EYOWF 2022

EYOWF 2022

Júlía Rós með hæstu stig íslensks skautara á EYOWF

Um síðustu helgi lauk Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, European Youth Winter Olympic Festival – EYOWF, í Vuokatti í Finnlandi. Leikunum, sem hafði verið marg frestað vegna Covid, eru Evrópuleikar vetraríþrótta sem haldnir eru undir merkjum Alþjóðaólympíunefndarinnar. Keppt er í junior flokkum á aldursbili sem Ólympíunefndin ákveður og gefa ungmennum tækifæri á að upplifa Ólympíuandann á jafningjagrundvelli. Íslenskir keppendur eru á forræði ÍSÍ sem heldur utanum þátttöku Íslands á mótum sem þessum. Fríður hópur skíða og snjóbrettafólks hélt til Finnlands á dögunum auk eins listskautara sem að þessu sinni var Júlía Rós Viðarsdóttir.

Listskautakeppnin var meðal síðustu viðburða á leikunum en þeir hófust með glæsilegri setningarathöfn 20. mars þar sem íþróttamenn Íslands gengu fylktu liði inn á leikvanginn undir íslenska fánanum sem borinn var af Júlíu Rós.

Keppni með stuttu prógrami fór fram 23. mars og hafði Júlía Rós dregið keppnisnúmer þrjú. Júlíu Rós gekk vel í prógraminu utan Axelsins en náði samt sem áður að jafna persónulegan árangur sinn frá Norðurlandamótinu og var sátt eftir daginn í 19. sæti með 40.53 stig sem eru hæstu stig sem islenskur keppandi hefur fengið á EYOWF.

Daginn eftir var keppt í frjálsu prógrami og hafði Júlía Rós rásnúmer þrettán. Prógramið gekk mjög vel og kláraði Júlía Rós öll elementin með glæsibrag og þrátt fyrir fall í einu elementi fékk hún 74.69 stig sem er besti árangur hennar á þessu tímabili auk þess að vera bestu stig sem íslenskur skautari hefur náð á þessu móti. Árangurinn nægði í 20. sætið fyrir frjálsa prógramið sem og heildina. Júlía Rós uppskar 115.22 stig og setti EYOWF met fyrir Ísland.

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar er gífurlega gott og skemmtilegt tækifæri fyrir íþróttafólk til þess að upplifa liðsanda á stórmóti og létu liðsfélagar Júlíu Rósar í íslenska landsliðinu á mótinu vel í sér heyra úr stúkunni sem var bæði kærkominn og kraftmikill stuðningur við okkar konu. Mótið gerir listskauturum kleyft að kynnast íþróttafólki í öðrum vetrargreinum bæði innlenda sem og erlenda og skapar skauturunum tengslanet framtíðarinnar þegar farið verður á stærri mót.

Utanumhald keppenda í Vuokatti var glæsilegt og vel séð um hópinn af farastjórum og sendinefnd frá ÍSÍ sem sá um allan undirbúning og framkvæmd í kringum íslenska liðið.

 

*myndir eru fengnar að láni frá ÍSÍ

Translate »