Íslandsmót ÍSS 2019: Dagur 1

Íslandsmót ÍSS 2019: Dagur 1

Spennandi keppni hjá Junior Ladies á Íslandsmóti ÍSS

Íslandsmót Skautasambandsins hófst í morgun í Skautahöllinni í Laugardal.
Aðalæfing í keppnisflokkum advanced novice og junior byrjuðu klukkan 9:15 en það var klukkan 11 að keppni hófst í Basic novice. Fimm stúlkur voru skráðar til keppni og röðuðu niður hverju glæsilegu prógraminu eftir öðru. Stúlkurnar í þessum flokki taka miklum framförum með hverju mótinu og héldu uppteknum hætti í dag. Berglind Inga Benediktsdóttir frá SA sigraði með 25.23 stig. Í öðru sæti kom svo Sunna María Yngvadóttir SR með 24.32 og í því þriðja varð Sædís Heba Guðmundsdóttir frá SA með 24.03 stig.
Í flokki Intermediate novice voru einnig fimm keppendur skráðir til leiks og var Tanja Rut Guðmundsdóttir þeirra fyrst á ísinn. Setti hún markið strax hátt fyrir þær sem á eftir komu með góðri frammistöðu sem hún hélt til síðustu stúlku, Lenu Rutar Ásgeirsdóttur, sem átti frábæran dag og tryggði sér gullið. Lena Rut Ásgeirsdóttir frá Fjölni varð því í fyrsta sæti með 27.68 stig, Tanja Rut Guðmundsdóttir Fjölni í öðru sæti með 24.22 stig og Telma Marý Arinbjarnardóttir SA í þriðja sæti með 23.34 stig.
Síðasti flokkur fyrir hlé var Intermediate ladies. Þar voru þrír keppendur skráðir og komu allir frá Skautafélagi Reykjavíkur. Úrslit urðu þannig að fyrst varð Þórunn Lovísa Löve með 35.16 stig, önnur varð Ólöf Thelma Arnþórsdóttir með 30.19 stig og þriðja varð Anna Björk Benjamínsdóttir með 23.74 stig.

Eftir hlé og verðlaunaafhendingu var komið að keppni á Íslandsmeistaramóti.
Advanced novice hófu leikinn með Freydísi Jónu Jing Bergsveinsdóttur sem átti góðan dag og framkvæmdi öll sín element á plúsum. Eydís Gunnarsdóttir kom á eftir í góðu stuði og Júlía Rós Viðarsdóttir þar á eftir með villulaust prógram. Rebekku Rós Ómarsdóttur gekk einnig vel í morgun. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir missti því miður niður síðasta spinninn sinn og síðust skautaði Herdís Heiða Jing Guðjohnsen sem féll því miður í tvöfalda Axelnum sínum. Staðan í flokknum eftir daginn er því Júlía Rós Viðarsdóttir SA er efst með 28.86 stig, Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir SA er önnur með 26.48 stig og Rebekka Rós Ómarsdóttir SR með 25.19 stig.

Junior hóf síðan keppni strax á eftir og voru fjórir keppendur mættir til leiks. Viktoría Lind Björnsdóttir setti strax markið hátt með fullkomnu þreföldu Salchow í samsetningu og þrátt fyrir fall í tvöfalda Axelnum skilaði glæsilegri hún frammistöðu og ljóst að Aldís Kara Bergsdóttir, sem kom strax á eftir henni, myndi þurfa að kýla á það. Aldís negldi einnig þrefalt Salchow í samsetningu sem og Axelinn sinn en féll í þreföldu Loop. Hildur Bjarkadóttir var þriðja í rásröðinni, missti því miður niður mikilvæg element en Herdís Birna Hjaltalín, sem skautaði síðust, átti fínt prógram með afar glæsilegum spinnum. Úrslitin í stutta prógraminu eru því eftir daginn að Viktoría Lind Björnsdóttir er efst með 41.33 stig, Aldís Kara Bergsdóttir er önnur með 39.74 stig og Herdís Birna Hjaltalín er þriðja með 35.54 stig.

Keppni á Íslandsmóti og úrslit á Íslandsmeistaramóti heldur áfram á sunnudag kl.11:00

Translate »