Norðurlandamótið 2022

Norðurlandamótið 2022

Aldís Kara með stigamet á Norðurlandamóti

Norðurlandamótið á listskautum fór fram 26.-20. janúar í Hørsholm í Danmörku. Það var mikil tilhlökkun í hópnum að komast loks á mótið þar sem að það var fellt niður á síðasta ári. Hluti hópsins hefur fyrri reynslu af Norðurlandamóti, en tvær voru að keppa þar í sitt fyrsta sinn.
Mótið fór að þessu sinni fram í svokallaðri „Bubble“ sem þýðir að dagskráin var með öðru sniði en almennt er. Þannig var engin þjálfarafræðsla eða lokahóf og var fundur mótshaldara allra norðurlandanna haldinn með fjarfundarbúnaði. En þrátt fyrir þetta fór mótið vel fram og keppnin skilaði góðri reynslu.

Keppendur Íslands voru að þessu sinni fimm. Með þeim í för voru tveir þjálfarar ásamt liðsstjóra, auk þess sem á dómara- og tæknipanel störfuðu þær Ásdís Rós Clark, Halla Björg Sigurþórsdóttir og Sunna Björk Mogensen.

Keppni hófst á fimmtudegi með stuttu prógrammi hjá Advanced Novice.
Sædís Heba Guðmundsdóttir var fyrst á ísinn af íslenskum keppendum. Þetta er í fyrsta sinn sem hún keppir á Norðurlandamóti. Stigin hennar fyrir stutta prógrammið voru 22.70 sem færði henni 10. Sætið eftir daginn.
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir var næst íslensku skautaranna. Hún hefur reynslu af Norðurlandamóti. Fyrir stutta prógrammið fékk Freydís 21.23 stig og 11. sætið eftir daginn.
Á föstudag var svo keppt með frjálst prógramm í Advanced Novice.
Freydís Jóna Jing var fyrri inn á ísinn. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 43.58 stig og 9. sætið þann daginn. Heildarstig hennar voru 64.81 og 10. sætið að lokum.
Sædís Heba Guðmundsdóttir var nokkuð frá sínu besta og fékk fyrir frjálsa prógrammið 34.06 stig og 12. sætið þann daginn. Heildarstig hennar voru 56.76 og 12. sætið hennar.

Í flokkum Junior og Senior er Norðurlandamótið opið alþjóðlegt mót (Nordics Open). Það þýðir að öll landssambönd með aðild að Alþjóða skautasambandinu (ISU) geta sent skautara til keppni á mótinu og stigin gilda til lágmarka á úrslitamót ISU.

Í Junior Women kepptu þær Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Júlía Rós Viðarsdóttir fyrir Ísland.
Júlía Sylvía hóf keppni á fimmtudegi. Stökkin hennar voru því miður ekki alveg að ganga upp sem hefur bein áhrif á stigin í stutti prógrammi þar sem að um skylduæfingar er að ræða. Hún fékk fyrir stutta prógrammi 32.39 stig og 19. sætið þanni daginn.
Júlía Rós átti betri dag og fékk hún 40.60 stig og 10. sætið þanni daginn.
Keppni með frjálsa prógrammið í Junior Women fór fram á laugardag.
Júlía Sylvía átti þar mun betri dag og fékk hún fyrir frjálsa prógrammið 57.78 stig, persónulegt met hjá henni, 17. sætið þann daginn. Heildarstig hennar voru 90.17 og 19. sætið að lokum.
Júlía Rós skautaði sig upp um nokkur sæti. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 67.62 stig og 11. sætið þann daginn. Heildarstig hennar voru 108.22 stig sem skilaði henni 8. sætinu í heildina.

Í Senior Women átti Ísland einn fulltrúa, Aldísi Köru Bergsdóttur.
Á laugardegi var keppt með stutta prógrammið. Aldís Kara átti ágætan dag en það voru ekki öll element upp á sitt besta hjá henni. Framkvæmd hennar skilaði henni 42.09 stigum fyrir stutta prógrammið og 9. sætið þann daginn.
Á sunnudag var keppt með frjálst prógramm. Í frjálsa prógramminu voru frádrættir að hafa áhrif á loka stig hennar. Stigin hennar fyrir frjálsa prógrammið voru 77.66 og 9. sætið þann daginn. Heildarstig hennar voru 119.75 og 9. sætið að lokum. Þrátt fyrir hnökra á báðum prógrömmum náði Aldís Kara hæstu stigum sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. Fyrra met átti Eva Dögg Sæmundsdóttir frá árinu 2018 og bætti Aldís Kara metið um tæplega 27 stig.

Allt í allt var þetta frábær frammistaða hjá öllum íslensku skauturunum.

Það verður spennandi að fylgjast með þeim um næstu helgi, en þær eru allar skráðar til keppni á Reykjavík International Games (RIG 2022) sem fer fram í Skautahöllinni í Laugardal 4.-6. Febrúar.

Translate »