European Young Olympic Ambassadors Programme

European Young Olympic Ambassadors Programme

Kristín Valdís Örnólfsdóttir er þátttakandi í European Young Olympic Ambassadors Programme sem er á vegum Evrópska Ólympíusambandsins.

Kristín Valdís æfði listskauta í 14 ár og fór sjálf sem keppandi á EYOF árið 2015 í Liectenstein. Hún var í landsliðinu frá 11 - 20 ára aldurs, var Íslandsmeistari 2013 og 2016 og var valin Skautakona ársins 2017.
Kristín Valdís er núna að læra læknisfræði í Slóvakíu og stefnir á íþróttalækningar í framtíðinni.

Upphafið að þátttöku Kristínar Valdísar var þegar hún var valin til þess að fara sem sendiherra fyrir Íslands hönd á EYOF 2019 í Baku í Azerbaijan, en hún sótti þá um auglýsta stöðu hjá ÍSÍ. Hún hélt svo áfram í verkefninu sem "alumni" sem er einskonar leiðbeinandi fyrir aðra nýja sendiherra.

Við báðum Kristínu Valdísi um að segja okkur aðeins frá verkefninu og hennar aðkomu:
"Ég, ásamt 4 öðrum alumni, 18 sendiherrum og öðru fólki frá Evrópu sem er tengt íþróttahreyfingunni höfum unnið að þessu verkefni síðastliðin 2 ár. Vegna covid var leikunum frestað í fyrra en í staðin héldum við online EYOF leika. Svo síðastliðið hálft ár höfum við verið að skipuleggja EYOF Vuokatti leikana. Markmiðið með verkefninu og öllu því sem við gerum er að stuðla að og kenna ungu íþróttafólki um gildi Ólympíuleikanna og að upphefja Olympíuandann. Við gerum það með því að skipuleggja afþreyingu eins og til dæmis leiki, spurningakeppnir, podcöst og viðtöl við fyrrum Ólympíufara. Sendiherrarnir koma frá löndum Evrópu og er þeim skipt upp í 3 hópa; reporters, facilitators og promoters. Reporters sjá um samfélagsmiðlana og að gera verkefnið sýnilegt. Þau hafa verið að taka viðtöl við fyrrum Ólympíufara, meðlimi Evrópska Ólympíusambandsins, keppendur á EYOF o.s.frv.. Facilitators sjá um að skipuleggja og framkvæma leiki og fræðsluefni á svæðinu. Til dæmis hafa þau verið með Ólympíuhringina upp á vegg þar sem keppendur geta skrifað hvatningarorð. Við vorum líka með leik þar sem keppendur áttu að para saman dæmisögur um anti-doping við rétt hugtök svo sem fair play og fleira. Promoters hafa það hlutverk að fá keppendur til þess að koma á staðinn en þeir eru eiginlega blanda af facilitators og reporters. Verkefnið var fyrst haldið 2017 og erum við að vinna að því að betrumbæta það með hverju árinu. Næstu leikar verða haldnir í Banska Bystrica í Slóvakíu núna í sumar og verður EYOA programme á staðnum þar líka og ég verð þar aftur sem alumni."

Það er gaman að sjá að íþróttafólk heldur áfram að sinna íþróttahreyfingunni eftir að hafa hætt sinni iðkun. Það eru mörg tækifæri sem bjóðast og allir geta miðlað af sinni reynslu og þekkingu.

Translate »