Skautaárið 2022

Skautaárið 2022

Skautasamband Íslands sendir skauturum, þjálfurum, aðstandendum, félögum og landsmönnum öllum óskir um farsælt komandi ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Í lok árs er tilefni til þess að líta yfir farinn veg og rifja upp þann árangur sem skautarar okkar hafa sýnt á árinu.

Það má með sanni segja að á árinu hafi orðið miklar framfarir, ýmis met slegin og stórum markmiðum náð. Íslenskir skautarar hafa staðið sig vel bæði á innlendum og erlendum vettvangi og verður spennandi að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér.

Nú horfum við til framtíðar með ný og stærri markmið með tilhlökkun og eldmóð.

Aldís Kara skrifar söguna fyrir listskauta á Íslandi

Við getum með stolti sagt að Ísland hafi átt fulltrúa á Evrópumeistaramóti Alþjóða skautasambandsins í byrjun árs.

Það var söguleg stund þegar Aldís Kara Bergsdóttir steig á ísinn í Tondiraba skautahöllinni í Tallinn í Eistlandi og hóf þar með þátttöku á Evrópumeistaramóti ISU, fyrst íslenskra skautara.

Aldís Kara er alls ekki ókunnug í íslensku skautasögunni en hún hefur á undanförnum þremur árum sett hvert metið á fætur öðru, fyrst sem skautari í unglingaflokki sem og nú sem skautari í fullorðinsflokki á stærsta sviði sem íslenskur einstaklingsskautari hefur stigið á.

Hún hefur margsett íslandsmet í báðum flokkum, er fyrsti íslenski skautarinn sem hefur fengið þrefalt Loop stökk gilt í keppni, fyrsti íslenski skautarinn til að ná alþjóðlegum stigaviðmiðum á Heimsmeistaramóti unglinga og nú fyrsti íslenski skautarinn sem nær alþjóðlegum stigaviðmiðum og tekur þátt á Evrópumeistarmóti í greininni.

Í keppnina í stutta prógraminu voru skráðir 36 keppendur en 24 komast áfram í frjálsa prógramið. Árangur Aldísar Köru skilaði henni í 34. sæti. Glæsileg frumraun íslensks skautara á Evrópumeistarmóti.

Norðurlandamótið 2022

Norðurlandamótið á listskautum fór fram 26.-30. janúar í Hørsholm í Danmörku. Það var mikil tilhlökkun í hópnum að komast loks á mótið þar sem að það var fellt niður á síðasta ári. Hluti hópsins hefur fyrri reynslu af Norðurlandamóti, en tvær voru að keppa þar í sitt fyrsta sinn.

Keppendur Íslands voru að þessu sinni fimm.

Í Advanced Novice kepptu Sædís Heba Guðmundsdóttir og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir. Í Junior Women kepptu Júlía Rós Viðarsdóttir og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og í Senior Women keppti Aldís Kara Bergsdóttir.

Með þeim í för voru tveir þjálfarar ásamt liðsstjóra, auk þess sem á dómara- og tæknipanel störfuðu þær Ásdís Rós Clark, Halla Björg Sigurþórsdóttir og Sunna Björk Mogensen.

Allt í allt gekk skauturum Íslands vel á mótinu, Júlía Rós hafnaði í 8. sæti í Junior Women með 108.22 í heildarstig.

Aldís Kara endaði með 119.75 í heildarstig og 9. sæti í Senior Women. En það eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. Bætti hún fyrra met um tæplega 27 stig.

Júlía Rós með gullverðlaun á RIG 2022

Reykjavík International Games 2022 fóru fram með venjulegu sniði eftir tveggja ára hlé. Tekið var á móti stórum hópi erlendra gesta ásamt fríðum hópi íslenskra keppenda. Mótið fór vel fram með góðri hjálp frá stórum hópi sjálfboðaliða. Allt leit út fyrir að ekki væri hægt að leyfa áhorfendur á mótinu, en stuttu fyrir mót var samkomutakmörkunum breytt og við gátum leyfti áhorfendur í stúrku.

ÍSS átti tvo skautara á verðlaunapalli í ISU keppnisflokkum. Aldís Kara fékk silfur í Senior Women og Júlía Rós Viðarsdóttir hreppti gullverðlaun í Junior Women.

Júlía Rós með hæstu stig íslensks skautara á EYOWF

European Youth Winter Olympic Festival – EYOWF, fóru fram í Vuokatti í Finnlandi í mars. Leikunum hafði verið marg frestað vegna Covid en gátu nú loksins farið fram. Fríður hópur skíða og snjóbrettafólks hélt til Finnlands auk eins listskautara sem að þessu sinni var Júlía Rós Viðarsdóttir.

Júlía Rós uppskar 115.22 stig  og hafnaði í 20. Sæti og setti EYOWF met fyrir Ísland.

