Aldís Kara vann sér inn keppnisrétt á ISU Junior Worlds 2020

Aldís Kara vann sér inn keppnisrétt á ISU Junior Worlds 2020

Aldís Kara mun keppa á ISU Junior Worlds 2020 í Tallin, Eistlandi.

Sá merki atburður gerðist í íslensku skautasögunni í dag að Aldís Kara Bergsdóttir var fyrst íslenskra einstaklingsskautara til að tryggja sér tæknistig Alþjóðaskautasambandsins, ISU, sem veita henni keppnisleyfi á Heimsmeistarmót Unglinga í greininni (ISU Junior Worlds). Tæknistigin er helmingur einkunnar hvers prógrams og fer eftir erfiðleikastigum elementanna sem skautarinn framkvæmir. Í stuttu prógrami þarf að ná lágmark 23 stig og í frjálsa prógraminu 38 stig. Ekki þarf að ná stigunum í báðum prógrömunum á sama móti en mótin þurfa að vera á lista Alþjóðasambandsins til þess að stigin gildi. Áður hefur einungis íslenskt lið í samhæfðum skautadansi farið á heimsmeistaramót en það var árin 2002 og 2003.

Aldís Kara náði tæknistigum í stutta prógraminu á Halloween Cup í október s.l. og svo aftur á Reykjavíkurleikunum fyrir rétt tveimur vikum. Norðurlandamótið var síðast möguleikinn að ná stigunum fyrir Heimsmeistaramótið svo mikið lá undir.

Aldís Kara mætti einbeitt til leiks í dag í frjálsa prógramið og var ljóst að hún ætlaði sér að ná lágmarkinu sem hún gerði svo um munaði því hún fékk 43.34 tæknistig í frjálsa prógraminu sem er heilum 5.34 stigum yfir lágmarkinu.

Þessi áfangi er ekki sá eini sem Aldís náði í dag því með frammistöðu sinni setti hún einnig stigamet Íslendings í Junior  keppnisflokki á Norðurlandamótinu er hún fékk 115.39 stig samanlagt, sem er bæting upp á 11.87 stig. Það met átti hún sjálf og setti það í fyrra. Aldís Kara var einnig með hæstu tæknistigin í Junior Ladies á Norðurlandamótinu sem skilaði henni 5.sætinu í frjálsa prógraminu. Loka sæti hennar var 8. sæti en aldrei hefur íslenskur Junior keppandi náð svona hátt á Norðurlandamótinu.

 

Aldís Kara hefur því undirbúning til þátttöku á Heimsmeistarmóti Unglinga sem haldið verður í Tallinn í Eistlandi 2. – 8. mars n.k.

One comment

Comments are closed.

Translate »