Haustmót ÍSS 2019

Haustmót ÍSS 2019

Fyrsta mót tímabilsins hjá ÍSS

Haustmót ÍSS var haldið í Skautahöllinni í Laugardal um helgina. Mótshaldari var Skautafélag Reykjavíkur þar sem Anna Gígja Kristjánsdóttir hélt um stjórtaumana af mikilli röggsemi. Mótið er fyrsta ÍSS mót tímabilsins og einnig fyrsta mótið í svokallaðri Bikarmótaröð ÍSS en mótaröðin er ný af nálinni hjá Skautasambandinu. Þar munu félögin etja kappi um bikarmeustaratitil sem veittur verður stigahæsta félaginu í lok tímabilsins á Vormóti ÍSS sem haldið verður á Akureyri á næsta ári. Félögin munu safna stigum í gegnum gengi skautara sinna á þeim þremur mótum í mótaröðinni er telja til stiga; Haustmót, Vetrarmót og Vormót. Stig verða veitt til efstu skautara frá hverju félagi í þeim keppnisflokki er hefur keppendur frá öllum félögum á viðkomandi móti.

Undirbúningur skautara hefur staði yfir í sumar og síðan reglubundnar æfingar hófust en haustflensa hefur sett strik í reikninginn með þátttöku á mótinu sem var fremur fámennt.

Keppendur mættu á opnar æfingar á föstudeginum og fengu tilfinningu fyrir ísnum en mótið sjálft hófst síðan rétt eftir klukkan 8 á laugardagsmorguninn. Fyrst, sem og svo oft áður voru það keppnisflokkar Chicks og Cubs sem byrjuðu. Margar hnátur voru mættar til leiks og spenntar að prófa ný prógröm og sýna nýfengin element. Allir stóðu sig mjög vel og gaman að sjá yngstu skautarana reyna sitt ýtrasta að gera nú betur en síðast.

Þá var komið að Basic novice. Keppendur voru þrír og skemmtu sér konunglega á sínu fyrsta móti á tímabilinu. Í fyrsta sæti varð Berglind Inga Benediktsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar, í öðru sæti varð Sunna María Yngvadóttir úr Skautafélagi Reykjavíkur en þær Berglind og Sunna voru að keppa á sínu fyrsta móti í flokknum. Í þriðja sæti varð síðan Dharma Elísabet Tómasdóttir frá SR. Þær voru brosmildar og glaðar þegar þær tóku á móti verðlaunapeningunum sínum.

Einnig var keppt í flokkum Intermediate novice og Intermediate ladies. Í Novice flokknum voru fjórir keppendur skráðir til leiks. Glæsileg tilþrif sáust með tvöföldum stökkum og flottum spinnum. Leikar fóru þannig að þrjá Fjölnisstúlkur skipuðu sér í verðlaunasætin. Tanja Rut Guðmundsdóttir varð fyrst, Lena Rut Ásgeirsdóttir önnur og Rakel Sara Kristinsdóttir þriðja. Í Intermediate Ladies urðu töluverð afföll vegna veikinda og var á endanum einungis einn keppandi í flokknum og hlaut því Þórunn Lovísa Löve gullið en hún kemur frá Skautafélagi Reykjavíkur.

Keppni í ISU flokkum

Eftir hlé hófst keppni með stuttu prógrami í ISU flokkunum. Einnig hafði verið nokkuð um afföll í bæði Advanced Novice og Junior. Í advanced novice sýndu allir keppendur gífurlega góða spinna og sporasamsetningar. Eitthvað var um hiksta í stökkum en efst stóð Júlía Rós Viðarsdóttir frá SA eftir daginn með 30.10 stig sem framkvæmdi öll sín element á plúsum. Í öðru sæti varð Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, einnig frá SA, með 25.31 stig og í þriðja sæti Herdís Heiða Jing Guðjohnsen frá SR með 21.33 stig. Einungis rétt tæpu stigi undir henni var fjórða sætið en það vermdi Júlía Sylvía Gunnarsdóttir frá Fjölni.

