Skautaárið 2019 – Annáll ÍSS

Skautaárið 2019 – Annáll ÍSS

Skautasamband Íslands sendir skauturum, félögum og landsmönnum öllum óskir um farsælt komandi ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Í lok árs er tilefni til þess að líta yfir farinn veg og rifja upp þann árangur sem skautarar okkar hafa sýnt á árinu.

International Childrens Games

Fimm íslenskir skautarar tóku þátt á International Childrens Games sem fóru fram í Lake Placid í Bandaríkjunum 6. – 11. janúar.
Tveir skautarar fóru fyrir ÍBA þær Júlía Rós Viðarsdóttir og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir. Frá ÍBR fóru þrír skautarar; Aníta Núr Magnúsdóttir, Herdís Heiða Jing Guðjohnsen og Rebekka Rós Ómarsdóttir. Íþróttabandalögin stóðu að vali þátttakenda á sínum vegum.

Íslandsmet á RIG 2019

Reykjavíkurleikarnir (RIG) fóru fram í Skautahöllinni í Laugardal 1. – 3. febrúar.
Það er alltaf gaman að sjá rjómann af íslensku skautafólki keppa við mjög frambærilega erlenda skautara.
Íslenskir skautarar voru á verðlaunapalli bæði í Advanced Novice Girls, þar sem Júlía Rós Viðarsdóttir var í öðru sæti, og í Junior Ladies, þar sem Aldís Kara Bergsdóttir var í öðru sæti og Marta María Jóhannsdóttir í því þriðja.
Á mótinu fékk Aldís Kara hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið í keppni og setti þar með nýtt Íslandsmet í Junior Ladies.

Norðurlandamót – íslenskt stigamet

Skautasambandið sendi níu keppendur til þátttöku á Norðurlandamótinu sem var að þessu sinni haldið í Lynköping í Svíþjóð. Júlía Rós Viðarsdóttir var í 16.sæti í flokki Advanced Novice Girls, hæst íslensku skautaranna í þeim flokki. Aldís Kara Bergsdóttir var í 12.sæti í flokki Junior Ladies með 103.52 stig sem eru hæstu stig íslensks skautara í junior á Norðurlandamóti. Eva Dögg Sæmundsdóttir var eini íslenski keppandinn í flokki Senior Ladies og endaði hún í 15.sæti.
Á mótið sendi ÍSS einnig dómara og tæknifólk þær Maríu Fortescue, dómara, Ásdísi Rós Clark, tæknisérfræðing, og Sunnu Björk Mogensen, DVO.
Á mótinu fór einnig fram Norðurlandamótaþing (e. Nordic Meeting) sem er árlegur fundur. Á þessum fundi var tekin sú ákvörðun að opna Junior flokkana, líkt og hefur verið með Senior flokkana síðan árið 2011. Sem þýðir að öll landssambönd sem eru aðili að Alþjóða skautasambandinu (ISU) hafa leyfi til þess að skrá keppendur á mótið.
Við þessa breytingu munu stigin sem keppendur fá í þessum flokki gilda til þátttöku á Heimsmeistaramóti Unglinga (Junior Worlds) og inn á heimslista ISU.

EYOF

Marta María Jóhannsdóttir var fulltrúi ÍSS á Evrópuhátíð Ólympíuæskunnar EYOF sem fram fór í Sarajevo í Bosníu og Herzegovínu. Marta María hélt út ásamt 11 öðrum ungum íþróttamönnum í alpagreinum, skíðagöngu og snjóbretti. Hátíðin er öll hin glæsilegasta og mikið um að vera og standa íslensku keppendurnir vel við bakið á hver öðrum. Marta María endaði í 21. sæti.

Háskólaleikarnir

Eva Dögg Sæmundsdóttir tók þátt á Háskólaleikunum, Universiade 2019, sem fram fóru í Krasnoyarsk í Síberíu. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur tekur þátt á leikunum. Keppendur þurfa að vera háskólanemendur frá viðurkenndri menntastofnum og í námi er leiðir að útskrift, diplómanámi eða hliðstæðu. Það er því í ærnu að snúast að sameina háskólanám með fullri íþróttaiðkun ásamt því að sjá um allan undirbúning og koma fram sem sendinefnd Íslands í ofanálag.

20. Skautaþing Skautasambands Íslands

Skautaþingið var að þessu sinni haldið á Hótel B59 í Borgarnesi.
Fyrir þingið fór fram málþing um Siðareglur og hegðunarviðmið í íþróttum sem var í umsjón Maríu Fortescue, þáverandi framkvæmdastjóra ÍSS.
Að því loknu hófst svo skautaþingið og var þar kosin ný stjórn og varastjórn.
Á þinginu fengu tveir sjálfboðaliðar viðurkenningu fyrir framlag sitt til mótamála og starfs félaganna. Það voru þær Hildur Arnardóttir og Margrét Rún Karlsdóttir.
Ákveðið var að á 20. þinginu yrðu tekin upp heiðursverðlaun í formi silfur og gullmerkja og heiðursstjörnu. Ákveðið var að veita Elísabetu Eyjólfsdóttur, fyrsta formanni ÍSS, silfurmerki ÍSS.
Að loknu þingi færðu fundargestir sig fram í anddyri hótelsins þar sem boðið var upp á drykk. Hátíðarkvöldverður hófst klukkan 18:00 þar sem góður hópur þinggesta naut samveru fram á kvöld.

Kristín Valdís Örnólfsdóttir var ungur sendiherra ÍSÍ á EYOF 2019

Sumarleikar Evrópuæskunnar 2019 (EYOF) fóru fram í Baku, Azerbaijan.
Kristín Valdís var valin sem ungur sendiherra (Young Ambassador) fyrir Ísland. Þetta er þriðja árið sem Young Ambassador verkefnið er haldið og er aðal markmið þess að upplýsa ungt íþróttafólk um gildi Olympíuleikanna en þau eru virðing, vinátta og ágæti (respect, friendship, excellence).

