Íslandsmót barna og unglinga 2021: Fyrri keppnisdagur

Íslandsmót barna og unglinga 2021: Fyrri keppnisdagur

Í dag, laugardag, fór fram fyrri keppnisdagur á Íslandsmóti barna og unglinga 2021.

Mótsstjórn hafði skipulagt mótið vel og skipt skautahöllinni upp í þrjú sóttvarnarhólf. Allt var gert til þess að mótið færi vel fram og að allir þátttakendur gætu keppt rólegir og öruggir.

Dagurinn hófst með keppni í flokkum Chicks og Cubs.
Í þessum keppnisflokkum er ekki raðað í sæti, en allir keppendur og þjálfarar þeirra fá endurgjöf frá dómurum.
Í Chicks voru 9 stúlkur skráðar til keppni og í Cubs voru það 7 stúlkur sem kepptu. Allir skautarar sýndu frábæra frammistöðu og eiga þær framtíðina fyrir sér innan skautaíþrótta.

Næsti keppnisflokkur var Basic Novice. Þar voru 10 stúlkur sem mættu til keppni. Þessi keppnisflokkur hefur farið ört stækkandi síðustu árin og er alltaf spennandi að fylgjast með framþróun þessara skautara. Ljóst er að samkeppnin er hörð og margir skautarar sýndu mikla tilburði á ísnum í dag.
Úrslit fóru svo að Kristina Mockus, SR, sigraði með 25.90 í heildarstig. Hún sýndi frábær tilþrif og mikla framför frá síðasta móti. Önnur var Indíana Rós Ómarsdóttir, SR, með 24.87 heildarstig og sú þriðja var Berglind Inga Benediktsdtóttir, SA, með 22.77 heildarstig. Mjótt var á munum á milli allra sæta og var Helena Katrín Einarsdóttir, SR, í fjórða sæti innan við einu stigi á eftir því þriðja með 22.04 stig.

Á morgun, sunnudag, heldur keppni áfram á Íslandsmóti barna og unglinga þegar Intermediate Novice og Intermediate Women hefja keppni kl.10:30.

Translate »