Í junior mættu fjórir skautarar til keppni. Flokkurinn samanstendur af sterkum skauturum sem allar hafa landsliðsreynslu og mikla keppnisreynslu. Mjótt var á mununum eftir daginn en í fyrsta sæti sat Aldís Kara Bergsdóttir frá SA með 34.09 stig, í öðru var Marta María Jóhannsdóttir SA með 33.73 stig og í þriðja sæti Herdís Birna Hjaltalín frá Fjölni með 32.65 stig.

Júlía Rós, SA, sigraði í Advanced Novice

Keppni hófst í þessum tveimur ISU flokkum á sunnudeginum um miðjan morgun. Keppt var eftir öfugri úrslitaröð frá deginum áður í báðum flokkum. Þrátt fyrir að um einungis átta keppendur væri að ræða lentu þeir sem voru í höllinni í þvílíkri flugeldasýningu. Keppendur voru voru greinilega mættir til leiks í stuði. Mjótt hafði verið á mununum milli stúlknanna í öðru til fjórða sæti í Advanced novice og urðu nokkrar sviftingar er Júlía Sylvía, er hafði verið í fjórða sæti eftir stutta prógramið átti stórgóðan dag og vippaði sér í annað sætið í frjálsa prógraminu. Freydís Jóna barðist vel en gerði mistök í síðasta spin prógrams síns og varð í fjórða sæti. Herdís Heiða var í þriðja sæti með ágætis frammistöðu og tvöföldum Axel. Fyrsta sætinu í frjálsa prógraminu hélt Júlía Rós. Hún hafði verið með 10 stiga forskot á næstu stúlku eftir stutta og hélt uppteknum hætti í frjálsa og var einnig 10 stigum fyrir ofan þá sem var í öðru sæti. Prógramið var án mistaka og vel útfært og sigraði Júlía Rós Viðarsdóttir frá SA í flokknum með yfirburðum, 84.26 stig. Í öðru sæti samanlagt varð Freydís Jóna Jing Bergsveindóttir SA með 66.68 stig og þriðja sætinu náði Júlia Sylvía Gunnarsdóttir frá Fjölni með 65.47 stigum.

Aldís Kara með nýtt Íslandsmet í frjálsu prógrami og heildarstigum

Þá var komið að Junior. Keppni hóf Helga Karen og átti ágætis dag á ísnum með góða tilraun við tvöfaldan Axel og fékk 43.25 stig fyrir frjálsa prógramið.  Á eftir henni kom Herdís Birna með sterkt prógram og kröftuga spinna og nældi sér í 55.04 stig. Þá var röðin komin að Mörtu Maríu sem lenti fullkomnum tvöföldum Axel og gerði góða tilraun við tvö þreföld stökk og stóð uppi með 69.32 stig. Góður undirbúningur hjá henni fyrir Junior Grand Prix mótið sem hún fer á eftir einungis tvær vikur. Síðust skautaði Aldís Kara, sem er nýkomin frá Junior Grand Prix með nokkur met í farteskinu. Hélt hún uppteknum hætti og bætti inn metum. Aldís skautaði nánast fullkomið prógram með tveimur tvöföldum Axelum, þar af öðrum í þriggja stökka samsetningu og tveimur þreföldum Salchow, þar af öðru í samsetningu. Spinnarnir voru stórgóðir og stigin eftir því, 82.00 slétt sem er nýtt stigamet í frjálsu prógrami í junior en fyrra metið átti Aldís Kara sjálf síðan á RIG í janúar sl. og bætti það um hvorki meira né minna en heil 10 stig. Úrslit urðu því að Aldís Kara Bergsdóttir, SA, varð í fyrsta sæti á nýju heildarstigameti í junior,116.09 stig, sem er einnig bæting á hennar eigin stigameti sem hún setti á Vormótinu síðasta. Marta María Jóhannsdóttir, SA, varð í öðru sæti með 103.04 stig og Herdís Birna Hjaltalín frá Fjölni varð í þriðja sæti með 87.69 stig.

Mótinu lauk með verðlaunaafhendingu í þessum flokkum og ljóst að veturinn verður spennandi ef sú frammistaða sem keppendur á Haustmótinu sýndu gefur smjörþef af því sem koma skal.

Translate »