Haustmót ÍSS 2022

Haustmót ÍSS 2022

Haustmót ÍSS 2022 fór fram um helgina í Skautahöllini í Laugardal.
Þetta er fyrsta mót tímabilsins á vegum Skautasambands Íslands og jafnframt fyrsta mótið í Bikarmótaröð ÍSS 2022 - 2023.

Haustmótið er alltaf mjög spennandi þar sem að nýjir keppendur mæta til keppni og eldri keppendur eru í mörgum tilfellum búnir að uppfæra prógrömmin sín fyrir nýtt tímabil.

Keppni hófst á laugardag og voru það skautarar í Basic Novice sem hófu leikinn. Það voru 9 stúlkur sem kepptu að þessu sinni en það var mjótt á munum á toppnum. Svo fór að Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, Fjölni, sigraði með 24.99 stig, önnur var Berdlind Inga Benediktsdóttir, Fjölni, með 23.37 stig og sú þriðja var Unnur Þorbjörg Ragnarsdóttir, SR, með 23.22 stig.
Það verður spennandi að fylgjast með þessum keppnisflokki í vetur og skauturunum í framtíðinni.

Næstar á ísinn voru Intermediate Novice. Þessi keppnisflokkur heldur áfram að stækka og kepptu 6 stúlkur þar um helgina. Sigurvegari flokksins var Sólveig Kristín Haraldsdóttir, SR, með 29.46 stig, í öðru sæti var Helena Katrín Einarsdóttir, SR, með 28.01 stig og í því þriðja var Bára Margrét Guðjónsdóttir, SR, 22.63 stig.

Þá var komið að Intermediate Women. Kennisflokkurinn er nokkuð jafn og þéttur. Þannig að allt getur gerst og keppendur þurfa að vera með allt sitt á hreinu. Að þessu sinni sigraði Rakel Sara Kristinsdóttir, Fjölni, með 32.53 stig, önnur var Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir, SR, með 26.78 stig og sú þriðja Tanja Rut Guðmundsdóttir, Fjölni, með 24.22 stig.

Eftir hlé tók við keppni með stutt prógram í ISU flokkum.
Í Advanced Novice kepptu tvær stúlkur, þær Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, og Indíana Rós Ómarsdóttir, SR. Sædís Heba er á sínu öðru ári í flokknum en Indíana Rós er að færast upp um flokk og var þetta því hennar fyrsta mót í flokknum og fyrsta mótið þar sem hún keppir með tvö prógröm. Eftir stutta prógramið var Sædís Heba ofar með 22.17 en Indíana Rós var með 15.96 stig.

Í Junior Women kepptu Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni, og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA. Júlía Sylvía er reynsluboltinn í flokknum og hefur undirbúningstímabilið hennar verið strangt þar sem að hún er fulltrúi ÍSS á JGP mótaröðinni í ár. Freydís Jóna er að færast upp um flokk og var þetta hennar fyrsta mót í Junior Women. Eftir stutta prógrammið var Júlía Sylvía ofar með 40.23 stig, sem er persónulegt met hjá henni, en Freydís Jóna með 27.20 stig.

Að lokkum var keppt í flokki Senior Women, en Aldís Kara Bergsdóttir er eini keppandinn. Aldís Kara gerði félagaskipti í haust og keppir nú fyrir Fjölni með nýjum þjálfara, Benjamin Naggiar. Fyrir stutta prógrammið fékk Aldís Kara 31.11 stig, sem er nokkuð neðar en hennar besta frammistaða.

Á sunnudegi hófu Chicks og Cubs leikinn. Í þessum keppnisflokkum er ekki raðað í sæti og ekki gefin út stig opinberlega. Allir skautarar frá þátttökuviðurkenningu.

Var þá komið að keppni með frjálst prógram í ISU flokkum.
Í Advance Novice hélt Sædís Heba efsta sætinu með 38.70 stig fyrir frjálsa og 60.87 stig í heildina. Indíana Rós fékk 27.13 stig fyrir frjálsa og 43.09 í heildarstig.

Júlía Sylvía hélt forystunni í Junior Women með 66.14 stig fyrir frjálsa sem skilaði henni 106.37 stigum í heildina, sem er persónulegt með hjá henni í heildarstigum. Freydís Jóna Jing fékk 45.06 stig fyrir frjálsa og 72.26 í heildarstig.

Í Senior Women fékk Aldís Kara 62.08 stig fyrir frjálsa prógrammið og 93.19 stig í heildina.

Heilt yfir gekk mótið mjög vel og sýndu skautararnir okkar frábæra frammistöðu. Við erum spennt fyrir því að fylgja þeim eftir á komandi tímabili sem hefur að geyma ótal tækifæri á öllum stigum.

Translate »