Heiðursverðlaun ÍSS 2021

Heiðursverðlaun ÍSS 2021

Skautasambands Íslands veitti á 22. Skautaþingi sínu Heiðursverðlaun ÍSS í þriðja sinn.

Að þessu sinn veitti stjórn fjórum einstaklingum Silfurmerki ÍSS.

Silfurmerki ÍSS er veitt þeim sem hafa unnið ötult og óeigingjarnt starf í þágu skautaíþrótta á Íslandi í 10 ár, eða þegar stjórn þykir sérstök ástæða til.

Erlendína Kristjánsson

Erlendína  þjálfaði listskauta bæði í Skautafélagi Reykjavíkur og til margra ára í Skautafélaginu Björninn, sem nú hefur sameinast Fjölni, þar sem að hún var yfirþjálfari.
Á árum sínum sem þjálfari, á öllum getustigum, tók hún þátt í ýmsum alþjóðlegum verkefnum með sínum skauturum og fór í fjölmargar landsliðsferðir með þeim.

Erlendína starfaði fyrir ÍSS til fjölda ára og á árunum 2005 – 2009 sat hún í stjórn sambandsins.
Hún var ein þeirra sem kom á fót þjálfararáði ÍSS og sinnti formennsku í þeirri nefnd.
Hún skipulagði og setti upp þjálfaramenntun ÍSS sem snýr að sérgreinahluta þjálfaranámsins og sá um menntun þjálfara á öllum stigum.

Árið 2017 tók hún að sér mótsstjórn á Norðurlandamótinu sem haldið var í Egilshöll. Þar leiðbeindi hún nýrri stjórn sambandsins og aðstoðaði við skipulag og framkvæmd mótsins í heild sinni. Þetta var jafnframt síðasta verkefnið sem hún sinnti fyrir ÍSS þar sem að á sama tíma greindist hún með krabbamein. Hún barðist hetjulega við krabbameinið í rúmlega tvö ár en því miður sigraði meinið hana í maí 2019.

Það var dóttir Erlendínu, Elizabeth Tinna eða Lizzy eins og við þekkjum hana, sem tók við Silfurmerki ÍSS fyrir hönd móður sinnar. Með viðurkenningunni þakkar ÍSS Erlendínu fyrir störf sín í gegnum tíðna.

Helga Olsen

Helga er menntaður skautaþjálfari og kennari. Hún hefur starfað sem skautaþjálfari alla sína tíð. Hún var ein þeirra sem stóð að stofnun Skautafélagsins Björninn og þar starfaði hún sem þjálfari og yfirþjálfari allra getustiga til fjölda ára.

Árið 2011 stofnaði Helga skautadeild innan Íþróttafélagsins Ösp. Íþróttafélagið Ösp er fjölgreinafélag sem stendur fyrir æfingum með sem fjölbreyttustum hætti þar sem einstaklingarnir ná að njóta sín sem best. Skautadeildin kennir eftir alþjóðlegum áfangamarkmiðum Special Olympics hreyfingarinnar þar sem kappkostað er að bjóða upp á metnaðarfullar, fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar. Hún starfar einnig með Tækninefnd Special Olympic International þar sem nýlega er búið að uppfæra dómarakerfi sem notað er í listskautum. Helga hefur sinnt þróunarvinnu fyrir Inclusive Skating og núna Adaptive Skating þar sem að kappkostað er að skautarar geti keppt á jafningjagrundvelli. Vinnuhóparnir eru alþjóðlegir og hefur tengslamyndum Helgu hjálpað Íslendingum að eiga sérfræðinga í framþróunarhópum á hinum ýmsu sviðum skautaíþrótta fyrir iðkendur með fatlanir.

Samhliða þjálfarastörfum sínum hefur Helga unnið margvíslega vinnu fyrir Skautasamband Íslands. Hún sat í þjálfararáði ÍSS þegar það var fyrst stofnað og kenndi sérgreinahluta þjálfaranáms ÍSS samhliða Erlendínu ásamt því að hún kom að upphaflegri uppsetningu á kennslukerfinu Skautum Regnbogann.

Árið 2016 tók Helga að sér formennsku í Afreksnefnd ÍSS, sem þá hér Valnefnd ÍSS. Hún vann samhliða stjórn að uppbyggingu og eflinu á afreksstarfi sambandsins sem hún sinni enn og hefur haldið fjölda fyrirlestra fyrir iðkendur, þjálfara og forráðamenn. Hún hefur síðstu árin unnið með afreksskauturum ÍSS í árlegum æfingabúðum ÍSS þar sem hún sinnir verkefnavinnu og markmiðasetningu varðandi prógrömmin þeirra.

