Heiðursverðlaun ÍSS veitt í fyrsta sinn á 20.Skautaþingi

Heiðursverðlaun ÍSS veitt í fyrsta sinn á 20.Skautaþingi

Heiðursverðlaun ÍSS

Skautasamband Íslands hélt Skautaþing í 20. sinn þann 6. apríl sl.. Af því tilefni var samþykkt ný reglugerð um Heiðursveðlaun og Heiðursmerki ÍSS. Skautasambands Íslands veitti því í ár í fyrsta sinn Heiðursverðlaun ÍSS.

Stjórn afhenti Elísabet Eyjólfsdóttur Silfurmerki ÍSS.
Merkið er veitt þeim sem hafa unnið ötult og óeigingjarnt starf í þágu skautaíþróttarinnar á Íslandi til 10 ára eða lengur.

Skautasamband Íslands (ÍSS) var stofnað árið 1995 og var í upphafi skipt upp í hlaupadeild og hokkídeild. Hlaupadeild Skautasambandsins hafði yfirumsjón með listskautum, auk þess sem gert var ráð fyrir að skautahlaup félli undir þá deild líka. Í nóvember 2004 átti sér stað aðskilnaður með stofnun Íshokkísambands Íslands. Þær greinar sem áður féllu undir listhlaupadeild tilheyrðu Skautasambandinu áfram en íshokkí fluttist yfir til hins nýja landssambands.
Elísabet var kjörin formaður listhlaupadeildar Skautasambandsins árið 1997 og sinnti því starfi fram að aðskilnaði deildanna. Við aðskilnaðinn var Elísabet kjörinn formaður Skautasambands Íslands, og er hún því fyrsti formaður sjálstæðs sambands. Elísabet var formaður ÍSS þangað til árið 2007, samtals í 10 ár.
Undir handleiðslu Elísabetar sótti ÍSS um aðild að Alþjóða skautasambandinu (ISU). Í febrúar árið 2000 fékk ÍSS tímabundna aðild að ISU og árið 2002 fékkst fullgild aðild að ISU. Frá þessum tíma hafa orðið miklar framfarir í listskautum á Íslandi og mikið uppbyggingarstarf átt sér stað. Með aðild að ISU hafa einnig opnast tækifæri til þátttöku erlendis sem áður voru ekki möguleg.
Á starfsárum Elísabetar var unnið mikið að framförum íþróttarinnar og gerður grunnur að verkefnum sem enn eru í vinnslu. Má þar meðal annar nefna Grunnpróf ÍSS og menntun dómara og tæknifólks.
Eftir að Elísabet hætti sem formaður ÍSS hélt hún vinnu sinni fyrir sambandið áfram. Hún sá til að mynda um allt bókhaldið all fram til ársins 2012.
Grasrótin í ungum félögum á uppleið er gríðarlega mikilvæg og sýndi Elísabet það í verki með því að leggja grunn að sterku sambandi.
Elísabet er vel að þessari viðurkenningu komin og óskar stjórn ÍSS henni innilega til hamingju um leið og við þökkum henni fyrir störf sín í gegnum tíðina.

Translate »