Aldís Kara á Heimsmeistaramóti Unglinga 2020

Aldís Kara á Heimsmeistaramóti Unglinga 2020

ISU World Junior Figure Skating Championships

Aldís Kara Bergsdóttir keppti um helgina, fyrst íslendinga, á Heimsmeistarmóti Unglinga sem núna stendur yfir í Tallinn í Eistlandi. Keppt var með stuttu prógrami á föstudag og hafði Aldís dregið rásnúmerið 19 en 48 keppendur voru skráðir til leiks í greininni. Sýnt var beint frá keppninni á Youtube síðu Alþjóðaskautasambandsins ISU og fylgdist íslenska skautafjölskyldan spennt með um allt land. Reglur eru þannig að af þeim 48 sem hefja leik komast 24 stigahæstu eftir stutta prógramið áfram í frjálsa prógramið sem fór fram á laugardag. Aldís steig fyrst á ísinn í sínum upphitunarhópi, sem var sá fjórði í Junior Ladies. Íslenska liðið hefur verið í Tallinn síðan á mánudag og hefur Aldís haft góðan tíma til að venjast aðstæðum og ekki síst að vera undir stöðugu vökulu auga myndavéla sem og stærð skautahallarinnar sem keppt er í. Í prógraminu hennar voru plönuð þrjú stökkelement, þrjú spinn element og sporasamsetning. Það eru svo erfiðleikastig elementanna og gæðin sem þau eru framkvæmd á sem ákvarða stigin eftir fyrirfram ákveðinni stigatöflu útgefinni af ISU. Aldís opnaði með góðum tvöföldum Axel á plús og tveimur spinnum á Level3 áður en hún skellti sér í þrefalt Salchow í samsetningu með tvöföldu Toeloop. Skyldustökk í junior í ár er Loop og er val um að hafa það tvöfalt eða þrefalt og reyndi okkar kona þrefalt í dag sem hún kláraði með glæsibrag þrátt fyrir að eilítið vantaði upp á snúninginn á því. Þegar stökkin voru komin í hús kýldi Aldís með krafti á sporasamsetninguna sem hún fékk dæmda á Level3 og lokaði svo prógraminu með Level4 samsettum spinn. Sannarlega glæsileg frammistaða hjá henni á þessari frumraun hennar á Heimsmeistarmóti Unglinga sem um leið er frumraun Íslands á mótinu. Stigin sem hún fékk fyrir voru 44.85 sem skilaði henni 35 sæti, af 48 keppendum, og jafnaði hún næstum því stigamet sitt frá Reykjavik International Games í janúar s.l. Þetta nægði þó ekki til að komast í frjálsa prógramið þar sem skautararnir voru hver af annarri að fá há stig og var cut-off inn í 24 kvenna hópinn um 50 stig.

Úrslit mótsins er að finna hér.

Þetta er frábær byrjun fyrir Aldísi á Heimsmeistaramóti og gríðarlega stórt skref í íslenskri skautasögu.

Skautasamband Íslands óskar Aldísi Köru til hamingju með frábæran árangur !

Að lokinni keppni á mótinu fór svo fram Closing Banquet (Lokahóf) þar sem keppendur og liðsstjórar komu saman og fylgdust með skemmtiatriðum, borðuðu góðan mat og skemmtu sér saman fram eftir kvöldi í leikjum og dansi.
Á sunnudag fer svo fram lokasýning mótsins þar sem þeir skautarar og pör sem höfnuðu í efstu sætunum sýna sýningarprógröm ásamt sérstökum gestum í boði mótshaldara.

Translate »