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar er gífurlega gott og skemmtilegt tækifæri fyrir íþróttafólk til þess að upplifa liðsanda á stórmóti og létu liðsfélagar Júlíu Rósar í íslenska landsliðinu á mótinu vel í sér heyra úr stúkunni sem var bæði kærkominn og kraftmikill stuðningur við okkar konu. Mótið gerir listskauturum kleift að kynnast íþróttafólki í öðrum vetrargreinum bæði innlenda sem og erlenda og skapar skauturunum tengslanet framtíðarinnar þegar farið verður á stærri mót.

Skautafélag Reykjavíkur Bikarmeistarar ÍSS 2022

Í lok Vormóts ÍSS varð ljóst hvaða félag hreppti titilinn Bikarmeistarar ÍSS 2022.

Þegar búið var að skoða úrslit mótsins var ljóst að Skautafélag Reykjavíkur stóð uppi sem sigurvegari Bikarmótaraðar 2022 með 104 stig. Þetta er í fyrsta sinn sem SR fær bikarinn og mun nú varðveita hann í eitt ár.

ÍSS bauð á Skautahlaupskynningu

ÍSS bauð á opna kynningu á skautahlaupi. Kynningarnar voru tvær, í Skautahöllinni á Akuteyri og í Egilshöll í Reykjavík. Boðið var upp á frítt aðgengi inn á skautasvellin og á staðnum var leiðbeinandi sem aðstoðaði áhugasama með fyrstu skrefin og sýndi tækni sem þarf að nýta sér.

23. Skautaþing ÍSS

  1. Skautaþing ÍSS fór fram í húsnæði ÍSÍ við Engjaveg í Reykjavík þann 30. apríl

Svava Hróðný Jónsdóttir, formaður ÍSS, setti þingið og var Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri ÍSS, kjörinn þingforseti. Þingið var vel sótt af fulltrúum allra aðildarfélaga ásamt nefndarmönnum.

Stjórn setti fram nokkrar lagabreytingatillögur, þar sem ein var felld en aðrar samþykktar samhljóða.

Mótanefnd ÍSS veitti fjórar viðurkenningar til sjáflboðaliða. Viðurkenninguna hlutu Margrét Ösp Stefánsdóttir, Anna Gígja Krisjánsdóttir, Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Waleska Giraldo Þorsteinsson. Fengu þær blóm og bókina Sprakkar eftir Elizu Reid, forsetafrú Íslands.

Á þinginu voru þrír aðilar sæmdir Silfurmerki ÍSS:

Halla Björg Sigurþórsdóttir
June Eva Clark
Sunna Björk Mogensen

Halla Björg Sigurþórsdóttir fær alþjóðleg réttindi tæknistjórnanda (TC)

Í júlí lauk Halla Björg Sigurþórsdóttir prófi hjá Alþjóða skautasambandinu, ISU, sem gaf henni réttindi sem alþjóðlegur tæknistjórnandi (e. international technical controller (TC)).  Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur dómari tekur prófið og er Halla Björg því fyrsti íslenski dómarinn sem fær réttindi sem alþjóðlegur tæknistjórnandi.
Halla Björg var fyrir með réttindi alþjóðlegs dómara en það er nauðsynlegur fyrirvari þess að fá tæknistjórnanda réttindin.

JGP

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir var fulltrúi ÍSS á JGP mótaröðinni árið 2022
Hún keppti bæði í Ostrava í Tékklandi sem og í Egna á Ítalíu.

Ferðalagið til Ostrava gekk brösulega þar sem að flug voru felld niður og þurfti að finna ný flug með stuttum fyrirvara. En Júlía Sylvía lét það ekki á sig fá.

Tónlistin hennar við stutta prógramið er metnaðarfull og kraftmikil poptónlist flutt af Jimin með lagið Lie. Júlía Sylvía túlkaði hvert smáatriði í glæsilegri danshönnun Benjamins og náði afar flottum spinnum sem gengu fullkomlega upp hjá henni.

Fyrir stutta prógrammið uppskar hún 34.01 stig fyrir daginn og sat í 28. sæti sem setti hana í annan upphitunarhóp fyrir frjálsa prógramið. Fyrir frjálsa prógramið fékk Júlía Sylvía 50.28 stig sem er langt frá hennar besta og samanlagt 84.29 stig og 31. sæti í heildina.

Til stóð að Júlía myndi keppa í Yerevan í Armeníu. En það mót var fellt niður með stuttum fyrirvara vegna stríðsátaka á svæðinu. Ákvað ISU þá að þeir keppendur sem áttu keppnisrétt þar myndu fá úthlutuð sæti á öðrum JGP mótum og fékk Júlía Sylvía úthlutað Egna á Ítlaíu. Þar voru hæg heimatökin þar sem að Benjamín er heimavanur á svæðinu og gat fyrrverandi keppnispartnerinn hans verið liðsstjóri í ferðinni með þeim þar eftir að þau höfðu stoppað í æfingarundirbúningi í Bergamo.

