Annáll – skautaárið 2018

Annáll – skautaárið 2018

Á sama tíma og Skautasamband Íslands sendir skauturum, félögum og landsmönnum öllum óskir um farsælt komandi ár og þakkar samstarfið á árinu sem er að líða er ekki úr vegi að fara yfir þann árangur sem skautarar okkar hafa svo sannarlega uppskorið á árinu sem er að líða og er vert að fara yfir.

Heimsmeistaramót Unglinga – viðmiðum náð í stuttu prógrami

Fyrst ber að nefna að í upphafi árs náði Kristín Valdís Örnólfsdóttir fyrst íslenskra skautara ISU viðmiði fyrir Heimsmeistaramót Unglinga (World Junior Figure Skating Championships) í stuttu prógrammi þegar hún náði 20,84 tæknistigum á  Reykjavik International Games sem var haldið 26. – 28. janúar 2018. Til að öðlast keppnisrétt á HM Unglinga 2018 þarf að ná ISU viðmiði á móti sem er á lista Alþjóðaskautasambandsins í bæði stuttu og frjáslu prógrami. Ekki þarf að ná því á sama móti.

Kristín Valdís þurfti að ná 35 tæknistigum í frjálsu prógrami og var þess freistað á Sofia Trophie sem því miður gekk ekki upp að þessu sinni en Kristín Valdís náði mest 29,53 tæknistigum í frjálsu prógrami og lauk þar með Junior ferli sínum með glæsibrag.

Norðurlandamót – Íslensk met slegin í öllum keppnisflokkum

Skautasamband Íslands sendi í fyrsta sinn fullskipað lið skautara til keppni á Norðurlandamót 2018 sem var að þessu sinni haldið í Rovaniemi, Finnlandi. Íslensk met í heildarstigum voru slegin í öllum keppnisflokkum á Norðurlandamóti en Viktoría Lind Björnsdóttir á nú metið í Stúlknaflokki (Advanced Novice) með 76,76 í heildarstig, Marta María Jóhannsdóttir í Unglingaflokki kvenna (Junior) með 93,23 í heildarstig og Eva Dögg Sæmundsdóttir í Fullorðinsflokki kvenna (Senior) 92,97 í heildarstig.
Á Norðurlandamótið sendi ÍSS einnig fullskipað lið dómara og tæknifólks. Dómarar á mótinu voru Halla Björg Sigurþórsdóttir og María Fortescue, tæknisérfræðingur var Ásdís Rós Clark og DVO var Sunna Björk Mogensen.

Skautaþing

Skautaþing ÍSS varhaldið í maí. Var þá kosin ný stjórn og varamenn. Mikið var um breytingar á lögum á þinginu en skautafjölskyldan er samstíga í sínum verkefnum og gekk allt vel fyrir sig.
Skautaþing Alþjóðaskautasambandsins (ISU) var haldið í Sevilla á Spáni í júní. Skautasamband Íslands sendi þrjá fulltrúa á þingið, Guðbjört Erlendsdóttir formaður, Svava Hróðný Jónsdóttir varaformaður og María Fortescue framkvæmdastjóri. Á þinginu voru gerðar töluverðar breytingar og þá sérstaklega á fyrirkomulagi dómarakerfisins þar sem að skalinn var stækkaður í einkunnagjöf dómara upp í +5/-5. Einnig var kosið í stjórn ISU og tækninefndir.

Junior Grand Prix 2018  – Íslenskt met slegið og 100 stiga múrinn sleginn

Fulltrúar Íslands árið 2018 á JGP voru Marta María Jóhannsdóttir, sem keppti í Kaunas í Litháen, og Viktoría Lind Björnsdóttir, sem keppti í Bratislava í Slóvakíu. María Fortescue fór sem dómari fyrir Íslands hönd til Bratislava og Halla Björg Sigurþórsdóttir dæmdi í Kaunas.
Viktoría Lind hlaut hæstu stig sem íslenskur keppandi hefur fengið á JGP í bæði stuttu prógrammi, frjálsu prógrammi og í heildarstig en hún lauk keppni með 100,41 stig. Hún er fyrsti íslenski skautarinn til þess að fá yfir 100 stig á JGP en metið átti áður Kristín Valdís Örnólfsdóttir með 90,49 stig.

