjóra og dómara.

Í Advanced Novice kepptu þær Sædís Heba Guðmundsdóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir.
Sædís Heba hafnaði í 5. sæti með 81.72 stig og Elín Katla í því 13. með 77.25 stig.

Í Junior Women kepptu þær Lena Rut Ásgeirsdóttir og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir.
Lena Rut hafnaði í 12. sæti með 94.06 stig og Freydís Jóna í 15. með 89.86 stig.

Í Senior Women var Júlía Sylvía að keppa í fyrsta sinn á aðlþjóðlegu móti í Senior flokki.
Hún fékk þar 112.21 í heildarstig sem skilaði henni 3. sætinu á mótinu. Frábær árangur og verðlaunasæti í fullorðinsflokki.

Júlía lagði svo leið sína til Riga á Volvo Cup þar sem hún fékk 127.94 stig sem færði henni 8.sætið á því móti.

Íslandsmeistarar 2023

Íslandsmeistaramót ÍSS 2023 fór fram í Skautahöllinni á Akureyri í nóvember.

Íslandsmeistarar ÍSS 2023 eru:

Senior Women:
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir

Junior Women:
Lena Rut Ásgeirsdóttir

 

Advanced Novice Girls:
Sædís Heba Guðmundsdóttir

Æfingabúðir í nóvember

Æfingabúðir fyrir afrekshópa voru haldnar í beinu framhaldi af Íslandsmeistaramóti í Skautahöllinni á Akureyri í nóvember.

Sondre Oddvoll Bøe kom aftur til okkar og fengum við einnig sérfræðinga sem höfðu verið á dómarapanel á Íslandsmeistaramótinu til þess að vinna með skauturunum.  Einnig voru Audrey Freyja Clarke, sjúkraþjálfari, og Richard Eirikur Taehtinen, íþróttasálfræðingur, með fræðslu.

Æfingabúðirnar voru stuttar og var frekar mikið álag á skauturunum á þessum stutta tíma. En mikilvæg reynsla engu að síður.

Skautakona ársins 2023

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni var valin Skautakona ársins 2023.
Þetta er í fyrsta sinn sem hún hlýtur titilinn.

Júlía Sylvía hefur verið á góðri uppsveiflu undanfarin ár og staðið sig vel í keppnum bæði innanlands og erlendis. Í ár keppti hún í fyrsta sinn í Senior flokki á Vormóti ÍSS og lauk þar móti með 108.81 í heildarstig.

Júlía Sylvía byrjaði árið á því að keppa á Norðurlandamótinu í Junior flokki og hafnaði þar í 16. sæti með 114.34 í heildarstig.
Hún keppti fyrir hönd Íslands á Junior Grand Prix Istanbul, Tyrklandi, í byrjun september. Þar stóð hún sig prýðilega og hafnaði í 19.sæti af 35 keppendum með 110.20 stig.
Í kjölfarið var Haustmót ÍSS þar sem hún keppti í Senior flokki og náði 115.58 stigum.
Um miðjan október var förinni haldið til Katowice, í Póllandi, þar sem hún keppti í fyrsta sinn á opnu alþjóðlegu móti í Senior flokki. Þar hafnaði hún í 3.sæti með 112.21 stig og hlaut þar með brons verðlaun á aðþjóðlegu móti.

Í byrjun nóvember keppti Júlía Sylvía í Senior á Volvo Cup í Riga, en þar fékk hún 127.94 stig og endaði í 8.sæti.
Í lok nóvember tók Júlía svo þátt á Íslandsmeistaramóti þar sem hún sló Íslandsmet í stuttu prógrammi með 49.18 stig og bætti sitt persónulega heildarstigamet með 131.30 stig og var krýnd Íslandsmeistari í Senior flokki kvenna.

Translate »