Bikarmótaröð ÍSS

Í stað þess að halda eitt Bikarmót hefur ÍSS ákveðið að setja af stað Bikarmótaröð.
Haustmót, Vetrarmót og Vormót eru hluti af Bikarmótaröðinni og verða Bikarmeistarar krýndir í lok Vormóts.
Bikarmeistaratitillinn verður veittur stigahæsta félaginu í lok tímabilsins, byggt á árangri allra skautara.

Junior Grand Prix 2019 – stigamet slegið

Fulltrúar Íslands árið 2019 á JGP voru Aldís Kara Bergsdóttir, sem keppti í Lake Placid í Bandaríkjunum, og Marta María Jóhannsdóttir, sem keppti í Gdansk í Póllandi.
María Fortescue fór sem dómari fyrir Íslands hönd til Lake Placid og Halla Björg Sigurþórsdóttir dæmdi í Gdansk.
Aldís Kara felldi nokkur met á mótaröðinni. Fyrir stutta prógramið fékk hún 39.28 stig, fyrir frjálsa fékk hún 67.15 stig og heildarstigin urðu 106.43. Allt eru þetta stigamet íslensks skautara á JGP og bætti hún öll met Viktoríu Lindar Björnsdóttur frá því í fyrra.

Evrópumót Special Olympics

Dagana 10. – 11. október fór fram Evrópumót Special Olympics í Espoo í Finnlandi. Mótið er haldið samhliða Finlandia Trophy, sem er hluti af Challenger Series hjá ISU þar sem keppt er í einstaklings skautum, para skautum, ísdansi og samhæfðum skautum.
Þetta er í fyrsta sinn sem Special Olympics keppnisflokkar eru hluti af Finlandia Trophy Mótið er eitt það elsta og virtasta á dagatali ISU og aldrei áður hafa verið íslenskir skautarar meðal keppenda.
Fulltrúar Íslands á mótinu voru þær Védís Harðardóttir, Nína Margrét Ingimarsdóttir og Gabriella Árnadóttir.
Samhliða mótinu var haldið námskeið fyrir dómara og tæknifólk.
Er þetta í fyrsta sinn sem nýtt dómarakerfi er notað, en tækninefnd Special Olympics International hefur síðustu þrjú árin unnið að uppfærslu á dómarakerfinu úr gamla 6.0 kerfinu yfir í aðlagaða útgáfu af alþjóða dómarakerfi ISU (IJS).
Fulltrúi ÍSS á námskeiðinu var Svava Hróðný Jónsdóttir, en hún hefur starfað með tækninefnd SOI að uppfærslunni á kerfinu.

Aldís Kara með ISU TES lágmörk fyrir Junior Worlds í stutta prógramminu

Halloween Cup fór fram í Búdapest í Ungverjalandi dagana 16. – 18. október.
ÍSS sendi til þátttöku fjóra keppendur þær Eydísi Gunnarsdóttur og Júlíu Rós Viðarsdóttur í Advanced Novice og þær Aldísi Köru Bergsdóttur og Mörtu Maríu Jóhannsdóttur í Junior Ladies.
Lágmörkin inn á ISU Junior Worlds eru 23.00 tæknistig (e.TES) í stuttu prógrammi og 38.00 tæknistig í frjálsu prógrammi. Ná þarf þessum stigum á alþjóðlegu móti á lista ISU, en ekki þarf að ná þeim á sama móti.
Með framkvæmd sinni á mótinu náði Aldís Kara Bergsdóttir 23.22 tæknistigum.
Hún er annar skautarinn til þess að ná tæknistigunum í stuttu prógrammi, en Kristín Valdís Örnólfsdóttir náði þeim á RIG 2018.
Samanlagt fékk Aldís Kara 108.61 stig og tryggði sér 15.sætið á mótinu.

Aldís Kara með Íslandsmet á Vetrarmóti ÍSS

Aldís Kara setti hvert metið í Junior á fætur öðru á árinu og var Vetrarmót ÍSS þar engin undantekning. Fyrir stutta prógramið fékk hún 44.95 stig sem er bæting um þrjú stig. Fyrra metið átti hún sjálf frá Vormóti ÍSS í apríl. Hún bætti einnig stigametið í frjálsa prógraminu um 0.74 stig frá því að hún setti það sjálf á Haustmóti ÍSS í september með 82.74 stigum. Það þarf því ekki að tíunda að heildarstig hennar uppá 127.69 er heildarstigamet og hvorki meira né minna en um heil 11.60 stig. Fyrra metið átti hún einnig sjálf frá Haustmótinu.
Metin eru öll stigamet í Junior sem og hæstu stig sem skautari hefur fengið á landsvísu.

Íslandsmeistarar ÍSS 2019

Íslandsmeistari í flokki Advanced Novice er Júlía Rós Viðarsdóttir með næstum mínuslaust frjáls prógram. Aldís Kara Bergsdóttir átti í harðri baráttu við Viktoríu Lind Björnsdóttir um Íslandsmeistaratitilinn í flokki Junior Ladies og sigraði að lokum með 6 stiga mun.

 

Á árinu sem er að líða voru ótal met slegin og ný skref tekin á öllum vígstöðum. Það má með sanni segja að árið 2019 hafi verið framfaraár innan listskautaíþróttarinnar á Íslandi. Íslenskir skautarar hafa staðið sig vel bæði á innlendum og erlendum vettvangi og verður spennandi að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér.

Translate »