Norðurlandamót 2019

Norðurlandamót 2019

Aldís Kara með hæstu stig íslensks skautara í Junior á Norðurlandamóti

Norðurlandamótið fór fram síðastliðna helgi í Lynköping í Svíþjóð. Þar kepptu íslensku stelpurnar við keppendur frá hinum Norðurlöndunum í flokkum Advanced Novice og Junior en Senior flokkurinn er opinn og geta skautarar frá þjóðum utan Norðurlandanna skráð sig til keppnis.

Hópurinn var landi sínu til sóma og var gaman að fylgjast með þeim á skemmtilegu móti.

Advanced novice
Keppni hófst á fimmtudegi með advanced novice girls. Þrjár stúlknanna voru að fara á sitt fyrsta Nordics og ein á sitt annað. Það var því mikil tilhlökkun hjá hópnum að komast á þetta skemmtilega mót.

Herdís Heiða Jing Guðjohnssen hafði dregið rásnúmer 1 og var því sú sem opnaði Nordics 2019. Í stutta skilaði hún sínum elementum að meðtöldum tvöföldum Axel með ágætum og sat í 17. Sæti eftir daginn, efst íslensku stúlknanna í flokknum. Hún hafði því rásnúmer 4 í frjálsa prógraminu daginn eftir. Þar fékk hún full level fyrir spinnana sína og gerði tvo tvöfalda Axela en því miður datt í öðrum. Herdís Heiða fékk fyrir stutt 26.81 stig og fyrir langt 41.61 stig. Samanlögð stig hennar voru því 68.42 stig og 17. sæti.

Júlía Rós Viðarsdóttir hafði dregið rásnúmer tvö fyrir stutta prógramið og steig á ísinn tilbúin í slaginn eftir silfurverðlaunin frá RIG helgina á undan. Júlía Rós skilaði fallegu prógrami með mörgum plúsum og ágætum levelum og skilaði það henni 15.15 stigum og 18. sæti eftir daginn. Hún steig því full sjálfstrausts á ísinn í frjálsa, nelgdi öll sín stökk og alla spinna á hæsta leveli sem hægt er að fá í flokknum og stig upp á 43.45. Samanlagt fékk hún 68.60 stig og skautaði sig upp um tvö sæti frá deginum áður og endaði í 16. sæti, hæst íslensku stúlknanna.

Sjöunda skautaði Júlía Sylvía Gunnarsdóttir sem skilaði flottu prógrami að vanda þótt smá hnökrar hafi verið á stökkunum voru spinnarnir í hæsta leveli og sporin góð. Fékk hún 25.11 stig fyrir, eða 19. sæti og skautaði því önnur í frjálsa prógraminu daginn eftir. Örlitlir hnökrar voru á stökkunum en aftur voru spinnin og sporin góð og skilaði það Júlíu Sylvíu 41.39 stigum. Samanlagt fékk hún því 66.50 stig, skautaði sig upp um eitt sæti og endaði 18.

Rebekka Rós Ómarsdóttir er reynsluboltinn í hópnum en hún var á sínu öðru Nordics. Rebekka hefur keppt mikið í vetur sem skilaði sér í öruggri skautun, stökkum og spinnum. Fyrir stutta prógramið fékk hún 23.37 stig og sat í 20. sæti eftir daginn. Hún hafði því þann heiður að skauta fyrst daginn eftir í frjálsa prógraminu. Skemmst er frá því að segja að hún átti ekki í neinum vandræðum með að rúlla því upp og skilaði nánast öllum elementum á góðum plúsum. Stigin fyrir frjálsa voru 40.10 og samanlagt 63.47 og endaði í 20. sæti.

Junior Ladies
Junior ladies skautuðu stutta prógramið sitt einnig á fimmtudeginum. Aftur var það íslensk stúlka sem hóf keppni í flokknum og það sem meira er; hún heitir líka Herdís!

Herdís Birna Hjaltalín skautaði því fyrst junioranna. Því miður missti hún Axelinn sinn í byrjun prógramsins sem og sóló stökkið en gaf allt í botn og kláraði alla spinna á level 3 og 4 og sporin á level 2. Laglega gert! Það skilaði henni 28.31 stigum og 18. sætinu. Herdís skautaði svo frjálsa prógramið sitt önnur á laugardag og gaf ekkert eftir. Herdís féll í þrefalda Salchowinu en fékk tvo spinna á level 4 og skilaði framlag hennar stigum upp á 52.56 og samanlagt 80.87 stig og 18. sæti.

Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir skautaði ellefta. Því miður féll hún í Axelnum en öll önnur element eins og henni er einni lagið og m.a. tveir spinnar á fullum levelum og plúsum í þokkabót. Ásdís fékk 30.29 stig fyrir stutta og sat í 17. sæti eftir daginn. Frjálsa prógrami gekk vel hjá henni og fékk hún fyrir 55.39 stig. Samanlögð stig Ásdísar voru 85.68 og endaði hún í 17. sæti.

Aldís Kara Bergsdóttir skautaði sautjánda og skilaði sínu af öryggi og hafa silfurverðlaunin frá RIG sjálfsagt gefið henni byr undir báða vængi því Axelinn hennar var á góðum plúsum og stigin eftir því 36.66 og 13. sæti. Aldís var efst íslensku stúlknanna eftir stutta prógramið. Á laugardeginum fékk hún rásnúmer sjö og skautaði nánast clean prógram með tveimur tvöföldum Axelum, spinnum og sporum á level 3 og 4 og reyndi þrefalt Salchow sem dæmdist ófullsnúið. Öll element í prógraminu hennar utan Salchowsins dæmdust á plúsum og fékk hún 66.86 stig. Samanlagt fékk Aldís 103.52 stig sem eru hæstu stig íslensks skautara í junior á Nordics mótinu og er þetta í þriðja skiptið á jafn mörgum mánuðum sem hún fer yfir 100 stigin. Frammistaða hennar færði hana upp í úrslitaröðinni og endaði hún í 12. sæti.

Helga Karen Pedersen endaði junior keppnina er hún steig síðust inn á ísinn af keppendum dagsins. Helga Karen hóf prógramið á fallegu Flip en féll í Axelnum. Stigin hennar eftir stutta voru 24.47 og sat hún í 19. sæti eftir daginn. Helga Karen fékk þann heiður að hefja keppni fyrst á laugardeginum og skilaði sínu með glæsibrag. Stigin fyrir frjálsa prógramið voru 39.27 og samanlagt 63.84 og 19. sæti.

Senior Ladies
Senior ladies hófu keppni á laugardegi með stutt prógram og átti Ísland einn keppanda í flokknum. Eva Dögg Sæmundsdóttir hafði rásnúmer fimm í geysisterkum fyrsta hópi. Eva stóð sig með prýði þrátt fyrir tvö slæm föll og hlaut fyrir 26.20 stig og sat í 15. sæti eftir daginn. Hún hóf því keppni fyrst á sunnudeginum í frjálsa prógraminu. Föll Evu frá deginum áður höfðu tekið sinn toll og því miður gekk prógramið ekki sem skildi. Eva lauk keppni í frjálsa á 46.55 stigum og 72.75 samanlagt og 15. sæti.

Íslenska liðið hélt því heim reynslunni ríkari. Aðstæður í Linköping voru til fyrirmyndar og samheldni íslenska hópsins gerði skemmtilegan viðburð að frábærum minningum fyrir alla þátttakendur.

Translate »