Í morgun kl 11 hófs keppni í listhlaupi á skutum í Skautahöllinni í Laugardal. Keppnin er með töluvert minna sniði þetta árið sökum þess að erlenda keppendur vantar en að auki hefur orðið töluvert brottfall úr keppendahópum félaganna á Covid-19 tímum.
Keppnin hófst með stuttu prógrami hjá Advanced Novice og steig Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni fyrst allra á ísinn. Þetta er fyrsta keppnistímabil hennar í þessum flokki og þar með það fyrsta á Reykjavíkurleikunum. Tanja skautaði skemmtilegt prógram með gullfallegum spinnum og einföldu Axel stökki en missti fótana í annars ágætri sporasamsetningu og voru stigin 17,01. Á eftir henni kom Dharma Elísabet Tómasdóttir, úr SR, sem einnig er á sínu fyrsta tímabili í Advanced Novice. Hú skautaði við West Side Story í fjörugri latin tónlist. Spinnar og stökk gengu vel og vann henni inn 16,51 stig. Þriðja í hópnum er reynslubolti hópsins en Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, úr SA, er á öðru ári í honum og var í landsliði Íslands á síðasta Norðurlandamóti. Freydís er afar kröftugur skautari og mætti með dúndur sporasamsetningu og glæsileg spinn og stökk, þar á meðal tvöfaldan Axel og uppskar eins og hún sáði 28,74 stig í hús. Síðust kom svo Sædís Heba Guðmundsdóttir, úr SA, en þetta er hennar allra fyrsta mót sem Advanced Novice en hún er einungis 12 ára. Sædís skautaði við spænska Flamenco tónlist og Cha Cha og negldi öll sín stökk og með glæsilegri túlkun fékk hún 26,68 stig. Aldeilis glæsilegt á fyrsta móti. Staðan í Advanced Novice var því eftir daginn Freydís Jóna í fyrsta sæti, Sædís Heba í öðru og Tanja Rut í þriðja. Þessar stúlkur munu keppa með frjálst prógram á morgun, sunnudag.
Eftir sex mínútna upphitun var komið að keppendum í Junior Ladies. Stórt skarð hefur verið höggvið í þennan flokk undanfarið þar sem keppendur hafa sest í helgan stein, tekið hlé frá keppni eða komast ekki til landsins vegna sóttvarnarreglna. Allir keppendurnir í morgun eru á sínu fyrsta tímabili sem keppendur í Junior og fyrst á ísinn var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni. Júlía Sylvía lagði allt í túlkunina með geysilega góða spinna en féll því miður í tvöföldum Axel og stóð eftir daginn með 34,35 stig. Á eftir henni kom Eydís Gunnarsdóttir úr SR. Eydís skautaði við Fever með Peggy Lee og var í stuði í dag með skemmtilegt prógramm með sérstaklega glæsilegri sporasamsetningu og fékk fyrir 28,66 stig. Þriðja var svo Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, sem átti hreint ágætan dag. Tvöfaldi Axelinn hennar skilaði sér ekki að fullu en Lena Rut notaði allt sitt til að klára stórgott prógramm með 22,32 stigum. Síðust keppti svo Júlía Rós Viðarsdóttir, frá SA, en hún varð sigurvegari á sínu fyrsta móti í flokknum í haust með glæsilegum árangri. Júlía Rós er þekkt fyrir að skila góðri túlkun á tónlistinni sem hún skautar við og hefur tekið miklum framförum s.l. ár. Í dag skautaði hún við franska útgáfu Memories úr söngleiknum Cats og skildi áhorfendur eftir með hroll. Hún stimplaði inn öll elementin sín, þar á meðal þrefalt Salchow í samsetningu með tvöföldu stökki og tvöfaldan Axel með smá hnökrum í lendingu. Stigin voru eftir því 45,87 stig í hús og persónulegt stigamet hjá Júlíu Rós. Staðan eftir daginn er því Júlía Rós í fyrsta sæti, Júlía Sylvía í öðru sæti og Eydís í því þriðja. Þetta er fyrsta tímabil allra keppenda í flokknum.Við bíðum svo spennt eftir frjálsa prógraminu á morgun, sunnudag.
Síðasti flokkur fyrir hlé var Senior Ladies en í honum var að þessu sinni einn keppandi. Þetta verður fyrsta keppni Aldísar Köru Bergsdóttur, frá SA, en hún segir nú skilið við glæsilegan Junior feril með mörgum Íslandsmetum ástamt því að vera fyrsti íslenski skautarinn sem vann sér inn keppnisrétt á Heimsmeistaramót unglinga og skilaði stiga og sætismeti á síðasta Norðurlandamóti. Aldís Kara mætti full eldmóðs í dag með þrefalt Salchow í samsetningu, tvöföldum Axel og þreföldu Toeloop og skilaði nýju Íslandsmeti í stuttu prógrami í þessum flokki með 40,93 stig, fyrra metið átti Júlía Grétarsdóttir frá árinu 2016. Gaman verður að fylgjast með henni á morgun, sunnudag, í frjálsa prógraminu.
Keppni hefst klukkan 11:15 á morgun í þessum flokkum en á undan munu keppa barnaflokkar sem fá þátttökuverðlaun og persónulega endurgjöf.