Ísold Fönn keppir erlendis

Ísold Fönn keppir erlendis

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir er 10 ára skautari frá Skautafélagi Akureyrar og keppir í flokknum 12 ára og yngri A hér á Íslandi. Hún er í hópi ungra og efnilegra hjá Skautasambandi Íslands.

Síðustu mánuði hefur hún verið við æfingar í Slóvakíu og keppt víðsvegar um Evrópu ásamt móður og þjálfara, Ivetu Reitmayerova. Samtals hefur hún keppt í 6 keppnum síðan í október í fjórum mismunandi löndum. Móðir hennar segir þetta hafa verið mjög lærdómsríkt fyrir þær báðar, Ísold Fönn hafi fengið góða æfingu og góða keppnisreynslu.

Fyrsta mótið var í Slóvakíu, Grand Prix SNP Banská Bystrica, þar náði Ísold Fönn 1. sæti en alls tóku 24 keppendur tóku þátt í hennar flokki. Þetta var hörð samkeppni og var annað sætið ekki nema 1.5 stigum á eftir henni.

Næst tók við Skate Celje í Sloveníu, mót sem er hluti af 5 móta seríu European Criterium (alþjóðlegt mót fyrir unga skautara). Þar keppti Ísold Fönn með nýtt program í flokknum Cups 1. 36 keppendur voru skráðir frá 9 þjóðum. Ísold skautaði hreint prógram og bætti eigið stigamet á þessari mótaröð um rúm 3 stig (38.89 stig). Þessi frábæri árangur tryggði henni 1. sæti.

Þriðja mótið var Innsbrucker Eislaufverein (IEV) í Austurríki. Þetta mót var daginn eftir Skate Celje sem lauk kvöldinu áður og því þurfti að keyra um nóttina til Innsbruck. Keppniskröfurnar voru lægri en á hinum mótunum og tvö aldursár voru höfð saman. Á þessu móti keppti hún í Cups. Ísold Fönn skautaði ekki alveg hreint program en að dugði samt í 1. sæti. Hún fékk rúm 35 stig.

10th Santa Claus Cup var fjórða mótið. Ísold fipaðist í fyrsta stökki og ákvað að sleppa samsettningunni en tók hana í staðinn á öðrum stað í prógraminu. Þar bjargaði hún sér fyrir horn og dugði það í 1. sætið. Þarna sést að keppnisreynslan sem Ísold Fönn er að fá á þessu ferðalagi skilar sér afskaplega vel.

Ísold tók að lokum þátt í lítilli keppni í Slóvakíu í heimabæ Ivetu. Keppnin er hluti af landsmóti þeirra í Slóvakíu. Ísold má keppa í þessum keppnum til verðlaunasætis en getur ekki tekið þátt í stigakeppninni. Það var því ákveðið að keyra frá Bratislava til Kosice, 5 tíma akstur. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að bæta við þessu móti var að þjálfari vildi lofa Ísold reyna við tvöfaldan Axel í prógraminu. Henni gekk mjög vel þó svo axelinn hafi verið underroteraður ( 1.80) og vann mótið með 42.54.
Síðasta mótið var svo Grand Prix Bratislava. Þar lenti Ísold Fönn í 1. sæti í sínum flokki með 41.98 stig.

Þessi árangur Ísoldar Fannar er afskaplega góður og er hún er skautari sem vert er að taka eftir og fylgjast með í framtíðinni haldi hún áfram á sömu braut. Skautasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með góðan árangur og gaman verður að fylgjast með henni næstu misseri.

 

Translate »