Junior Grand Prix 2021

Junior Grand Prix 2021

ISU Junior Grand Prix of Figure Skating (JGP)  er mótaröð sem hófst árið 1997. Mótaröðin samanstendur af sjö mótum og einu úrslitamóti (ISU Junior Grand Prix of Figure Skating Final). Á mótaröðinni keppa skautarar sem eru á hraðri uppleið í skautaheiminum og gefur skauturum sem eru á aldrinum 13 til 19 ára tækifæri til þess að keppa á háu getustigi alþjóðlega.
Mótaröðin er nú haldin í 24. sinn.

Stigakerfi sem byggir á úrslitum móta er notað til að ákvarða hverjir vinna sér inn þátttökurétt á úrslitamótinu. Sex keppendur í hverri keppnisgrein (einstaklings kvenna og karla, pör og ísdans) keppa til úrslita.

Öllum keppnum á mótaröðinni er streymt beint á Youtube rás mótaraðarinnar.

Mótaröðin er svokallað kvótamót. Það þýðir að hver þjóð á rétt á ákveðnum fjölda keppenda á ákveðið mörgum mótum. Frá því að Ísland hóf þátttöku á mótaröðinni höfum við átt kvóta á tvö mót á mótaröðinni, einn keppanda á hverju móti. Keppnistímabilið 2021-2022 á Ísland í fyrsta sinn kvóta á þrjú mót, einn keppanda á hvert mót. En það orsakast af góðu gengi íslenska keppandans, Aldísar Köru Bergsdóttur, á Heimsmeistaramóti unglinga (ISU Junior World Championships) á síðasta ári.
Keppnistímabilið 2020-2021 var JGP mótaröðin felld niður og einnig heimsmeistaramót unglinga árið 2021. Það verður því spennandi að fylgjast með keppendum á mótaröðinni í ár þar sem að margir nýjir keppendur eru að koma fram á sviðið.

Stjórn ÍSS, með astoð afreksnefndar, hefur tekið ákvörðun um það hvaða skautarar hafa verið valdir sem fulltrúar Íslands á mótaröðinni.

Valið að þessu sinni fór fram með öðrum hætti en vanalega, þar sem að þeir skautarar sem eru með keppnisréttt í flokki Junior á tímabilinu gátu sent inn myndbandsupptöku af bæði stuttu og frjálsu prógrammi sem var svo dæmt af dómara- og tæknipanel líkt og um mót væri að ræða. Ef skautarar vildu koma til greina þurftu þeir að senda inn myndbönd. Framkvæmdin gekk vel og sér ÍSS fram á að halda svipuðum hætti áfram fyrir val á mótaröðina í framtíðinni. Með þessum hætti gefst öllum skauturum jafnt tækifæri til þess að koma til greina.
Eftir að niðurstöður voru fengnar fór afreksnefnd yfir þær og gaf út styrkleikalista. Þessi styrkleikalisti var svo grunnurinn að ákvörðun stjórnar um það hvaða fulltrúar væru valdir.

Aldís Kara Bergsdóttir keppir einnig í flokkir Senior Women (fullorðinsflokkur kvenna). Hún stefnir á að keppa á Nebelhorn Trophy í september nk. sem er loka úrtökumót fyrir Olympíuleikana sem fara fram á næsta ári. Var því tekin sú ákvörðun, í samráði við Aldísi Köru og þjálfara hennar, að hún muni einbeita sér að þeirri keppni og sé því ekki í fyrsta vali sem fulltrúi á JGP

 

Þeir skautarar sem valdir hafa verið til þátttöku á JGP árið 2021 eru því:

Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni.

Þær eru báðar að keppa í fyrsta sinn á mótaröðinni.

Niðurröðun keppenda á mótin er eftirfarandi:

18.-21. ágúst : Courchevel í Frakklandi & 25.-28. ágúst : Courchevel í Frakklandi
            Keppandi:
Júlía Rós Viðarsdóttir

Varamenn:
Aldís Kara Bergsdóttir
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir

22.-25. september : Ljubljana í Slóveníu
            Keppandi:

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir

Varamenn:
Aldís Kara Bergsdóttir
Júlía Rós Viðarsdóttir

Translate »