Haustmót ÍSS 2020

Haustmót ÍSS 2020

Haustmót Skautasambands Íslands var haldið um síðastliðna helgi í skautahöllinni á Akureyri. Þetta er fyrsta mót vertíðarinnar og margir orðnir langeygðir eftir keppni. Á laugardag var keppt í þremur flokkum: Í Basic novice voru 10 keppendur. Þann flokk sigraði Sædís Heba Guðmundsdóttir frá SA með 38.41 stig, Berglind Inga Benediktsdóttir SA varð önnur með 28.40 stig og þriðja varð Katla Karítas Yngvadóttir SR með 24.60 stig.

Á eftir þeim komu keppendur í Advanced novice og Junior Ladies. Þessir tveir flokkar keppa eftir keppniskröfum frá Alþjóða skautasambandinu og í ár er mikil nýliðun í þessum flokkum þar sem einhverjir hafa færst upp á milli þeirra en einnig hefur verið töluvert um meiðsli. Það voru einungis þrjár stúlkur skráðar í Advanced novice og þar af tvær nýjar. Keppt var með stuttu prógrami í gær og var staðan eftir daginn að Dharma Elísabet Tómasdóttir frá SR sat í þriðja sæti með 18.22 stig og Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni var í öðru með 22.12 stig og eru báðar þessar stúlkur nýliðar. Í fyrsta sæti eftir daginn var svo Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr SA heilum 10 stigum ofar en annað sætið eða með 32.09 stig og því ljóst að erfitt yrði að ná henni. Freydís gerði tvöfaldan Axel í fyrsta sinn í keppni og var með afar góða spinna.

Fimm keppendur voru skráðir í Junior ladies. Aldís Kara Bergsdóttir frá SA hóf leikinn og setti strax markið hátt. Aldís hefur verið að reyna nýja og erfiða stökk samsetningu sem því miður lét á sér standa í þetta skiptið en skilaði samt sem áður flottu prógrami með öllum spinnum og sporum á Level3 og tvöföldum Axel á plús þremur. Stigin urðu 44.18 sem er með því hæsta sem hún hefur fengið og ansi nálægt metinu hennar frá síðasta tímabili. Eydís Gunnarsdóttir, SR, átti ágætan dag og fékk 32.13 stig og Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, skautaði með krafti en einhverjir hnökrar voru á spinnum hennar og fengust ekki dæmdir. Fékk Lena Rut 24 stig en ljóst að hún á töluvert inni. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni skautaði fallegt prógram með góðum spinnum og sporum og hampaði þriðja sætinu eftir stutta prógramið með 35.51 stig. Síðust skautaði Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, og er hún ný í flokknum eins og Júlía Sylvía, Lena Rut og Eydís. Júlíu Rós gekk afar vel síðasta vetur og hampaði sigri á öllum ÍSS mótum vetrarins. Í stutta prógraminu hennar var ljóst að hún hefur ekki setið auðum höndum í sumar og komið fílelfd til leiks. Hún vippaði sér í tvöfaldan Axel en féll í þrefalda Salchowinu. Þrátt fyrir allt voru spinnar á Level3 og einn á Level4 og uppskar hún 43.50 stig fyrir þessa frumraun sína í þessum keppnisflokki og innan við stigi frá Aldísi Köru og sat í öðru sæti í lok dags.

Keppni á sunnudag hófst snemma í flokkum Chicks og Cubs. Ekki eru veitt verðlaun í þessum flokkum en allir keppendur fengu viðurkenningar fyrir þátttöku. Síðan var keppt í Intermediate novie og voru fjórir keppendur skráðir og í Intermediate Ladies  en þar voru þrír keppendur. Sigurvegarar í þessum flokkum komu báðir úr SR þar sem Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir sigraði í Intermediate novice með 23.25 stig, Sandra Hlín Björnsdóttir, Fjölni, varð önnur með 22.63 stig og í þriðja sæti varð Hugrún Helga Einarsdóttir, SR, með 20.33 stig. Edda Steinþórsdóttir varð sigurvegari í Intermediate ladies með 34.52 stig, önnur var Þórunn Lovísa Löve, SR, með 25.35 stig og þriðja varð Anna Björk Benjamínsdóttir, SR, með 18.61 stig.

Eftir heflun var komið að keppni í frjálsu prógrami í alþjóðaflokkunum. Advanced novice hóf leikinn og stigu stúlkurnar á ísinn í öfugri sætisröð frá deginum áður. Dharma Elísabet Tómarsdóttir úr SR skautaði áhugavert prógram með glæsilegu tvöföldu Loop og skilaði það henni 33 stigum. Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni kom á eftir henni og opnaði með einföldum Axel í samsetningu með tvöföldu Loop og nokkrum hröðum spinnum og fékk fyrir 36.81 stig. Síðust skautaði svo Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, með kröftugt prógram, ágæta tilraun á tvöföldum Axel og spinnum á Level3. Fyrir frjálsa prógramið fékk hún 49.60 stig. Samanlagt urðu úrslitin því þau að Freydís Jóna hampaði fyrsta sætinu með 81.69 stig. Tanja Rut varð önnur með 58.93 stig og í þriðja varð Dharma Elísabet með 51.22stig.

Síðast skautuðu Junior ladies í öfugri sætisröð frá deginum áður. Töluvert var á brattann að sækja fyrir þær sem byrjuðu. Lena Rut Ásgeirsdóttir úr Fjölni átti ágætis dag og kláraði alla spinnana sína vel. Hún fékk 47.04 stig fyrir frjálsa prógramið. Á eftir henni kom Eydís Gunnarsdóttir úr SR. Eydís var í stuði í dag og fékk spinn á Level4 og kláraði öll sín stökk og hlaut 56.22 stig fyrir. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni var vel æfð og reyndi bæði tvöfaldan Axel og þrefalt Salchow en féll í báðum stökkum. Spinnana fékk hún alla dæmda á Level3 og vera meðal þeirra hæðstu í túlkun og framkvæmd á prógraminu og voru stigin 68.82. Þá var komið að Júlíu Rós Viðarsdóttur úr SA sem byrjaði með dúndri, tvisvar sinnum gullfallega tvöfalda Axela á plúsum og strax á eftir þrefalt Salchow. Restin af stökkunum í prógraminu voru glæsileg, allir spinnar og spor á Level3 og framkvæmd og túlkun með hæstu einkunn dagsins. Stigin urðu 78.95 og ljóst að Aldís Kara Bergsdóttir frá SA, sem kom á eftir henni, mátti hafa sig alla við að halda forystunni. Stóru stökkin hennar, þrefalt Salchow og þrefalt Toeloop gerðu henni örlítinn grikk þann dag en tvöföldu Axelarnir, þar af annar í þriggja stökka seríu, voru gull fallegir. Spinnarnir voru kraftmiklir á Level3 og 4 og túlkun með ágætum. Stigin fyrir prógramið urðu 73.67. Samanlögð úrslit urðu því þau að Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, náði að skauta sig til sigurs á sínu fyrsta móti í flokkinum og fékk fyrir 122.45 stig. Í öðru sæti varð Aldís Kara Bergsdóttir, einnig frá SA, með 117.85 stig og þriðja varð Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni með 104.33 stig.

 

Sigurvegarar:

Basic Novice- Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA
Intermediate Novice- Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir, SR
Intermedate Ladies- Edda Steinsþórsdóttir, SR
Advanced Novice- Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA
Junior Ladies- Júlía Rós Viðarsdóttir, SA

Translate »