Norðurlandamótið á listskautum forsmekkurinn af RIG 2022

Norðurlandamótið á listskautum forsmekkurinn af RIG 2022

Skautasambandið undirbýr nú með þeim stærstu Reykjavíkurleikum sem haldnir hafa verið í Skautahöllinni í Laugardal. En það er ekki það eina sem stendur fyrir dyrum í íslenska skautaheiminum því fimm keppendur héldu til Danmerkur í morgun til keppni á Norðurlandamótinu í listskautum.

 

Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir og Sædís Heba Guðmundsdóttir keppa í Advanced Novice (efstastigi stúlkna) en þær tryggðu sér í nóvember efstu tvö sætin á Íslandsmeistaramótinu í greininni. Í Junior Women (unglingaflokki kvenna) keppa Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Júlía Rós Viðarsdóttir sem einnig skipuðu efstu tvö sætin á Íslandsmeistaramótinu í þessum flokki. Þær stöllur voru einnig fulltrúar Íslands á Junior Grand Prix (Heimsmótaröð unglinga) í ágúst og september s.l. þar sem Júlía Rós setti þátttökustigamet Íslendings á mótaröðinni með glæsilegri frammistöðu í Frakklandi. Báðar stúlkurnar eru að reyna við tæknistig sem myndu duga til þátttöku á Heimsmeistaramóti unglinga sem haldið verður í mars n.k.

 

Í Senior Women (fullorðinsflokki kvenna) keppir svo Aldís Kara Bergsdóttir en hún er flestum kunn eftir meta- og frammistöðuregn hennar síðustu tvö árin. Hún er nýkomin af Evrópumeistaramótinu þar sem hún keppti fyrst íslenskra skautara og er stíf dagskrá framundan. Það er mikill kraftur í Aldísi Köru um þessar mundir að fara á svo mörg stórmót með svo stuttu millibili en hún er ýmsu vön. Aldís Kara er nú að reyna við tæknistig fyrir Heimsmeistaramót Alþjóðaskautasambandsins en Ísland hefur aldrei átt keppanda á því móti í einstaklingsgrein. Tæknistigunum þarf að ná á móti viðurkenndu af alþjóðasambandinu og tilheyra bæði Norðurlandamótið og Reykjavíkurleikarnir þeim lista.

 

Það verður því spennandi að fylgjast með íslensku keppendunum á næstu tíu dögum.

Upplýsingar um dagskrá, úrslit og streymi á Norðurlandamótinu er hægt að finna á vefsíðu mótsins:  www.nordics2022.com/

Translate »