Autumn Classic International 2018 – Íslenskir skautarar á heimslista

Mótið er hluti af ISU Challenger series mótaröðinni sem er næst í styrkleikaröðinni fyrir neðan Grand Prix mótin og keppa skautarar þar til að ná lágmörkum á Grand Prix á hverju ári. Mótin eru samtals tíu og eru haldin um allan heim.
Eva Dögg Sæmundsdóttir og Júlía Grétarsdóttir kepptu þar og eru fyrstu íslensku skautararnir til þess að keppa á þessari mótaröð. Stelpurnar stóðu sig vel og voru íslensku skautaíþróttinni til sóma. Þær eru nú komnar á heimslista íþróttarinnar, fyrstar íslenskra skautara í fullorðinsflokki, nr. 263 og 264.
Með þeim í för var María Fortescue alþjóðadómari.

ISU mót, Tirnavia Ice Cup – Gullverðlaun

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir hlaut gullverðlaun á Tirnavia Ice Cup í nóvember sl. með 95,87 í heildarstig en mótið er, líkt og Reykjavík International Games, á lista Alþjóðaskautasambandsins. Þetta er í annað sinn sem Ísold Fönn hlýtur gullverðlaun á erlendu ISU móti en hún hlaut gullverðlaun líka á Grand Prix Bratislava árið 2017 með 93,39 í heildarstig.

Grand Prix Skate Canada

Sunna Björk Mogensen ISU DRO (Data Replay Operator) sat á panel fyrir Alþjóða Skautasambandið (ISU) á Grand Prix Skate Canada sem haldið var í Laval, Quebec í október.
Þetta er í annað skiptið sem Sunna starfar á þessu móti fyrir ISU.

Íslandsmet slegin á árinu - Stúlknaflokkur, Unglingaflokkur og Fullorðinsflokkur

Íslandsmet voru slegin í Stúlknaflokki (Advanced Novice), Unglingaflokki (Junior) og Fullorðinsflokki (Senior) á árinu.

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir varði Íslandsmeistaratitil sinn í Stúlknaflokki (Advanced Novice). Hún bætti eigið met frá fyrra ári en á nú Íslandsmet í stigum fyrir stutt prógram, frjálst prógram og í heildarstigum (106,07 stig).

Kristín Valdís Örnólfsdóttir sló eigið Íslandsmet á Sofia Trophy í janúar sl. og á nú Íslandsmetið í Unglingaflokki kvenna (Junior) 104,65 í heildarstig.

Marta María Jóhannsdóttir varði Íslandsmeistaratitil sinn í Unglingaflokki kvenna (Junior Ladies) þetta árið en hún ásamt Aldísi Köru Bergsdóttur fengu yfir 100 í heildarstig sem hefur aldrei áður gerst á keppni í sama keppnisflokki á íslensku móti.

Margrét Sól Torfadóttir varð Íslandsmeistari í Fullorðinsflokki kvenna (Senior Ladies). Hún setti Íslandsmet í frjálsu prógrammi og í heildarstigum (102,25) en metið átti fyrir Júlía Grétarsdóttir frá 2015.

Skautadeild Íþróttafélagsins Ösp
Skautadeild Aspar varð aðili að ÍSS í byrjun árs. Skautasambandið fagnar stækkun sambandsins og af því tilefni var keppendum innan þeirra raða boðið að taka þátt á Vetrarmóti ÍSS.

 

Eins og sjá má voru met slegin á ótal vígstöðum auk þess sem ný skref voru tekin á alþjóðlegum vettvangi sem eru fyrstu skrefin í átt að enn frekari árangri. Því má með sanni segja að árið 2018 hafi verið sannkallað uppskeruár innan listskautanna og einstaklega öflugt hjá íslenskum skauturum bæði á innlendum sem og erlendum vettvagi. Íslenskir skautarar eru að auka vegferð íþróttagreinarinnar til frekari árangurs og verður gaman að sjá hvað nýtt ár ber í  skauti sér.

 

Translate »