Marta María hefur lokið keppni á JGP í Gdansk

Marta María hefur lokið keppni á JGP í Gdansk

Junior Grand Prix: Gdansk

Þátttöku Íslands lauk þetta keppnistímabilið á Junior Grand Prix mótaröðinni er Marta María Jóhannsdóttir skautaði frjálsa prógramið sitt í skautahöllinni í Gdansk í Póllandi í dag. Mótið var síðara mótið af tveimur sem ÍSS fær úthlutað frá Alþjóðaskautasambandinu ár hvert. Venjan er að úthlutun tveggja móta gangi til sama skautara þar sem samanlögð stig tveggja móta eru lögð til grundvallar stigagjöf sem ákveður hverjir komast á Finalinn svokallaða. Þá eru haldin saman Junior Grand Prix Final og Grand Prix Final sem eru heimsmótaraðir Junior og Senior skautara af öllum skautagreinum utan samhæfðs skautadans. Á þetta lokamót í desember komast sex efstu skautararnir eða pörin og því aðeins þeir allra allra bestu sem ná þessum árangri. Á JGP er það venjulega rússneskir og japanskir skautarar sem ná sætunum í Junior Ladies. Á Íslandi hefur oftast nær verið valin sú leið að senda tvo skautara á sitt hvort mótið til að fleiri geti öðlast þessa reynslu að fara á stórmót sem þetta.

Pólland hefur verið öflugt í mótahaldi á alþjóðavísu og heldur reglulega Junior Grand Prix mót og Challenger Series mót auk amk eins annars móts af ISU lista fyrir utan öll þau alþjóðlegu klúbbamót sem hin ýmsu félög halda af mikilli röggsemi í öllum skautagreinunum. Þetta er samt í fyrsta skiptið sem Íslendingar fara á JGP í Póllandi. Öll umgjörð hefur verið til fyrirmyndar og vel búið að skauturum og fylgdarliði. Keppt er í öllum skautagreinunum svo fullskipað er af ungu og upprennandi íþróttafólki í Gdansk þessa dagana.

Marta María eyddi fyrstu dögunum í æfingar, fyrst music rotations og síðan aðalæfingar áður en slagurinn var tekinn með stutta prógramið í gær og skautaði hún þrítugasta og fimmta af 37 keppendum í kvennaflokki unglinga. Marta María er búin að undirbúa sig vel fyrir mótið og skautaði fimlega eftir Árstíðunum eftir Vivaldi sem þjálfari hennar, Darja Zajcenko, gerði fyrir hana. Í prógraminu framkvæmdi hún bæði tvöfaldan Axel og þrefalt Salchow í samsetningu. Þrátt fyrir að vantað hafi upp á snúningana í þessum stökkum skilaði frammistaðan henni 36.71 stig og 29. sæti eftir daginn.

Í dag hóf okkar kona keppni í öðrum starthópi og var fjórða til að skauta. Að þessu sinni hafði Darja Zajcenko valið Varsjárkonsertinn eftir Richard Addinsel, kraftmikið píanóverk sem hæfði skautastíl Mörtu Maríu mjög vel. Stökkin voru mjúk og fimlega afgreidd þótt vantað hafi upp á snúninga á þeim erfiðustu. Marta gerði flotta þriggja stökka samsetningu í lok prógramsins og fékk bæði Layback og combó spinnana á level 4. Fyrir frjálsa prógramið fékk hún 61.55 stig og samanlögð stig voru 98.26 og tryggði sér þar með þrítugasta sætið á þessu móti.

Íslensku skautararnir halda áfram að skrifa í reynslubankann fyrir landið okkar með þátttöku sinni á erlendum mótum og stórmótum sem þessum. Eftir því sem skautarar frá Íslandi verða sýnilegri á mótum erlendis og leitast við að gera betur og betur eru þeir um leið að klífa upp á við fyrir hönd þeirra sem á eftir koma og ryðja þar með brautina fyrir íþróttina í heild sinni.

Skautasambandið óskar Mörtu Maríu innilega til hamingju með árangurinn.
Hér er frjálsa prógramið hennar frá því fyrr í dag

Translate »