Keppnisferð til Riga á Volvo Open

Keppnisferð til Riga á Volvo Open

Hópur stúlkna fór til Riga í Lettlandi á dögunum og kepptu þar fyrir Íslands hönd á Volvo Open Cup. Keppnin er afar stór og gífurlegt magn skautara sem tekur þátt í henni og þá sérstaklega í flokkum stúlknanna okkar Advanced Novice og Junior.

Keppnin stóð yfir marga daga og voru þær Emilía Rós Ómarsdóttir og Viktoría Lind Björnsdóttir komnar snemma á staðinn en flokkur þeirra, Junior, hóf keppni með stutt prógram á fimmtudegi. Viktoría steig sjötta á ísinn og kláraði prógramið sitt með ágætum. Spinnarnir gengu þokkalega og lenti hún þreföldu Salchow í samsetningunni en náði ekki að gera tvöfalt stökk á eftir svo GOE einkunnin leið fyrir það. Hún fékk fyrir 32.60 stig og var í 30. sæti eftir daginn. Virkilega vel af sér vikið hjá henni.
Emilía hafði dregið númer 28. og leið því nokkurn tími á milli þeirra. Spinnarnir hjá henni voru góðir og þá sérstaklega samsetti spinninn sem var á level 4. Stökkin ullu henni einhverjum vandræðum og kláraði hún sitt prógram með 29.43 stig og sat í 38. sæti.

Keppt var daginn eftir í frjálsu prógrami, hafði Emilía rásnúmer 9 og skautaði fallegt prógram með sterkum spinnum, öllum á level 3 og framkvæmdi öll stökkin í prógraminu og lauk keppni með 54.59 stig í frjálsa. Viktoría fékk rásnúmer 15. Henni gekk einnig vel með spinnana líkt og Emilíu en eitthvað af stökkunum lét á sér standa og lauk hún keppni með 56.43 stig fyrir frjálsa prógramið. Samanlagt fékk Viktoría 89.03 stig og 33. sæti og Emilía 84.02 stig og 37. sæti sem eru bestu stig hennar á þessu keppnistímabili og ljóst að hún verður sterkari með hverju móti. Í Junior flokki voru alls 42 keppendur frá 16 löndum.

Á laugardeginum hófst svo keppni í Advanced Novice og fyrst íslensku keppendanna var Herdís Heiða Jing Guðjohnsen sem skautaði fimmtánda. Axelinn hennar var ekki samvinnuþýður í þetta skipti en annað gekk vel í prógraminu og túlkun var með ágætum. Fékk hún 23.56 stig fyrir og 30. sæti eftir daginn. Næst var Margrét Eva Borgþórsdóttir, eða 27. í rásröðinni. Margrét var á sínu fyrsta móti erlendis í flokkinum og stóð sig með ágætum og fékk 17.68 stig og 43. sæti. Rebekka Rós Ómarsdóttir hafði rásnúmer 39. Rebekka hefur töluverða keppnisreynslu erlendis og skautaði prógramið sitt örugglega sem skilaði henni 26.61 stigi og 15. sæti. Rétt á eftir henni eða 42. skautaði Eydís Gunnarsdóttir sem átti fínan dag og renndi sér í 35. sæti með 21.66 stig en hún var einnig á sínu fyrsta móti erlendis í þessum keppnisflokki.

Stúlkurnar kepptu síðan með frjálst prógram á sunnudeginum og hófst keppnin snemma vegna stærðar hópsins en alls kepptu 46 keppendur. Margrét skautaði fyrst, barðist vel og skilaði sínu á 32.11 stigum. Eydís var á góðu róli og nældi sér í 32.40 stig fyrir frammistöðuna. Rebekka átti góðan dag og tókst að krækja sér í 48.06 stig fyrir sitt framlag. Það var hins vegar Herdís sem setti í fjórða gírinn, kláraði tvöfalda Axelinn sinn og flotta sporasamsetningu og hlaut fyrir 51.46 stig. Samanlögð stig stúlknanna og sæti fóru á þessa leið; Herdís varð í 18. sæti með 75.02 stig, Rebekka í 20. sæti með 74.67 stig, Eydís í 41. sæti með 54.06 stig og Margrét í 42. sæti með 49.79 stig.

Að keppa á svona stórri keppni getur haft töluvert álag í för með sér, sérstaklega á þjálfarann sem þurfti að taka á stóra sínum í að sinna öllum keppendum. Stúlkurnar sem hafa áður farið til Riga voru sammála um að þetta væri besta keppnisferðin á þetta mót hingað til enda skipulag til fyrirmyndar þótt yfir 700 keppendur væru á mótsstað. Það þótti hins vegar neikvætt að keppnisflokkar voru óhóflega stórir sem gerðu það að verkum að íslenska liðið gat ekki fylgst að eins og þær hefðu kosið þar sem of langur tími leið á milli keppendanna okkar og sumir að keppa meðan aðrir voru að æfa eða í hvíld. Það var því lítið hægt að hrista liðið saman en allir gerðu sitt besta við að styðja hverja aðra og sameinast í að gera keppnisferðina til Lettlands að ánægilegri upplifun fyrir alla.

Einnig á Interklub hluta mótsins kepptu þrír keppendur frá SR. Kristín Jökulsdóttir keppti í Basic novice, Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir í Springs B og Indíana Rós Ómarsdóttir í Cubs B.

Úrslitin má finna hér http://www.kristalice.lv/Results/Volvo37th/index.htm

Translate »