Hertar sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu

Hertar sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu

Í gær, þriðjudgaginn 6. október, var birt breyting á reglugerð nr. 957/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Heilbrigðisráðherra féllst á tillögur sóttvarnalæknis um hertar samkomutakmarkanir á höfuðborgarsvæðinu og tóku þær gildi í dag, 7. október. Samkomutakmarkanir sem kynntar voru á mánudaginn sl. gilda óbreyttar annars staðar á landinu. Gildistími þessara takmarkana er til og með 19. október.

Helstu atriði er tengjast íþróttastarfi má lesa hér að neðan – frétt með nánari upplýsingum má finna á heimasíðu stjórnarráðsins – sjá hér.

Hertar takmarkanir fela í sér eftirfarandi:
Nálægðarmörk 2 metrar: Nálægðarmörk verða 2 metrar.
Íþróttir og líkamsrækt innandyra óheimil: Líkamsrækt, íþróttastarf og sambærileg starfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu á milli fólks eða mikilli nálægð, eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil innandyra.
Íþróttir utandyra: Íþróttir utandyra eru heimilar en áhorfendur á íþróttaviðburðum utandyra skulu ekki vera fleiri en 20 í hverju rými. Áhorfendur skulu bera grímu og sitja í merktum sætum.

Börn fædd 2005 og síðar:
Íþrótta- og æskulýðsstarfsemi og tómstundir barna sem eru fædd 2005 og síðar er  heimil.
Keppnisviðburðir: Keppnisviðburðir barna sem fædd eru 2005 og síðar þar sem hætta er á blöndun hópa umfram hefðbundnar æfingar eru óheimilir.
Nálægðar- og fjöldamörk: Líkt og áður gilda nálægðar- og fjöldamörk ekki um börn fædd 2005 og síðar.

 

Auk reglugerðarinnar hafa komið fram tilmæli um að einstaklingar sem búa á höfuðborgarsvæðinu haldi sig eins og kostur er heimavið og ferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu séu lágmarkaðar.

Mikilvægt er að hafa í huga hvert grundvallartakmark reglugerðarinnar er þ.e.a.s. að draga eins og hægt er úr hópamyndunum og blöndun milli ótengdra aðila. Allt miðar að því að okkar heilbrigðiskerfi standist það álag sem er á því nú og næstu vikur.

Nú sem fyrr er mikilvægt að standa saman og taka ábyrga afstöðu. Munum að einstaklingsbundnu smitvarnirnar eru þær mikilvægustu og það er samstaðan sem skiptir mestu máli.

Translate »