Núna starfar Helga í þjálfunar- og fræðslunefnd ÍSS. Mikil vinna hefur verið lögð í að skilgreina og efla vinnu nefndarinnar og hefur hún tekið virkan þátt í því.

Síðstu árin hefur Helga séð um alla þjálfaramenntun innan ÍSS, með aðstoð góðs fólks. Námsskrá var gefin út sem setur námið markvisst upp og er það mun aðgengilegra. Allt námsefnið í þjálfaranáminu var uppfært og fært yfir í fjarnám með staðlotum. Helga hefur lagt mikla vinnu í verkefnið og skilar það sér í frábæru námsefni og námsskipulagi sem bæði þátttakendur og ÍSS eru mjög ánægð með.

Helga er vel að þessari viðurkenningu komin og óskar stjórn ÍSS henni innilega til hamingju.
Um leið og við þökkum fyrir störf hennar í gegnum tíðina þá hlökkum við til áframhaldandi samstarfs

Sigrún Inga Mogensen

Sigrún  kemur inn í skautaíþróttina sem foreldri iðkanda. Foreldrar gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki innan íþrótta og með sjálfboðaliðastörfum þeirra gera þau iðkendum kleift að æfa sína íþrótta áhyggjulaus og viss um að allt gangi upp.

Árin sem Sigrún hefur starfað innan skautaíþrótta eru fjölmörg og hefur hún sinnt ýmsum störfum innan Skautasambandsins. Hún sat í stjórn ÍSS á árunum 2005-2009 og fór á þeim tíma á tvö þing alþjóðaskautasambandsins.

Hún sinnti uppbyggingarstarfi á mörgum sviðum og sinnti samhæfðum skautadansi, synchro, sérstaklega. Hún var fararstjóri í ýmsum ferðum og ferðaðist um allan heim á allskonar mót með flestum liðum sem hafa keppt alþjóðlega fyrir Íslandshönd í íþróttinni.

Sigrún sat í Valnefnd ÍSS, sem nú heitir Afreksnefnd, og tók við sem formaður nefndarinnar tímabilið 2015-2016.

Árið 2003 lærði Sigrún að sinna starfi Data og Video operator á og hefur hún setið á tæknipanel á nánast hverju einasta móti ÍSS síðan þá, og gerir það enn.

Sigrún er vel að þessari viðurkenningu komin og óskar stjórn ÍSS henni innilega til hamingju.
Um leið og við þökkum fyrir störf hennar í gegnum tíðina þá hlökkum við til áframhaldandi samstarfs.

Þóra Gunnarsdóttir

Þóra  hefur starfað fyrir ÍSS frá því arið 2008. Hún sat í stjón á árunum 2008-2012 og svo aftur frá 2014-2016. Á árum hennar í stjórn sat hún í hinum ýmsu vinnuhópum og sat í grunnprófsnefnd og leiddi milliþinganefnd.

Þóra hefur sinnt ótal sjálfboðaliðastörfum innan skautaíþrótta bæði á Íslandi og erlendis en hún hefur verið sjálfboðaliði á ISU mótum einnig.

Árið 2016 tók Þóra að sér formennsku í Mótanefnd ÍSS og setti þar upp vinnulag og verklagsreglur sem auðvelda undirbúning og skipulag mótahalds á Íslandi. Hún hélt mótstjóranámskeið fyrir mótstjóra aðildarfélaganna sem setur grunninn að áframhaldandi samvinnu ÍSS og aðildarfélaganna um mótahald.

Hún er núna formaður Laganefndar ÍSS þar sem mikil og góð vinna fer fram. Hún starfar einnig í vinnuhóp um skautahlaup á Íslandi þar sem unnið er að uppbyggingu íþróttarinnar á Íslandi að nýju.

Áhugi og þekking Þóru á skautaíþróttum og sögu skautaíþrótta á Íslandi er gríðarlegur. Hún hefur til að mynda haldið utan um og sett upp afrekaskrá íslenska skautara og sett upp Wikipedia síður um íslenska skautara, íslensk mót og listskautamót Reykjavíkurleikanna.

Á árunum 2017-2020 sinnti hún einnig stöðu fjölmiðlafulltrúa ÍSS þar sem hún sá um samfélagsmiðla sambandsins og efldi íslenska skautara til þess að kynna bæði sig og íþróttina opinberlega.

Þóra er vel að þessari viðurkenningu komin og óskar stjórn ÍSS henni innilega til hamingju.
Um leið og við þökkum fyrir störf hennar í gegnum tíðina þá hlökkum við til áframhaldandi samstarfs.

Translate »