Heiðursverðlaun ÍSS 2020

Heiðursverðlaun ÍSS 2020

Skautasamband Íslands veitir í ár Heiðursverðlaun ÍSS í annað sinn.

Gullmerki ÍSS er veitt þeim sem unnið hafa ötult og óeigingjarnt starf í þágu skautaíþrótta á Íslandi í 20 ár, eða þegar stjórn þykir sérstök ástæða til.

 

Stjórn veitti að þessu sinni Guðbjörtu Erlendsdóttur Gullmerki ÍSS.

Guðbjört stundaði listskauta til margra ára hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Þar var hún einnig hluti af fyrsta íslenska liðinu í samhæfðum listskautum (e. Synchronized skating) og keppti með þeim á fjölmörgum mótum, þar á meðal tveimur heimsmeistaramótum, en það er í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið keppti á heimsmeistaramóti og í fyrsta sinn sem íslenskir skautarar kepptu á heimsmeistaramóti.

Á meðan að Guðbjört var ennþá að skauta og keppa sjálf sótti hún dómaranámskeið hjá ÍSS. Samhliða sinni iðkun dæmdi hún á flestum mótum á Íslandi. Eftir að hún hætti sjálf að skauta hélt hún áfram dómgæslu bæði innanlands og erlendis.

Guðbjört var fyrst íslenskra dómara til þess að fá alþjóðleg réttindi frá ISU. Fékk hún þau réttindi eftir námskeið í Finnlandi í október árið 2007. Árið 2008 var hún fyrsti íslenski dómarinn til þess að dæma á Norðurlandamóti og sama ár dæmdi hún einnig á Copenhagen Trophy og var þar með fyrsti íslenski dómarinn til þess að dæma á móti á lista ISU.

Á þeim árum sem Guðbjört dæmdi á vegum ÍSS var hún í þeim hópi sem stofnaði dómara- og tækninefnd ÍSS. Þar var grunnurinn unninn að þeim dómarakerfum sem notuð voru innan ÍSS til margra ára. Ísland var eitt af fyrstu löndunum til þess að taka upp nýtt dómarakerfi ISU, svokallað IJS kerfi eða International Judging System. Kom það í framhaldi af 6.0 kerfinu sem notast hafði verið við innan skautaíþrótta í öllum heiminum. Guðbjört, ásamt fleiri aðilum, vann mikla undirbúningsvinnu fyrir þessa innleiðingu sem stuðlaði að mikilli og góðri þekkingu á kerfinu á Íslandi.

Ásamt nefndarvinnu og dómgæslu vann Guðbjört einnig að uppsetningu og innleiðingu að Grunnprófum ÍSS, sem eru grunnurinn að þeim prófum sem ÍSS notast við í dag.

Árið 2010 sagði Guðbjört skilið við dómarastörf sín. Eða svo taldi hún !

Hún fór fljótlega að aðstoða Helgu Olsen við það að setja á stofn skautadeild innar Íþróttafélagsins Aspar og þjálfaði hún innan þeirrar deildar í nokkur ár. Á þeim tíma kynnti hún sér vel þau dómarakerfi sem notuð eru innan Special Olympics, en þar var notast við gamla 6.0 kerfið allt til ársins 2019.

Guðbjört var í hópi dómara sem unnu að nýju og bættu dómarakerfi í sérstöku samstarfsverkefni Special Olympics á Íslandi með öðrum þjóðum sem vildu bæta aðgengi fatlaðra einstaklinga að skauta íþróttum með það að markmiði að einstaklingar gætu keppt á jafningjagrundvelli og frammistaða þeirra metin út frá getu og líkamlegum burðum.

Var þetta verkefni stórt og viðamikið og komu margir einstaklingar að því úr öllum áttum og með ýmis sérfræðisvið. Þetta dómarakerfi er í raun grunnurinn að því dómarakerfi sem Special Olympics notar í dag..

Það var svo í apríl árið 2016 sem Guðbjört bauð sig fram til formanns stjórnar ÍSS.

Síðan þá hefur hún unnið ötult starf sem fór langt út fyrir starfsvið formanns stjórnar.

Hún hefur unnið að því að efla afreksstarf innan sambandsins ásamt því að auka þekkingu dómara- og tæknifólks. Á síðustu fjórum árum hafa þrír íslenskir dómarar fengið alþjóðleg dómararéttindi frá ISU og heldur ÍSS áfram að stuðla að frekari menntun og reynslu fyrir sitt starfsfólk.

 

Guðbjört er vel að þessari viðurkenningu komin og óskar stjórn ÍSS henni innilega til hamingju um leið og við þökkum henni fyrir störf sín í gegnum tíðina.

Translate »