Haustmót ÍSS 2017 seinni keppnisdagur

Haustmót ÍSS 2017 seinni keppnisdagur

Haustmót ÍSS 2017

Haustmóti ÍSS lauk í dag. Það sem er svo skemmtilegt á haustmóti er að sjá öll nýju prógrömmin sem æfð hafa verið yfir sumarið og alla fallegu kjólana sem keppendur mæta í til keppni. Að sjálfsögðu var enginn svikin á þessu haustmóti. Stelpurnar sýndu flott tilþrif á ísnum og margar að reyna við erfiðari element í prógrömmum.

Dagurinn hófst með keppni í flokknum Basic Novice B. Þar mættu til leiks 16 keppendur. Edda Steinþórsdóttir SR sigraði, önnur varð Sólbrún Erna Víkingsdóttir SB og þriðja varð Margrét Helga Kristjánsdóttir SR.

Þá var komið að stúlkunum í Advanced Novice með frjálsa prógrammið. Mættar til leiks voru 9 stúlkur. Í hópnum var áfram hörð keppni og má nefna að stúlkurnar í efstu fjórum sætunum náðu viðmiðum ÍSS fyrir úrvalshóp. Marta María Jóhannsdóttir SA sigraði með talsverðum yfirburðum með 78.89 stigum samanlagt, í öðru sæti varð Rebekka Rós Ómarsdóttir SA á nýju persónulegu meti með 74.27 stig og þriðja varð Aldís Kara Bergsdóttir SA með 71.04 stig.

Næst var komið að keppni í Junior með frjálsa prógrammið. Þar voru mættar til leiks 6 stúlkur allar frá sunnan félögunum tveim. Kristín Valdís Örnólfsdóttir SR, sigraði með miklum yfirburðum með 91.63 stigum samanlagt, önnur varð Margrét Sól Torfadóttir SR með 74.79 stig og þriðja varð Herdís Birna Hjaltalín SB með 73.88 stig.

Að lokum var komið að keppni í Senior með frjálsa prógrammið og þar var aðeins einn keppandi skráður til leiks. Eva Dögg Sæmundsdóttir SB. Hún lauk keppni á sínu fyrsta móti sem Senior skautari með 86.78 stigum.

Við þökkum Keppendum, dómurum og tæknifólki, starfsfólki mótsins og öllum gestunum kærlega fyrir helgina og hlökkum til að sjá ykkur sem flest á Bikarmóti ÍSS sem haldið verður í Laugardalnum helgina 13.-15. október.

Translate »