Evrópumót Special Olympics

Evrópumót Special Olympics

Dagana 10 – 11 október fór fram Evrópumót Special Olympics í Espoo í Finnlandi. Mótið er haldið samhliða Finlandia Trophy, sem er hluti af Challenger Series hjá ISU þar sem keppt er í einstaklings skautum, para skautum, ísdansi og samhæfðum skautum.
Þetta er í fyrsta sinn sem Special Olympics keppnisflokkar eru hluti af Finlandia Trophy Mótið er eitt það elsta og virtasta á dagatali ISU og aldrei áður hafa verið íslenskir skautarar meðal keppenda.

Fulltrúar Íslands á mótinu voru þær Védís Harðardóttir, Nína Margrét Ingimarsdóttir og Gabriella Árnadóttir. Með þeim í för voru Helga Kristín Olsen og Ragna Kristín Gunnarsdóttir, þjálfarar þeirra.

Special Olympics keppnum í einstaklingskeppni á listskautum er skipt upp í 6 stig (e.Level).
Íslensku keppendurnir kepptu á stigum 1 og 2.

Á fyrsta keppnisdegi var keppt með skylduæfingar í stigum 4-6.

Ásamt því að keppa í einstaklingskeppni keppa Nína Margrét og Gabriella saman í parakeppni. En þar sem að þær voru eina parið sem skráð var til keppni á mótinu var ákveðið að þær myndu sýna dansinnn sinn á sérstakri sýningu á fyrsta keppnisdegi. Dómararnir notuðu tækifærið og fylgdust með sýningunni til þess að gefa þeim endugjöf á prógrammi þeirra.
Dansinn gekk mjög vel hjá þeim. Engir hnökrar voru og var framkoma þeirra sérstaklega góð. Fengu þær mjög góða endugjöf frá dómurum.

Á seinni keppnisdegi var keppt með frjáls prógram í stigum 1-6.

Védís var fyrst íslenska keppenda inn á ísinn. Hún stóð sig mjög vel og nelgdi allar sínar æfingar með glæsibrag. Skilaði frammistaða hennar henni 2.sæti í sínum keppnisflokki.

Í næsta keppnisflokki kepptu þær Nína Margrét og Gabriella. Þær stóðu sig báðar með eindæmum vel og sýndu allar þær æfingar sem voru planaðar. Svo fór að Nína Margrét hafnaði í 1.sæti og Gabriella í 2.sæti.

Allir keppendurnir stóðu sig með vel og voru landi sínu til sóma. Framkoma þeirra var framúrskarandi og fengu þær lof frá viðstöddum fyrir frammistöðu sína.

Skating Finland tóku viðtal við íslensku keppendurnar og má sjá viðtalið hér

 

Samhliða mótinu var haldið námskeið fyrir dómara og tæknifólk.

Er þetta í fyrsta sinn sem nýtt dómarakerfi er notað, en tækninefnd Special Olympics International hefur síðustu þrjú árin unnið að uppfærslu á dómarakerfinu úr gamla 6.0 kerfinu yfir í aðlagaða útgáfu af alþjóða dómarakerfi ISU (IJS).
Fulltrúi ÍSS á námskeiðinu var Svava Hróðný Jónsdóttir, en hún hefur starfað með tækninefnd SOI að uppfærslunni á kerfinu.

 

Skautasamband Íslands óskar keppendum til hamingju með glæsilegan árangur.

Translate »