Haustmót ÍSS 2023

Haustmót ÍSS 2023

Haustmót ÍSS 2023 fór fram í Egilshöll um síðustu helgi.
Mótið fór vel fram og voru fjölmargir skautarar á öllum stigum sem sýndu hvað í sér býr.

Mótið hófst á laugardagsmorni með keppni í Félagalínu. Þar var keppt í öllum aldursflokkum allt frá 8 ára og yngri og upp í 15 ára og eldri, bæði stúlkur og drengir. Þetta eru oft stórir keppnisflokkar og hörð keppni á milli keppenda. Allt í allt frábær keppni þar sem að skautararnir lögðu sig alla fram sem sýndi sig í flottum prógrömmum og góðum frammistöðum.

Á eftir þeim var komið að keppnisflokkum Special Olympics / Adaptive Skating. Það var stór hópur skautara að keppa en keppt var í Level 1, 2, 3 og 4. Skautararnir framkvæmdu prógrömmin sín lystilega vel.

Eftir hlé hófst keppni hjá ÍSS keppnislínu.
Fyrst voru það ISU keppnisflokkarnir sem kepptu með stuttu prógrömmin. Í Advanced Novice hefur bæst þónokkuð við keppnishópinn og voru 8 skautarar skráðir til keppni. Eftir keppni með stutta prógrammið var það Bergling Inga Benediktsdóttir, Fjölni, sem var í efsta sæti, Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, Fjölni, sem var í öðru sæti og svo Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, í því þriðja.
Í Junior Women voru þrír keppendur skráðir til keppni. Eftir stutta prógrammið var það Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, sem var efst, Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, var önnur og Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR, var sú þríðja.
Einn keppandi keppir í Senior Women, Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni.

Það voru svo Basic Novice og Intermediate Women sem luku keppnisdeginum. Í Basic Novice sigraði Ylfa Rún Guðmundsdóttir, SA, Arna Dís Gísladóttir, Fjölni, var í öðru sæti og Kristina Mockus, SR, var í því þriðja. Það var Tanja Rut Guðmundsdóttir, Fjölni, sem sigraði í Intermediate Women. Í öðru sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir, Fjölni, og í þriðja sæti var Ágústa Ólafsdóttir, SR.

Á sunnudag byrjaði dagurinn á keppni hjá Chicks og Cubs. Þetta er fyrsta tímabilið þar sem keppt er í Unisex keppnisflokkum í yngstu keppnisflokkunum hjá ÍSS. Eins og áður eru ekki gefin upp stig eða sætisröð í þessum yngstu keppnisflokkum heldur fá allir keppendur þátttökuviðurkenningu.

Á eftir þeim kepptu sex stúlkur í Intermediate Novice. En svo skemmtilega vill til að þær eru allar úr Skautafélagi Reykjavíkur. Svo fór að Bára Margrét Guðjónsdóttir sigraði, önnur var Elín Ósk Stefánsdóttir og sú þriðja var Unnur Þorbjörg Ragnarsdóttir.

Að lokum fór svo fram keppni með frjálst prógram hjá ISU keppnisflokkunum.
Það urðu smá sviftingar á sætum í frjálsa prógramminu í Advanced Novice. Í frjálsa prógramminu var það Sædís Heba sem var efst, Elín Katla var önnur og Katla Karítas í því þriðja.
Heildarniðurstöður í keppnisflokknum urðu því þannig að sigurvegari í Advanced Novice er Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, Fjölni, með 76.93 í heildarstig. En þetta er hennar fyrsta mót í keppnisflokknum. Önnur var Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, með 76.68 í heildarstig, mjög mjótt á munum á milli sæta. Og sú þriðja var Katla Karítar Yngvadóttir, SR, með 67.88 stig.
Berglind Inga átti ekki jafn góðan dag í frjálsa prógramminu og hafnaði í fjórða sæti með 64.31 í heildarstig.

Junior Women voru næstar á ísinn. Þar hélst Lena Rut forystu sinni eftir fyrsta daginn og átti stórgóða keppnishelgi. Niðurstöður keppnisflokksins voru því að í fyrsta sæti var Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, með 95.34, í heildarstig, í öðru sæti var Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, með 70.36 í heildarstig, og í því þriðja var Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR, með 61.48 í heildarstig.

Síðasti keppnisflokkur helgarinnar var svo Senior Women. Sem fyrr segir er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni, eini keppandinn. Hún kláraði mótið með 115.58 í heildarstig.

Skautasamaband Íslands þakkar kærlega fyrir frábært mót og stórgóða byrjun á tímabilinu.
Sjálfboðaliðarnir okkar eiga hrós skilið fyrir þeirra frammistöðu.

 

Translate »