Viktoría Lind sló öll met á JGP í Bratislava

Viktoría Lind sló öll met á JGP í Bratislava

Viktoría Lind Björnsdóttir lauk keppni á JGP Bratislava í Slóvakíu í dag. Þetta var fyrsta mót Viktoríu á tímabilinu og jafnframt fyrsta skiptið hennar á JGP. Óhætt er að segja að frumraun hennar hafi gengið vel þar sem hún sló öll met íslensks keppanda á JGP sem hún gat slegið.

Hún keppti með splunkunýtt stutt prógram á fimmtudaginn var og hafði dregið rásnúmer þrjú í fyrsta keppnishópi junior ladies. Prógramið gekk vel og skilaði henni 35.59 stigum og bætti þar með stgamet Kristínar Valdísar Örnólfsdóttur frá í fyrra um rúm 2 stig. Tæknistigin fyrir stutta prógramið voru 19.40, einungis 0.60 stigum frá Junior Worlds lágmarki í stuttu prógrami.

Föstudagur var notaður til æfinga og undirbúnings fyrir langa prógramið. Stigin frá stutta prógraminu skiluðu henni 28. sæti af 34 keppendum sem þýddi að hún myndi skauta langa prógramið sitt í öðrum keppnishópi. Þar dró hún aftur rásnúmer þrjú.

Frjálsa prógramið hennar gekk einnig vel og skilaði henni 64.82 stigum og sló stigamet Júlíu Grétarsdóttur, sem staðið hafði frá árinu 2012, um rúm 4 stig. Tæknistig hennar voru 33.40 og vantaði einungis 2.60 stig upp á Junior Worlds lágmarkið.

Heildarstig Viktoríu Lindar voru 100.41 stig sem einnig er stigamet íslendings á JGP og bætti ársgamalt met Kristínar Valdísar um næstum 10 stig. Þetta er í fyrsta skiptið sem íslenskur skautari fer yfir 100 stig á JGP og verður spennandi að fylgjast með þróuninni hjá okkar skauturum í framtíðinni með breytingunum í dómarakerfinu.

Að auki setti Viktoría persónulegt stigamet og lauk keppni í 27. sæti af 33 keppendum.

Það var gaman að heyra hvað kynnir ISU sagði um íslenska skautara eftir að Viktoría hafði lokið stutta prógraminu sínu. Það sýnir að íslenskir skautarar eru á réttri leið og gefur okkur byr undir báða vængi.

ÍSS óskar Viktoríu hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.

Hér má sjá prógröm Viktoríu

https://www.youtube.com/watch?v=vblHwYowLFs
https://www.youtube.com/watch?v=nRu_wz5A0UU

Translate »