Aldís Kara skrifar söguna fyrir listskauta á Íslandi

Aldís Kara skrifar söguna fyrir listskauta á Íslandi

Sögulegu stund íslensku listskautanna í dag

Það var söguleg stund þegar Aldís Kara Bergsdóttir steig á ísinn í Tondiraba skautahöllinni í Tallinn í Eistlandi rétt fyrir klukkan 10 í morgun og hóf þar með þátttöku á Evrópumeistaramóti ISU, fyrst íslenskra skautara.

Aldís Kara er alls ekki ókunnug í íslensku skautasögunni en hún hefur á undanförnum þremur árum sett hvert metið á fætur öðru, fyrst sem skautari í unglingaflokki sem og nú sem skautari í fullorðinsflokki á stærsta sviði sem íslenskur einstaklingsskautari hefur stigið á.

Hún hefur margsett íslandsmet í báðum flokkum, er fyrsti íslenski skautarinn sem hefur fengið þrefalt Loop stökk gilt í keppni, fyrsti íslenski skautarinn til að sná alþjóðlegum stigaviðmiðum á Heimsmeistaramót unglinga og nú fyrst íslenski skautarinn sem nær alþjóðlegum stigaviðmiðum og tekur þátt á Evrópumeistarmóti í greininni.

Aldís Kara steig fyrst á ísinn í morgun og opnaði keppnina í kvennaflokki með flottri frammistöðu. Þrátt fyrir fall í þreföldu Toeloop stökki náði hún 42.23 stigum sem er með því besta sem hún gerir og virkilega góður árangur á svona geysilega sterku móti þar sem bestu skauturum í Evrópu er att saman.

Í keppnina í stutta prógraminu í dag voru skráðir 36 keppendur en 24 komast áfram í frjálsa prógramið. Árangur Aldísar Köru skilaði henni í 34. sæti og því ljóst að keppnisþátttaka hennar endaði í dag með þessari glæsilegu frumraun íslensks skautara á Evrópumeistarmóti.

Translate »