JGP Istanbul 2023

JGP Istanbul 2023

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir keppti fyrir hönd ÍSS á JGP í Istanbul, Tyrklandi, dagana 6. – 9. september sl. Þetta er þriðja árið sem Júlía Sylvía keppir á JGP og hennar fjórða JGP mót.
Júlía hélt til Istanbul með þjálfara sínum, Benjamin Naggiar, og liðsstjóra á vegum ÍSS, Evu Dögg Sæmundsdóttur. Með þeim í för var einnig dómari frá ÍSS, María Fortescue.

35 skautarar voru skráðir til keppni í Junior Women á þessu þriðja móti í JGP mótaröðinni.
Júlía Sylvía dró rásnúmer 35 fyrir stutta prógrammið og skautaði því síðust þann keppnisdaginn. Hún datt því miður í fyrsta stökkinu en hún lét það ekki á sig fá og skellti í flottan 2A og hélt stöðugu prógrammi eftir það. Sem skilaði henni 39.99 stigum fyrir stutta prógrammið og 20.sætinu eftir daginn.
Hún skautaði því í þriðja upphitunarhóp í frjálsa prógramminu daginn eftir.
Frjálsa prógrammið gekk ekki alveg jafn vel. Tvö föll í stökkum og downgrade (<) á 2T höfðu sín áhrif. Spinnarnir hennar eru alltaf öruggir og voru það líka þennan dag þrátt fyrir brösuleg stökk. Túlkun hennar og frammistaða eru hennar styrkleikar og sýndu sig í neðri partinum svokallaða og fékk hún góðar einkunnir þar þrátt fyrir föllin. Allt í allt skilaði hún góðu prógrammi og fékk fyrir það 70.21 stig og var í 17. sæti í frjálsa prógramminu.
Heildarstig Júlíu Sylvíu voru því 110.20 stig og samanlagt hafnaði hún í 19. sæti. Það er frábær frammistaða og getur Júlía Sylvía verið mjög stolt af sér. Skautasamfélagið á Íslandi er það !

Núna þegar Haustmóti ÍSS er lokið er undirbúningur fyrir Landsliðsferð ÍSS á Diamond Spin á lokametrunum sem og fleiri alþjóðleg verkefni hjá Júlíu Sylvíu.

Translate »