JGP mótaröðin felld niður tímabilið 2020-2021

JGP mótaröðin felld niður tímabilið 2020-2021

Þróun og útbreiðsla COVID-19 er engu nærri hætt. Frekari ferðatakmarkanir hafa verið settar á í ýmsum löndum sem og inngönguskilyrði eða takmarkanir í einstök lönd. Verður þetta til þess að torvelda skauturum ferðalög sem og að mörg landssambönd hafa nú þegar sett takmarkanir á sína skautara út árið 2020.

Alþjóða skautasambandið, ISU, setti saman vinnuhóp sem, samkvæmt ráðleggingum læknanefndar, lagði til að Junior Grand Prix mótatöðin fyrir tímabilið 2020/21 yrði felld niður. Fyrir höfðu fjölmargir skipuleggjendur þegar fellt niður sín mót í mótaröðinni.
Er þetta gert til þess að vernda skautara fyrir óþarfa ferðalögum og útsetningu fyrir smitum.
Enn fremur var orðið nær ógerlegt fyrir mótshaldara að skipuleggja viðburðina þar sem reglur varðandi ferðalög og fjöldasamkomur eru mismunandi og síbreytilegar.

Þau mót sem hafa ekki þegar verið felld niður mega fara fram, en gefa ekki JGP stig.
Það er ákvörðun hvers landssambands fyrir sig um það hvort að þau sendi skautara til keppni og þá á hvaða mót.

Translate »