Vormót ÍSS 2021 – Dagur 1

Vormót ÍSS 2021 – Dagur 1

Í dag fór fram fyrsti keppnisdagur á Vormóti ÍSS 2021. En Vormótið er jafnframt síðasta mótið á keppnistímabili ÍSS 2020-2021.

Morgunin hófst á Kristalsmóti Fjölnis, sem er haldið samhliða Vormóti ÍSS.
Það myndast alltaf skemmtileg stemmning þegar mót í Félagalínunni og Special Olympics eru haldin á sömu keppnishelgi og ÍSS mótin. Margir keppendur voru skráðir til leiks og sýndu þeir allir frábær tilþrif á ísnum.

Á hádegi var komið að Keppnsiflokkum ÍSS á Vormótinu.
Fyrstar á ís voru stúlkurnar í Advanced Novice sem kepptu í dag með stutt prógram. Í þetta sinn voru einungis þrír skautarar mættir til keppni. Fyrsti keppandinn var Freydís Jóna Jin Bergsveinsdóttir, SA. Hún hefur verið sigursæl í keppnisflokkum allt síðasta tímabil og kom sterk inn á síðasta mótið með flott prógram. Framkvæmdin var góð og uppskar hún 35.19 stig sem er persónulegt met Freydísar. Næst á ísinn var Tanja Rut Guðmundsdóttir, Fjölni. Tanja Rut er á sínu fyrsta keppnistímabili í Advanced Novice og hefur hún náð góðum framförum. Heildarstig hennar fyrir stutta prógramið voru 21.45. Síðust í af stúlkunum var Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA. Sædís Heba er að keppa á sínu öðru móti í Advanced Novice, en síðustu ár hefur hún verið sigursæl í Basic Novice. Sædís Heba er að bæta stigin sín frá síðasta móti og endaði hún með 26.91 stig í dag.

Næstar á ísinn var Junior Ladies. Þar voru einnig eingöngu þrír skautarar skráðir til leiks. Fyrst að keppa var Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjöllni. Lena Rut var með góða tilraun í tvöfaldan Axel (2A) en því miður var hann undirsnúinn. Hún endaði með 27.76 stig í dag. Næst að skauta var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni. Hún reyndi við þrefalt Salchow (3S) sem því miður gekk ekki nægilega vel. Eftir daginn var hún með 32.88 stig. Síðust í keppnisflokknum var Júlía Rós Viðarsdóttir, SA. Júlía Rós sigraði glæsilega á Reykjavíkurleikunum í janúar og hélt leiknum áfram í dag þó svo að allt hafi ekki gengið fullkomlega upp. Hún er efst eftir daginn með 42.67 stig.

Þá var komið að Senior Ladies. Að þessu sinni eru tveir skautarar skráðir til keppni. ÍSS fagnar því að sjá þennan keppnisflokk stækka, en skrefið úr Junior upp í Senior getur reynst erfitt. Bæði eru kröfurnar heldur meiri en í þessum keppnisflokki eru skautarar komnir á efsta getustig listskautaíþróttarinnar og eru þá að keppa á stóra sviðinu alþjóðlega. Fyrst inn á ísinn var Aldís Kara Bergsdóttir, SA. Hún setti glæsilegt Íslandsmet á Reykjavíkurleikunum í janúar en hún hefur verið að vinna í að uppfæra bæði stutta og frjálsa prógramið hjá sér og gekk því miður ekki allt upp eins og það ætti að gera í dag. Aldís Kara endaði með 25.10 stig eftir stutta prógramið. Seinni keppandinn í Senior Ladies var Herdís Birna Hjaltalín, Fjölni. Þetta er fyrsta mót Herdísar Birnu í Senior flokki og var gaman að sjá hana keppa þar á móti Aldísi. Herdís Birna lagði allt sitt í prógramið og þrátt fyrir að einhver stökk hafi verið undirsnúin hjá henni uppskar hún 31.35 stig og er efst eftir daginn.

Aðrir keppnisflokkar í Keppnislínu ÍSS keppa eingöngu með frjálst prógram og réðust því úrslit í þremur flokkum í dag.

Í Basic Novice mættu 12 stúlkur til keppni. Stúlkurnar eru 10-12 ára og er mikill keppnisandi í hópnum, stærsta keppnisflokknum á mótinu. Þar sigraði Katla Karítas Yngvadóttir, SR, með 25.90 stig. Önnur var Berglind Inga Benediktsdóttir, SA, með 25.08 stig. Og sú þriðja var Elva Ísey Hlynsdóttir, Fjöllni, með 24.10 stig. Eins og sést er mjótt á munum hjá efstu skauturunum og verður spennandi að fylgjast með þeim á næsta keppnistímabili.

Intermediate Novice komu næst á eftir. Þar voru 5 skautarar sem kepptust um efstu sætin. Svo fór að Vilborg Gróa Bynjólfsdóttir, SR, sigraði með 25.08 stig. Önnur var Rakel Sara Kristinsdóttir, Fjölni, með 24.04 stig. Og sú þriðja var Hugrún Helga Einarsdóttir, SR, með 21.56 stig.

Síðasti keppnisflokkur dagsins var Intermediate Ladies. Í þetta sinn var bara einn keppandi skráður til leiks, en þær eru yfirleitt fleiri.
Þetta er flottur og spennandi keppnisflokkur sem er alltaf spennandi að fylgjast með. Í dag keppti Bríet Eiríksdóttir, SR, og stóð hún sig með prýði.

Flottum keppnisdegir er nú lokið.
Margir skautarar halda heim stoltir eftir daginn og tímabilið og hefjast strax handa við að undirbúa næsta tímabil.
Á morgun fer fram keppni í yngstu keppnisflokkum ÍSS, Chicks og Cubs, ásamt því að Advanced Novice, Junior og Senior keppa til úrslita með frjálst prógram.

Keppnis hefst á morgun, sunnudag, kl.10:00.
Streymi verður áfram á youtube síðu Listskautadeildar Fjölnis.

Translate »