Vormót ÍSS 2022

Vormót ÍSS 2022

Vormót ÍSS var haldið á Akureyri um helgina en það er síðasta mót ÍSS á tímabilinu og þar með síðasta mót Bikarmótaraðarinnar 2021-2022. Töluverð afföll voru í keppendahópunum vegna flensu og meiðsla og mótið því með allra minnsta móti.

Fyrri keppnisdagur var á laugardag en þá kepptu fyrst Basic novice (neðstastig stúlkna) og reyndist það fjölmennasti keppnisflokkur mótsins með níu keppendur. Sigurvegari í flokkinum varð Katla Karítas Yngvadóttir úr SR með yfirburðum eða 30.09 stigum sem var heilum 4 stigum yfir næsta stúlku.

Það var svo systir hennar, Sunna María Yngvadóttir, einnig úr SR sem sigraði í flokki Intermediate novice (miðstig stúlkna). Sunna María fékk 24.50 stig sem var um 5 stigum yfir næstu stúlku.

Eftir hlé var komið að stuttu prógrami í flokkum Advanced novice (efstastig stúlkna), Junior Women (unglingaflokki kvenna) og Senior Women (fullorðinsflokki kvenna). Mestu afföll keppenda voru í þessum flokkum enda hefur keppnistímabilið verið langt fyrir afreksskautarana sem keppa á alþjóðlegu mótunum.
Í flokki Advanced novice keppti ein Sædís Heba Guðmundsdóttir frá SA, sem kom ný inn í flokkinn síðast liðinn vetur og lét strax að sér kveða með góðum árangri. Sædís Heba hefur þroskast mikið sem skautari á þessu tímabili og hækkað mjög í framkvæmdareinkunn en hefur átt betri dag. Mistök í stökkseríu kostaði hana dýrmæt stig en fyrir skylduæfingarnar fékk hún 17.27 stig.
Í Junior Women var einnig einungis einn keppandi, Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni sem hefur átt góða spretti á tímabilinu. Stökkin reyndust Júlíu Sylvíu snúin þar sem hún féll bæði í þreföldu Salchow og tvöföldum Axel. Stigin voru 34.74 sem er einnig töluvert frá hennar besta.
Í Senior Women keppti Herdís Birna Hjaltalín úr Fjölni sem er að koma tilbaka eftir að hafa tekið hlé frá keppni í vetur. Herdís Birna er tignarlegur skautari og það er gaman að sjá hana aftur á ísnum. Þrátt fyrir nokkur kostnaðarsöm mistök í skylduæfingunum fékk hún 27.61 stig, en var eini keppandi flokksins í dag.

Sunnudagurinn hófst með keppni í Chicks (hnátum) og Cubs (telpum). Ekki eru kunngjörð úrslit í þessum flokkum en alls skautuðu 15 skautarar í þessum flokkum.

Á eftir þeim komu 6 keppendur í Intermediate Women (miðstigi kvenna). Þar vann gullverðlaun Tanja Rut Guðmundsdóttir út Fjölni sem skilaði flottu prógrami og fékk fyrir 32.86 stig.

Eftir hlé var komið að því að ISU flokkarnir kláruðu frjálsu prógrömin sín og fyrst skautaði Sædís Heba Guðmundsdóttir í Advanced novice. Sædís Heba átti betri dag í dag og lauk keppni með 36.50 stig og í heildina fékk hún 53.77 stig.
Í Junior var síðan komið að Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur úr Fjölni sem skautaði með miklum krafti í frjálsa prógraminu sínu og uppskar 59.97 stig og í heildina 94.71 stig.
Síðust var svo Herbís Birna Hjaltalín úr Fjölni í Senior. Herdís Birna er að koma eftir langt hlé frá keppni og átti ágætan dag í frjálsa prógraminu með 50.50 stigum og í heildina fyrir bæði prógrömin 78.11 stig.

Við bíðum öll spennt eftir nýju tímabili sem hefst í júlí en fyrstu mót á dagskrá ÍSS eru á haustmánuðum.

Translate »