Halloween Cup

Halloween Cup

Þá hafa íslensku keppendurnir í landsliðsferðinni á Halloween Cup í Budapest lokið keppni og tygja sig til heimferðar á morgun.

Keppnin með frjálsu prógrami hófst eldsnemma í morgun þegar Eydís og Júlía drifu sig í höllina. Eydís hafði rásnúmer 4 og steig eldhress á ísinn og byrjaði með gullfallegum einföldum Axel hún raðaði svo niður elementunum með glæsilegum spinnum á fullum levelum og stóð uppi með 37.69 stig í 22. sæti í frjálsa prógraminu. Júlía Rós hafði rásnúmer 14 og byrjaði einnig á glæsilegum einföldum Axel. Hún skautaði nánast hreint prógram en fataðist í Camel spinninum og fékk hann því ekki gildan. Stigin voru góð eða 44.07 og 17. sæti í frjálsa.

Samanlagt fékk Júlía Rós Viðarsdóttir 72.41 stig og hafnaði í 15. sæti og Eydís Gunnarsdóttir fékk 59.87 stig og hélt 21. sætinu. Glæsileg frammistaða hjá báðum stúlkum í morgun.

Junior stúlkur hófu keppni um hádegi. Töluvert meira er í húfi fyrir skautara í þessum keppnisflokki enda allir að keppast við að ná lágmörkum inn á Heimsmeistaramót Unglinga, Junior Worlds. Flestir tjalda öllu því sem þeir eiga og oft verða miklar sviftingar í þessum flokki þegar keppendur ýta sér á sín ystu mörk.

Marta María skautaði á undan með rásnúmer 14, staðráðin í að gera sitt ýtrasta. Hún hóf prógramið með því að raða niður tveimur tvöföldum Axelum og einu þreföldu Salchow. Spinnar voru fyrsta flokks og „neðri parturinn“ svokallaði mjög góður. Marta er auðsjáanlega að tengja vel við þetta prógram og túlkar það vel. Fékk hún 68.73 stig fyrir og 15. sæti.

Aldís Kara skautaði númer 20. Það var greinilegt að hún ætlaði sér stóra hluti í dag og var búin að hlaða í prógramið sitt afar erfiðum elementum. Fyrir utan að framkvæma 2 tvöfalda Axela og 2 þreföld Salchow reyndi hún við þrefalt Toeloop en féll því miður í lendingu sem og í öðru Salchowinu sem var í samsetningu.  Aldís gaf allt sitt, gafst ekki upp og skautaði af hugrekki og fékk 67.91 stig fyrir frammistöðuna og 18. sæti.

Samanlagt fékk Aldís Kara Bergsdóttir 108.61 stig og tryggði sér 15. sæti og Marta María Jóhannsdóttir 106.10 stig og 18. sæti. Þessar stúlkur eru að fá yfir hundrað stig á nánast hverju móti og spennandi að sjá hvernig framgangurinn hjá þeim verður í vetur. Með þetta innihald í prógrömunum er ljóst að juniorarnir eru búnir að taka gríðarstórt stökk í íslensku skautasögunni.

Skautasamband Íslands óskar þeim til hamingju með árangurinn og góða frammistöðu.

Translate »