Ösp – nýtt aðildarfélag ÍSS

Ösp – nýtt aðildarfélag ÍSS

Á nýju ári, 2018, bættist nýtt aðildarfélag í Skautasamband Íslands, Skautadeild Íþróttafélagsins Ösp.
Fjölgreinafélagið Ösp hefur verið starfandi síðan 1980.
Ísland hefur síðan árið 2004 haldið úti skautaþjálfun fyrir fatlaða einstaklinga, en skautadeild Asparinnar var stofnuð haustið 2011.

Fimm þjálfarar eru starfandi innan deildarinnar sem sérhæfa sig í þjónustu við einstaklinga með fötlun/sérþarfir. Unnið er markvisst að því að þróa þjálfunarkerfi sem hentar þeim einstaklingum sem iðka íþróttina innan Asparinnar. Lögð er áhersla á hátt þjónustustig og einstaklingsmiðað nám.
Boðið er upp á æfingar fyrir byrjendur og lengra komna.

Kennt er eftir alþjóðlegum áfangamarkmiðum Special Olympics þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi. Áfangamarkmiðunum er skipt upp í 12 áfanga þar sem grunnskautafærni er byggð upp á markvissan hátt. Farið er frá því einfalda til hins flóknara.
Þjálfarar meta árangur í hverri kennslustund og iðkendur fá viðurkenningu fyrir afrek sín. Iðkendur fá afhent barmmerki sem viðurkenningu þegar hverjum áfanga er náð.

Keppendur Special Olympics hafa tekið þátt á Special Olympics Winter Games í Japan 2005, í Boise í Bandaríkjunum árið 2009, í Suður Kóreu árið 2013 og núna síðast í Graz, Austurríki, árið 2017.
Einnig hefur verið farið á Evrópuleika Special Olympics árið 2010 í Rússlandi, Austrian Open 2012 og 2015 og var boðið sérstaklega að taka þátt á Pre-Games í Austurríki 2016.
Næsta alþjóðlega mót sem Öspin sendir keppendur sína á er Vienna Special Olympics sem fer fram 23.-25. febrúar nk.

ÍSS hefur boðið keppendum Asparinnar að taka þátt á Vetrarmóti ÍSS í mars nk. þar sem keppt verður í keppnisflokkum Special Olympics.

Skautasamband Íslands býður skautara, þjálfara og aðstandendur velkomin í sambandið og hlakkar til spennandi samstarfsverkefna á komandi tímabilum.

Translate »