Íslandsmeistaramót ÍSS 2021: Seinni keppnisdagur

Íslandsmeistaramót ÍSS 2021: Seinni keppnisdagur

Seinni keppnisdagur á Íslandsmeistaramóti ÍSS 2021 fór fram í dag. Var þá keppt með frjálst prógram og skautarar kepptu í öfugri úrslitaröð stutta prógrammsins.

Fyrsti keppnisflokkurinn var Advanced Novice.
Elva Ísey Hlynsdóttir, Fjölni, byrjaði keppnisdaginn. Nokkrir hnökrar voru á stökkunum hjá henni en framkvæmdin var örugg og skilaði það henni 29.09 stigum fyrir frjálsa prógrammið og 47.98 í heildarstig sem færði henni fjórða sætið í heildina. Góð frammistaða á hennar fyrsta móti í keppnisflokknum.
Næst skautaði Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR. Dharma sýndi góða bætingu frá síðasta móti sem gaf henni 31.09 stig í dag og 50.30 í heildarstig og þriðja sætið í heildina.
Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, átti örugga frammistöðu í dag. Þrefalt Salchow (3S) var því miður undirsnúið (downgraded) en stigin hennar í dag voru 47.83 og heildarstigin samtals 74.73 sem færðu henni annað sætið.
Síðust í Advanced Novice var Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA. Hún er að verja titilinn frá síðasta tímabili og lagði allt í prógrammið. Það voru mörg erfið stökk element í prógramminu en hennar sterkasta frammistaða var í sporasamsetningunni þar sem að hún sýndi mjög áhugaverða útfærslu. Lokastig hennar fyrir daginn voru 50.01 og heildarstigin 80.15 sem færðu henni öruggan sigur.

Næsti keppnisflokkur var Junior Women.
Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, var fyrst inn á ísinn. Hún skilaði sínum elementum örugglega og fékk fyrir það 46.91 stig í dag og 70.43 í heildarstig sem færðu henni þriðja sætið.
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni var næst. Hún átti erfiðan dag í stökkunum í dag og mörg þeirra voru undirsnúin (downgraded/under). Styrkleiki Júlíu Sylvíu eru program components og var dagurinn í dag engin untantekning þar á. Hún er mjög músíkalskur skautari og njóta áhorfendur þess að horfa á hana skauta. Stigin hennar í dag voru 50.21 og heildarstigin 84.60 færðu henni annað sætið.
Síðust í keppnisflokknum var Júlía Rós Viðarsdóttir, SA. Hún lagði allt í sölurnar til þess að verja titilinn frá síðasta tímabili. Nokkrir hnökrar voru í stökkunum hjá henni og þrjú föll settu strik í reikninginn. Engu að síður fékk hún 66.29 stig fyrir frammistöðu sína í dag og 110.45 í heildarstig og er Júlía Rós því Íslandsmeistari Junior Women annað árið í röð.

Síðasti keppniflokkurinn var svo Senior Women.
Aldís Kara Bergsdóttir, SA, lét það ekki á sig fá að vera eini keppandinn í flokknum og var frammistaða hennar í dag frábær.
Hún negldi öll stökkin sín og var sporasamsetningin hennar örugg og það sama má segja um pírúetturnar hennar.
Fyrir frjála prógrammið hennar í dag fékk hún 88.83 stig og samanlagt 136.40 í heildarstig á mótinu. Hvoru tveggja, stig í frjálsu prógrammi og heildarstig, eru ný Íslandsmet. Bæði fyrri metin átti hún sjálf frá því á Reykjavíkurleikunum í janúar sl. Aldís Kara setti því ný Íslandsmet í öllum stigum á mótinu.

Allt í allt fór Íslandsmeistaramótið fram með góðu móti.

Skautasamband Íslands óskar nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju

Translate »