Fyrir stutta prógrammið fékk hún að þessu sinni 40.50 stig og var í 30. sæti eftir daginn. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 58.74 stig og 38. sætið þann daginn. Samanlagt fékk hún þá 99.24 og 36. sætið á mótinu.

Special Olympics á Santa Claus Competition

Þann 3. Desember, á alþjóðadegi fatlaðra, kepptu iðkendur Special Olympics Iceland á Santa Claus Competition í Tampere í Finnlandi.

Allir keppendur komu vel fram, gerðu sitt besta, hvöttu hvort annað og aðra keppendur til dáða og voru til mikils sóma í allri framkomu. Sannir íþróttamenn.

Það voru sjö keppendur sem héldu til keppni í fjórum getuflokkum. Í Level 1 kepptu Bjarki Rúnar, Védís og Snædís Ósk og öll fengu þau gullverðlaun. Í Level 2 kepptu Hulda Björk og Þórdís og báðar fengu þær silfur verðlaun. Í Level 3 keppti Jóahanna og hún fékk gullverðlaun. Og í Level 4 fékk Sóldís Sara gullverðlaun.

Íslandsmeistarar 2022

Íslandsmeistaramót ÍSS fór fram í Skautahöllinni í Egilshöll í nóvember.

Íslandsmeistarar ÍSS 2022 eru:

Advanced Novice:
Sædís Heba Guðmundsdóttir

Junior Women:
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir

Skautakona ársins 2022

Aldís Kara Bergsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar var valin skautakona ársins 2022. Þetta er í fjórða sinn í röð sem hún hlýtur titilinn.

Aldís Kara Bergsdóttir tilkynnti nýverið að hún hefði lagt skautana á hilluna eftir 15 ára farsælan skautaferil. Hún æfði með Skautafélagi Akureyrar lengst af undir leiðsögn Iveta Reitmayerova en síðar Darja Zajcenko. Síðustu mánuði hafði hún fært sig yfir til Fjölnis og unnið þar undir leiðsögn Benjamin Naggiar.

Þátttaka hennar er mikilvæg fyrir alla íþróttina en hún er fyrsti íslenski skautarinn til að hljóta þátttökurétt á Heimsmeistaramóti Unglinga og á Evrópumeistaramóti í 27 ára sögu Skautasambandsins.

Allan sinn skautaferil hefur Aldís Kara verið gríðarlega mikilvæg fyrirmynd fyrir sér yngri skautara þar sem hún hefur ávallt unnið að sínum markmiðum af mikilli elju. Er ekki annað hægt að segja en að hún geti gengið stolt frá borði.

Kjör íþróttamanns ársins fór loksins fram með venjulegu sniði eftir tvö ár af örathöfnum. Allir útnefndir íþróttamenn sérsamband ÍSÍ komu saman og var þeim fagnað.

Af því tilefni var í fyrsta sinn valinn Eldhugi ársins. En það er nafnbót sem tilheyrir sjálfboðaliðum innan íþróttahreyfingarinnar. Sjálfboðaliðar voru tilnefndir og þrír voru valdir í úrslit. Af þeim þremur átti ÍSS einn fulltrúa, Þóru Gunnarsdóttur, sem er skautafjölskyldunni vel kunnug.

AÐ LOKUM

Þó svo að enginn geti sagt fyrir um framhaldið horfum við björtum augum til næsta árs og tækifæranna sem þá bjóðast. Við horfum bjartsýn fram á við og tökum spennt á móti nýju ári.

Á fyrstu mánuðum á nýju ári eru, líkt og vanalega, stærstu alþjóðlegu viðburðirnir á skautadagatali ÍSS. En að þessu sinni erum við gestgjafarnir og höldum Norðurlandamótið í Reykjavík samhliða Reykjavík International Games undir nafninu Nordics @RIG 2023.

Svona stórt mót er ekki hægt að halda nema með góðri hjálp frá sjálfboðaliðum og starfsfólki aðildarfélaganna okkar. Það er því viðeigandi að enda þetta á því að koma á framfæri innilegu þakklæti til allra sem komið hafa að vinnu ÍSS síðastliðið ár; sjálfboðaliðar, nefndarmenn, starfsmenn, keppendur, þjálfarar, stjórnir félaga, foreldrar og aðrir aðstandendur hafa hjálpast að við að gera umhverfi íþróttarinnar sem best og heilbrigðast og er það von stjórnar ÍSS að sú vinna muni halda áfram til enn betri vegar.

Translate »