Seinni keppnisdagur á Reykjavíkurleikunum / Íslandsmeistaramóti ÍSS

Seinni keppnisdagur á Reykjavíkurleikunum / Íslandsmeistaramóti ÍSS

Sunnudagur reis í skautahöllinni í Laugardal á lokadegi skautamóts Reykjavíkurleikanna. Keppni hófst með keppnisflokkum Chicks girls og Cubs girls/boys. Ekki er keppt um sæti í þessum flokkum heldur miðast þátttaka skautaranna við að fá endurgjöf dómara á frammistöðu sína. Tveir keppendur voru í Chicks og í flokki Cubs var einn drengur og fimm telpur. Allir voru afar spenntir fyrir deginum og stóðu sig með ágætum.

Eftir stutt hlé þar sem ísinn var heflaður var komið að frjálsu prógrami í eldri flokkunum. Keppendur í þessum flokkum keppa í öfugri úrslitaröð stutta prógramsins frá deginum áður. Stemmningin meðal keppenda var góð og margir fegnir að geta loksins sýnt sig á ísnum eftir langa bið.

Dharma Elísabet hóf leikinn í dag við Papa can you hear me með fallegri túlkun við fiðluútsetningu lagsins. Eftir örlítil mistök í byrjun prógrams gekk mest allt upp hjá henni. Stigin fyrir frjálsa prógramið voru 28,52 og í heildina fékk hún 45,03.
Tanja Rut var næst og skautaði prógramið sitt kröftuglega, gekk vel með elementin, sérstaklega með fallega vogarsamsetningu inn í einfaldan Axel og uppskeran fyrir var 36,12 stig. Í heildina fékk hún 53, 13 stig.
Næst var Sædís Heba með prógam við Alegria með Cirque du Soleil sem sýndi vel hve snörp hún er sem skautari. Með glæsilegan samsettan spinn halaði hún inn 50,41 stigum sem gáfu henni 77, 09 heildarstig.
Freydís Jóna var síðust en hún leiddi eftir stutta prógramið. James Bond var þemað í dag og opnunarstökksería var þriggja stökka með tvöföldum Axel, hálfu Loop, tvöföldu Salchow og strax á eftir annar tvöfaldur Axel en því miður föll í báðum. Það hins vegar gaf henni bara meiri byr í seglin og negldi hún restina af prógraminu með 54,93 stigum og í heildina 83,67 og tryggði henni gullið og Íslandsmeistaratitilinn.
Sætisröð breyttist ekkert frá laugardeginum en auk Freydísar Jónu Jing Bergsveinsdóttur varð önnur Akureyrarstúlka í öðru sæti, hin 12 ára Sædís Heba Guðmundsdóttir. Bronsið fékk svo Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni.

Junior flokkur kom næstur og hóf Lena Rut keppnina. Gekk henni með ágætum í nær öllum elementum og fékk fyrir frjálsa prógramið sitt 42,96 stig og í heildina 65,28 stig.
Eydís kom næst með tango sprengt prógram. Eins og fyrri daginn átti hún mjög góða sporasamsetningu  og sérstaklega glæsilegan samsettan spinn og áhugaverða innkomu í sit spinn. Með þessari frammistöðu halaði hún inn 51,76 stig og í heildina 80,42 stig.
Júlía Sylvía átti ísinn næst og opnaði með flottum tvöföldum Axel. Þrefalda Salchowið endaði því miður með falli en hún fylgdi því efti með fallegum spinn. Hún átti síðan glæsilega þriggja stökka seríu, alla með tvöföldum stökkum seinna í prógraminu og fékk 68,30 stig fyrir frjálsa og samanlögð stig urðu 102,65. Persónulegt stigamet hjá henni.
Síðust skautaði svo Júlía Rós en hún leiddi flokkinn með 11 stiga forskot frá fyrri deginum og því nokkuð ljóst að erfitt yrði að skáka henni. Hún skautaði sitt prógram við tónlist úr Carmen og opnaði með glæsilegu þreföldu Salchow í samsetningu með tvöföldu Toeloop og svo strax á eftir tvöfaldan Axel og síða annað þrefalt Salchow. Spinnar voru hnökralausir og vel miðjaðir og stökkin sem á eftir komu góð með einu falli. Stigin fyrir prógramið 82,50 og 128,37 í heild. Persónulegt stigamet hjá Júlíu Rós. Glæsileg frammistaða hjá þessum efnilega skautara frá SA og Íslandsmeistaratitillinn í hús . Önnur varð því Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni og þriðja Eydís Gunnarsdóttir frá SR.

Síðasti keppandi dagsins var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA. Töluverð eftirvænting var eftir að sjá hana spreyta sig í senior flokki eftir tvö velgengnisár í Junior flokki. Aldís Kara er afar sterkur skautari og snörp og hóf leikinn með þreföldu Salchow í þriggja stökka seríu með tveimur tvöföldum stökkum, strax á eftir tvöföldum Axel og síðan þreföldu Toeloop í samsetningu með tvöföldu stökki. Seinna bætti hún um betur og lagði annað þrefalt Salchow. Stigin urðu 82,51 og í heildina 123,44 og bætti bæði Íslandsmetið í frjálsu prógrami sem og heildarstigin en fyrri met átti Margrét Sól Torfadóttir frá árinu 2018.
Allt gekk upp hjá Aldísi í dag og eftir glæsilega frammistöðu í Senior hér verður gaman að fylgjast með henni, í vonandi náinni framtíð, þegar hún fer að reyna við lágmörk inn á stórmót erlendis.
Aldís Kara Bergsdóttir, SA, er Íslandsmeistari 2020 í Senior og með gull á Reykjavíkurleikunum 2021 í ofanálag.
Hún fékk einnig Úrslitaverðlaun RIG (Best Results) en þau eru veitt stigahæsta skautara í efsta flokki á mótinu. Sannarlega glæsilegur árangur.

Skautasambandið óskar öllum keppendum á mótinu innilega til hamingju með frábæran árangur.

Translate »